Forseti Íslands setur þingið

Þriðjudaginn 01. október 1996, kl. 14:14:44 (1)

1996-10-01 14:14:44# 121. lþ. 0.1 fundur 2#B forseti Íslands setur þingið#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur

[14:14]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 17. september 1996 var gefið út svofellt bréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 1. október 1996.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett, að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 17. september 1996.

Ólafur Ragnar Grímsson.

-------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 1. október 1996.``

Samkvæmt því bréfi sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Það eru 1066 ár frá því að Alþingi var stofnað á Þingvöllum en þingið sem nú tekur til starfa er 121. löggjafarþing frá því að Alþingi var endurreist.

Alþingi skipar veglegan sess í sögu þjóðarinnar. Engin önnur stofnun vísar jafnskýrt til uppruna Íslendinga og örlaga landsmanna á liðnum öldum. Eftir endurreisn var Alþingi vettvangur sigra í baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði, lýðréttindum og alhliða framförum. Hér var staðfestur árangur í langri og oft erfiðri sókn fólksins í landinu til aukins réttar og bættra kjara.

Þingmennirnir, sem fyrst komu saman í sal Lærða skólans en síðan hér við Austurvöll, höfðu orðin ein að vopni. Þeir studdust við söguleg rök og fornan rétt, vísuðu til þjóðlegrar menningar og arfleifðar, en byggðu málflutning sinn á alþjóðlegum frelsishugmyndum samtímans. Á þennan hátt unnu þeir hvern sigurinn af öðrum með orðsins brandi einum saman.

Flestar aðrar þjóðir hafa orðið að færa mannfórnir til að öðlast fullveldi og festa í sessi lýðræðisskipan og þingræði. Þúsundir hafa látið lífið, þolað fangelsun eða refsingar í þágu þessara hugsjóna. Enn á okkar dögum eru þjóðir og samfélög víða um heim að öðlast á dýrkeyptan hátt þau lýðréttindi sem við Íslendingar teljum sjálfsögð og eðlileg, jafnvel svo hversdagsleg að varla taki því að minnast á þau við hátíðleg tækifæri.

Lýðræðið kann á stundum að þykja litlaust og starfsvettvangur þingsins viðburðasnauður en væri hvort tveggja á brott numið yrðum við fórnarlömb umskipta sem mundu kollsteypa flestu því sem okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt í mannlegu félagi.

Þegar Ásgeir Ásgeirsson kom hér í þingsalinn í fyrsta sinn sem forseti lýðveldisins vék hann nokkuð að stöðu Alþingis og sagði:

,,Á Alþingi heyr þjóðin sitt hagsmuna- og hugsjónastríð. Kosningar og flokkaskipting er sú borgun sem vér greiðum fyrir afnám hnefaréttarins. Þarfirnar segja til sín um land allt og í öllum stéttum. Flokkar semja sér stefnuskrár og bræða þær saman í stjórnarsamvinnu. Svo kemur veruleikinn máski og takmarkar getuna. Það hendir jafnvel þingmenn, án þess að sé um að sakast, og ríkisstjórnir að þurfa stundum að gera fleira en gott þykir og annað en vonir stóðu til. En hvað sem því líður, þá er allt þetta framför og hámenning borið saman við það þegar höfðingjar kölluðu menn frá vinnu um hábjargræðistímann og fóru um héruð fylktu liði, drepandi, eyðandi og étandi upp búfé bænda á Sturlungaöld.``

Ásgeir Ásgeirsson forseti sagði einnig við þingsetninguna 1952, hina fyrstu að loknum forsetakosningum, að hann væri þakklátur fyrir að hafa átt sæti á Alþingi um langt skeið og bætti svo við:

,,Það er ekki einungis vegna þess að þar er gott að fylgjast vel með því hvað gerist í löggjöf og þjóðmálum, heldur einnig hinu hvernig það gerist. Ég segi það umbúðalaust að þingmenn eru heiðarlegir menn og áhugasamir um að láta gott af sér leiða. Á Alþingi þróast engin spilling sem ekki gætir eins á öðrum sviðum mannlegs samstarfs. Flokkar lúta að vísu að sumu leyti öðrum lögmálum en einstaklingar, hver út af fyrir sig, en bæði flokkar og einstakir þingmenn hafa sinn metnað sem getur verið hvort tveggja, heilbrigður og óhóflegur. Það mætti miklu góðu koma til leiðar ef ofmetnaður truflaði aldrei almenningsheill. Lýðræðinu er hætta búin þegar harðstjórn og einræði ná tökum á flokkum. Þeirra er ekki síst skyldan að vera demókratískir ef þjóðfélagið á að vera það í heild.``

Það er hollt að hugleiða þessa áminningu Ásgeirs Ásgeirssonar. Hún hefur haldið gildi sínu í rösk fjörutíu ár.

