Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 21:28:16 (18)

1996-10-02 21:28:16# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:28]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Þessa stundina erum við Íslendingar minntir óþyrmilega á að við búum í landi mikilla andstæðna. Eftir eitthvert besta sumar í manna minnum skelfur landið, gosmökk leggur upp um jökulsprungur með ösku og eimyrju og von er á hlaupi sunnan jökla. Þeir árar sem öldum saman ollu landsmönnum búsifjum og hörmungum gretta sig framan í okkur en sá er munurinn að við erum þess megnug að verjast betur en fyrri kynslóðir og njótum ríkulega þeirra kosta sem landið býður upp á þó ekki sé þeim jafnt skipt.

Ríkisstjórnin heldur því fram að sumar ríki í íslenskum þjóðmálum en rétt eins og náttúruöflin hafa lengi kraumað undir jöklum er ekki allt sem sýnist í okkar samfélagi. Undir yfirborði hagvaxtar, aukins innflutnings og gróða stórfyrirtækjanna bullar og sýður vegna lágra launa, launamisréttis og niðurskurðar í heilbrigðis- og menntamálum. Skemmst er að minnast þeirrar aðfarar að réttindum stéttarfélaganna í landinu sem ríkisstjórnin stóð fyrir sl. vor sem á eftir að hafa mikil áhrif á komandi kjarasamninga. Hundruð Íslendinga hafa flutt af landi brott á undanförnum árum í leit að betri lífskjörum, þótt nú hafi dregið úr, sem minnir okkur á að við erum orðin hluti af stórum vinnumarkaði sem freistar og býður betur en sá íslenski. Þá eru afleiðingar mikilla þjóðfélagsbreytinga að koma æ betur í ljós í vanrækslu barna, ofbeldi af ýmsu tagi og félagslegum erfiðleikum sem samfélagið virðist eiga afar erfitt með að horfast í augu við. Líf og aðstæður fjölskyldnanna, staða barna og bættur hagur kvenna hefur ekki verið ofarlega á dagskrá þeirra íslensku ráðamanna sem skynja stjórnmál í líki talna, súlna og línurita í heimi þar sem allt virðist útreiknanlegt og lítt er spurt hvað að baki býr. Við súpum nú seyðið af stefnuleysi, skilningsleysi og þröngsýni þeirra ráðamanna sem áratugum saman hafa ekki horfst í augu við breyttan heim, kröfur um jafnrétti, jöfnuð og eðlileg tengsl vinnu og fjölskyldulífs. Það er þörf breyttrar stefnu þar sem horft er á heildarmyndina, stefnu sem hugsar fyrst um fólk svo um fjármuni.

[21:30]

Herra forseti. Ef ég ætti að svara því hver eru meginviðfangsefni íslenskra stjórnmála á þessari stundu yrði svar mitt öðruvísi og allt annað en það sem er að finna í þeirri sléttu og felldu ræðu sem liggur til grundvallar þessari umræðu hér í kvöld. Hæstv. forsrh. sneiðir hjá því að ræða þau stóru mál sem snúa að fólkinu í landinu, lífskjörum þess og framtíð þjóðarinnar.

Rétt eins og aðrar þjóðir stöndum við frammi fyrir stórum spurningum um það í hvaða átt við ætlum að þróa samfélag okkar. Hvernig ætlum við að standa við gefin loforð um umhverfisvernd og sjálfbæra þróun? Hvernig ætlum við að standa undir velferðarkerfi sem kalla mun á stóraukin framlög á næstu árum og áratugum? Hvernig ætlum við að efla menntun í landinu þannig að við getum gengið til móts við nýja öld upplýsingabyltingarinnar? Hvernig ætlum við að taka á þeim félagslegu vandamálum sem við okkur blasa, og skapa þúsundum kvenna og karla ný störf? Hvernig ætlum við að bæta stöðu kvenna þannig að þær hafi möguleika til jafns við karla til sjálfstæðis og frelsis? Hvar og hvernig ætlum við að skipa okkur í röð þjóðanna í heimi sem verður æ alþjóðlegri? Það er ekkert svar að segja að málin séu ekki á dagskrá. Íslendingar verða að vinna sína heimavinnu hvort sem um er að ræða menntun sem horfir til framtíðar, heilbrigðiskerfi sem á að þjóna sívaxandi fjölda aldraðra, atvinnu í sátt við umhverfi og fjölskyldulíf eða afstöðu Íslendinga til Evrópusambandsins. Við verðum að spyrja, vega, meta, komast að niðurstöðu og móta stefnu, en því miður er stefnuleysið alls ráðandi á flestum sviðum.

