Kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa

Þriðjudaginn 01. október 1996, kl. 14:38:41 (7)

1996-10-01 14:38:41# 121. lþ. 0.2 fundur 3#B kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur

[14:38]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Hv. alþingismenn. Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Ragnari Arnalds, árnaðaróskir í minn garð. Enn fremur þakka ég hv. alþingisþingmönnum fyrir það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að endurkjósa mig forseta Alþingis. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við alla alþingismenn á því þingi sem nú fer í hönd eins og á síðasta þingi.

Þessi þingsetningarfundur markar þau tímamót að þetta er í fyrsta skipti sem nýkjörinn forseti lýðveldisins, herra Ólafur Ragnar Grímsson, setur þingið. Ég vil nota þetta tækifæri til að láta í ljós þá ósk að Alþingi megi eiga gott samstarf við nýkjörinn forseta Íslands um leið og ég ítreka þakkir alþingismanna til fráfarandi forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrir sérstaklega vel unnin og farsæl störf í þágu þjóðarinnar.

Ég hef frá því ég tók fyrst við embætti forseta Alþingis lagt á það áherslu að það væri meðal mikilvægustu verkefna forustu þingsins að koma húsnæðismálum þess í viðunandi horf. Einn þáttur í þessum efnum eru endurbætur þær sem nú er að ljúka á húsum í eigu Alþingis við Kirkjustræti. Þess er vænst að hægt verði að taka húsnæðið í notkun fyrir lok þessa mánaðar. Þessi hús munu sóma sér vel sem skrifstofur fyrir alþingismenn og starfsfólk Alþingis og bæta nokkuð þá bágu aðstöðu sem margir þingmenn og starfsmenn búa við. Vil ég láta í ljós sérstaka ánægju með hversu vel hefur tekist til við endurgerð húsanna.

Húsin við Kirkjustræti leysa hins vegar ekki nema að takmörkuðu leyti úr þeim húsnæðisvanda sem þingið býr við. Vandinn er ekki síst fólginn í því að Alþingi starfar nú í átta húsum og stafar af því margvíslegt óhagræði. Á vegum forsætisnefndar hefur því um skeið verið unnið að athugun á því hvernig nýta megi Alþingisreitinn til nýbygginga fyrir þingið. Ég vænti þess að niðurstaða fáist í því máli.

Í ávarpi mínu við þingfrestun í vor nefndi ég að brýnt væri að bæta húsnæðisaðstöðu nefndanna. Fyrirhugað er að þeir þingmenn er nú hafa skrifstofur í Þórshamri flytji í annað húsnæði þingsins og eru þeir flutningar í tengslum við ýmsar tilfærslur er verða við það að Kirkjustrætishúsin verða tekin í notkun. Við þessa flutninga skapast möguleikar á að bæta nokkuð starfsaðstöðu nefndanna í Þórshamri sem og þjónustu við þær.

Að venju hefur forsætisnefnd samþykkt starfsáætlun fyrir það þing sem nú er að hefjast og verður henni útbýtt til þingmanna á morgun. Ég vil vekja athygli á þremur atriðum í starfsáætluninni. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir þinghléi vikuna 21.--25. október líkt og á síðasta þingi til að gera þingmönnum kleift að halda fundi í kjördæmum sínum. Í öðru lagi er það nýmæli að þingfundir falla niður í eina viku í lok nóvember og eina viku fyrri hluta aprílmánaðar og verður þessi tími notaður til nefndastarfa einvörðungu. Þetta er í samræmi við það sem ég boðaði í ávarpi mínu við þingfrestunina í vor að nauðsynlegt væri að tryggja nefndunum rýmri tíma til starfa þegar drægi að lokum þingstarfa fyrir jól og að vori. Í sama ávarpi nefndi ég einnig að heppilegt væri að koma þeirri skipan á að nefndastörfum ljúki a.m.k. tveimur vikum fyrir þingfrestun að vori. Slíkt gæfi þinginu rýmri tíma til að fjalla um og afgreiða mál sem nefndir skila áliti um. Í starfsáætlunni er því miðað við að reglulegu nefndastarfi ljúki 30. apríl en þingfrestun verði 16. maí. Ég legg á það áherslu að þess verði gætt að þingfrestun í vor verði samkvæmt starfsáætlun.