Allir hafa fyrirrennarar mínir flutt hér við upphaf þings hvatningarorð og hugleiðingar um brýn viðfangsefni á hverri tíð. Það er fróðlegt og lærdómsríkt að skoða málflutning forsetanna fjögurra í þessum sal. Þær ræður veita margvíslegar vísbendingar um samband forseta við þing og þjóð.

Þegar ég feta nú í þeirra fótspor og kem hér til þings með nýja ábyrgð á herðum vil ég þakka alþingsmönnum öllum samstarf og vináttu á liðnum árum og láta í ljósi ósk um farsæl samskipti við Alþingi og ríkisstjórn.

Íslenskt þjóðfélag hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum. Þær breytingar hafa haft margvísleg áhrif á stöðu og viðfangsefni Alþings. Að vissu leyti heyr þingið nú varnarbaráttu til að tryggja að það vald sem því ber samkvæmt lýðræðisgrundvelli íslenskrar stjórnskipunar flytjist í reynd ekki smátt og smátt til sérfræðistofnana framkvæmdarvaldsins eða til starfsliðs og stjórnenda hagsmunasamtaka.

Þessi þróun er ekki einstök fyrir samfélag okkar. Við þennan vanda er glímt í þjóðþingum allra þróaðra lýðræðisríkja og brugðist við með mismunandi hætti. Tvennt ber þó hæst í vörn þjóðþinganna.

Í fyrsta lagi að nýta sér tækni sjónvarps, útvarps og alnets til að gera umræður og þingskjöl jafnóðum aðgengileg alþjóð. Beinar útsendingar frá umræðum í löggjafarstofnun og jafnvel endurtekningar um kvöld og helgar þegar fólk hefur tóm til að hlýða á málflutning kjörinna fulltrúa sinna eru víða í þróuðum lýðræðisríkjum talin mikilvæg aðferð til að styrkja lýðræðislega stöðu þingsins.

Það er fróðlegt í þessu sambandi að minnast þess að við endurreisn Alþingis árið 1845 var helsta krafa frelsissinna að þinghaldið yrði allt í heyranda hljóði. Hannes Stephensen, prófastur og alþingsmaður, benti konungsfulltrúa á mikilvægi þessarar kröfu ,,enda væru opnar dyr það sem allir hér á landi mundu óska eftir, með því Alþing hið forna hefði og verið haldið í heyranda hljóði; héldi hann og þetta einkar afdrifamikið fyrir vinsældir þingsins og þess gagnsemi``, eins og segir í Tíðindum frá Alþingi Íslendinga 1845.

Kandidat, Jón Sigurðsson eins og hann var þá nefndur í þingtíðindum, kvaðst hafa meðferðis bænarskrá umr þetta efni og lét í ljósi að þetta mundi vera skýlaus vilji allrar þjóðarinnar eins og einnig er greint frá í þingtíðindum.

Forustumönnum sjálfstæðisbaráttunnar var á fyrsta fundi hins endurreista Alþingis ljóst að forsenda fyrir áhrifum þingsins og gagnsemi var að landsmenn allir ættu rétt á að fylgjast með störfum þingsins. Nú hefur ný tækni gert okkur kleift að veita öllum þennan rétt hvar sem menn búa á landinu og í krafti alnetsins einnig þeim sem dveljast um langa eða skamma hríð fjarri fósturjörðinni.

Í öðru lagi hafa þjóðþing víða stigið skref í þá átt að styrkja starfsnefndir þingsins og efla getu þeirra til að vega og meta kröfur og álit ólíkra hagsmunaafla. Að nokkru hefur hér á landi á síðustu árum verið haldið inn á þessar brautir og er það vel. En vissulega kæmi til greina að veita þjóðinni allri einnig áheyrnarrétt að umræðum um mikilvægustu efnisþætti á vettvangi nefnda þingsins líkt og gert er víða í erlendum þjóðþingum. Slík skipan væri vissulega í samræmi við þau sjónarmið Jóns Sigurðssonar og samherja hans á Alþingi að þingið yrði háð í heyranda hljóði enda væru það ,,forn réttindi er Íslendingar hefðu áður notið`` eins og Jón forseti komst að orði í umræðunum 1845.

Vandi þjóðþinga á okkar tímum felst í þeirri þversögn að annars vegar styrkist krafan um aukið lýðræði og opnari stjórnunarhætti og hins vegar hafa samtök sérhagsmuna eflst að skipulagi og sérfræði ásamt því að embættisstofnanir framkvæmdarvaldsins verða sífellt öflugri bakhjarl ríkisstjórna sem löngum vilja beita þingin agavaldi.

Í þessari þraut er engin lausn án erfiðleika eða togstreitu. Hollt er að minnast þess að grundvöllur lýðræðis og lýðveldis í stjórnskipan okkar Íslendinga er að valdið er hjá fólkinu, þjóðinni sjálfri. Ekki aðeins á kjördag á nokkurra ára fresti, heldur ávallt og ævinlega.

Það er í samræmi við þennan lýðræðislega grundvöll stjórnskipunarinnar að þjóðin velur sjálf forseta lýðveldins. Umboð hans er frá fólkinu í landinu. Við embættistökuna 1. ágúst síðastliðinn sagði ég að starf forseta Íslands fælist fyrst og fremst í þjónustu við þjóðina. Einungis dómgreind, lífsreynsla og lifandi tengsl við fólkið í landinu gætu vísað forseta rétta leið í starfi.

Þessa leiðsögn árétta ég nú en minni jafnframt á að þótt kjördæmi og stjórnmálaflokkar eigi hlut að skipan Alþingis er þjóðin sjálf herra okkar allra. Almannahagur er sú viðmiðun sem mestu máli skiptir.

Kristján Eldjárn, þriðji forseti Íslands, orðaði þessa skyldu Alþingis svo í ræðu við þingsetningu árið 1970:

,,Ábyrgð Alþingis er því mikil, bæði einstakra þingmanna og þingsins í heild. Þeim öflum sem að verki eru í þjóðfélaginu, félagslegum hreyfingum þess, þörfum og kröfum og úrlausnarefnum hvers konar og á öllum sviðum má líkja við fjölþætt og flókið kerfi stórra og smárra vatna, sem koma langt og víða að en hníga þó öll að lokum að einum miklum farvegi. Alþingi er slíkur farvegur, farvegur landsmálanna. Í þeim farvegi hljóta að verða straumköst, en traustur farvegur á að hemja þau öfl sem innan hans byltast og skila öllu að ósi farsællega án þess að bresta. Sú er ætíð ósk og von þjóðarinnar í hvert sinn sem Alþingi kemur saman.``

Þessi orð Kristjáns Eldjárns við þingsetninguna 1970 geri ég nú að mínum.

Á komandi vetri bíða þingsins mörg erfið úrlausnarefni. Mikilvægt er að varðveita þann stöðugleika í verðlagsmálum sem haldist hefur í rúman hálfan áratug. Einnig þarf jafnt og þétt að ná jafnvægi í viðskiptum okkar við umheiminn, draga úr erlendum skuldum og styrkja hér innan lands í senn rekstrargrundvöll ríkissjóðs og fjárhagsstöðu heimilanna.

Þessi viðfangsefni kunna á næstunni að reyna á þolrif þings og þjóðar vegna ólíkra viðhorfa til þess hvernig best er að nýta þann ávinning sem er í vændum og að hluta er ávöxtur þeirra fórna sem almenningur hefur fært á undanförum árum.

Erfiðleikar hafa löngum fært Íslendinga saman en með betri tíð hefur á stundum losnað um samfylgdina. Nú ríður á að þing og þjóð beri gæfu til að finna leiðir sem í senn styrkja efnahagslífið og bæta lífskjör heimilanna.

Ég óska Alþingi alls velfarnaðar í vandasömum störfum og bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast fósturjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Ég vil nú biðja þann þingmann sem lengsta þingsetu hefur að baki, hv. þm. Ragnar Arnalds, að ganga til forsetastóls og taka við stjórn fundarins uns forseti Alþingis hefur verið kosinn.