Þær breytingar sem ég hef hér nefnt á starfsháttum nefndanna eru hins vegar aðeins angi af stærra máli sem er heildarendurskoðun á starfsháttum þingsins og þar með endurskoðun á þingsköpum. Ég vil ítreka vilja minn til að beita mér fyrir endurskoðun og breytingum á þingskapalögum sem ætla má að samstaða geti tekist um meðal þingflokka. Ég tel þýðingarmikið að við höldum áfram á þeirri braut sem mörkuð var með stjórnarskrár- og þingskapalagabreytingunum 1991, að koma starfsháttum þingsins í nútímalegra horf. Ég hef áður úr þessum stól sagt að við getum ekki vikið okkur undan þeirri skyldu að taka á fjölmörgum atriðum í okkar starfsháttum sem eru úr takt við tímann og eru í reynd dæmi um úrelt vinnubrögð. Ég tel t.d. að það fyrirkomulag er gildir um útvarp og sjónvarp frá Alþingi sé ekki til þess fallið að glæða áhuga almennings á störfum þingsins. Ég heiti því á samstarf þingmanna um þetta efni í þeirri von að okkur takist að ljúka heildarendurskoðun á starfsháttum Alþingis fyrir lok þessa kjörtímabils.

Númtímalegir starfshættir á Alþingi eru þó ekki bara spurning um orðalag þingskapa. Fjölmargt hefur verið gert á undanförnum árum til að bæta starfshætti þingsins og má þar m.a. nefna aukna og bætta þjónustu við nefndir þingsins. Í þessu sambandi vil ég einnig láta í ljós sérstaka ánægju með það góða starf sem unnið hefur verið af hálfu skrifstofu þingsins með því að byggja upp gagnabanka um Alþingi og störf þess. Þessi gagnabanki nýtist ekki aðeins alþingimönnum heldur er aðgengilegur almenningi á heimasíðu Alþingis á tölvunetinu. Það er því sérstakt fagnaðarefni að heimasíða Alþingis fékk nýlega viðurkenningu Samtaka tölvu- og fjarskiptanotenda sem besta íslenska upplýsingasíðan á tölvunetinu. Það ágæta starf sem unnið hefur verið með heimasíðu Alþingis er dæmi um þau nútímalegu vinnubrögð sem þinginu ber að setja í öndvegi.

Aukin alþjóðleg samskipti þingmanna eru einn sá þáttur sem sett hefur sterkan svip á störf þingmanna um allan heim. Alþingi tekur reglulega þátt í starfi níu alþjóðlegra þingmannasamtaka. Með hliðsjón af auknu mikilvægi alþjóðastarfs þingmanna ákvað forsætisnefnd nýlega að endurskipuleggja þjónustu skrifstofu þingsins við alþjóðastarf þingmanna og koma á fót sérstöku alþjóðasviði innan skrifstofunnar. Þess er vænst að þetta tryggi betri þjónustu við þingmenn. Jafnframt ákvað forsætisnefnd að taka skipulagsmál skrifstofunnar að öðru leyti til endurskoðunar og samþykkti fyrir nokkru nýtt skipurit fyrir skrifstofuna. Þannig hefur deildum verið fækkað og þær sameinaðar í stærri einingar. Þær breytingar miða að því að gera störf skrifstofunnar skilvirkari og markvissari. Sérstakur upplýsingabæklingur um skrifstofuna verður afhentur þingmönnum síðar í mánuðinum þegar breytingar þessar eru að fullu frágengnar.

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að skýra frá því að í morgun var afhjúpaður skjöldur í Alþingisgarðinum í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að framkvæmdum við hann lauk. Alþingisgarðurinn er elsti varðveitti skrúðgarðurinn á Íslandi. Skjöldur þessi er settur upp að frumkvæði Félags íslenskra landslagsarkitekta og vil ég þakka félaginu fyrir þessa ræktarsemi við Alþingisgarðinn.

Ég endurtek þakkir mínar til þingheims fyrir að trúa mér fyrir þessu embætti. Það er ásetningur minn að eiga gott samstarf við alþingismenn.

[14:45]