Herra forseti. Fram undan eru kjarasamningar nánast allra stéttarfélaga í landinu. Það er ljóst að það fólk sem lagt hefur mikið á sig í þágu stöðugleikans margfræga vill nú uppskera nokkuð að launum. Væntingar eru miklar og heimilin eru mörg hver að eyða um efni fram eins og sívaxandi skuldir þeirra bera með sér. Nú er gullið tækifæri til að nýta efnahagsbatann, til að stokka upp launakerfi ríkisins, hætta feluleiknum, gera launakerfið gagnsætt og skýrt, fella niður sporslurnar til karlanna, draga úr launamisrétti kynjanna og auka jöfnuð. Nú reynir á fögur orð og jafnréttisáform hæstv. fjmrh. sem hefur launamisréttið innan fjmrn. alveg á hreinu. Nú er tækifæri til að bæta launakjör þeirra stóru hópa kvenna sem bera svo skammarlega lítið úr býtum en vinna ábyrgðarmikil störf í framleiðslu, við umönnun og uppfræðslu. Nú er tækifæri til að setja fé til hliðar í sjóð sem hafi það að markmiði að uppræta launamun kynjanna sem nefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á sem ljótan blett á íslensku samfélagi sem bitni ekki síst á aðstæðum barna. Jafnframt er nú tækifæri til að jafna kjör landsmanna allra og taka á því stórfellda vandamáli að mörgum finnst þeim ekki bera skylda til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, svíkja undan skatti og láta aðra um að bera byrðarnar.

Nú er líka tækifæri til að horfast í augu við afleiðingar margra ára niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og þörf þess fyrir aukið fjármagn jafnframt því að skilgreina betur þörf fyrir þjónustu og hvar skuli veita hana. Ef efnahagsbatinn á að koma einhverjum til góða eru það þeir sem höllum fæti standa, sjúkir, fatlaðir og aldraðir en þeir hópar hafa svo sannarlega fengið að finna fyrir hárbeittum niðurskurðarhnífi ríkisstjórnarinnar. Í mínum huga skiptir það minna málið hvort hallinn á ríkissjóði fer upp í núllið einu árinu fyrr eða síðar þótt mikilvægt sé, en að öryggi og góð þjónusta við aldraða og sjúka sé tryggð.

Herra forseti. Fjárlagafrv. fyrir árið 1997 var lagt á borð þingmanna í dag. Í því er að finna mikinn og sársaukafullan niðurskurð m.a. til framhaldsskólanna í landinu. Hæstv. forsrh. nefnir í ræðu sinni að framlög til grunnskólanna séu aukin vegna flutnings þeirra til sveitarfélaganna og hann kemst svo kurteislega að orði að segja háskólastigið ekki aflögufært.

Það vita allir sem til þekkja að háskólastigið, sérstaklega Háskóli Íslands, er sársveltur svo að til vansa horfir. Þar verða menn enn og aftur að skera niður kennslu og þjónustu. Hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að framhaldsskólarnir, sem einnig hafa sætt töluverðum niðurskurði undanfarin ár, séu aflögufærir? Hvers konar áherslur eru þetta? Nemendum fjölgar ár frá ári og þeir verða að fá sína lögbundnu kennslu til þess að ljúka stúdentsprófi. Það er nýbúið að samþykkja framhaldsskólalög með sterkum áherslum á starfsmenntun sem kallar á miklar fjárveitingar og svo bara skera menn niður. Ég stóð í þeirri meiningu að það væri öllum ljóst að eitt meginverkefni okkar samfélags sé að bæta menntun í landinu og búa okkur þannig betur undir framtíðina, en það er greinilegt að á ríkisstjórnarheimilinu vita menn ekki hvað þeir gjöra.

Herra forseti. Það er mikið rætt um samvinnu og jafnvel sameiningu svokallaðra félagshyggjuafla án þess þó að þeirri umræðu hafi verið gefið inntak eða markmið skilgreind. Marga fýsir að sjá breytingar á flokkakerfinu, breytingar sem þjóni breyttu samfélagi. Við kvennalistakonur höfum hvorki skilgreint okkur til hægri né vinstri í íslenskum stjórnmálum og eigum það erindi umfram önnur að bæta stöðu kvenna eða með öðrum orðum að sinna kvenfrelsisbaráttunni sem á sér meira en 100 ára sögu á Íslandi. Svokölluð félagshyggjuöfl hafa hingað til ekki sinnt jafnréttisbaráttu kvenna með þeim hætti að viðunandi sé fremur en aðrir stjórnmálaflokkar af gamla skólanum hvað sem síðar verður. Við kvennalistakonur hljótum þó ávallt að vega og meta þær leiðir sem við teljum vænlegar til árangurs. Eins og sakir standa stendur vilji okkar til þess að efla Kvennalistann og herða baráttuna. Til þess að það takist þarf stuðning og vakningu því ef einhvern tíma er tækifæri til að breyta, þá er það nú þegar betur árar.

Fram undan eru kjarasamningar. Þá er einnig fram undan 20 ára afmæli jafnréttislaganna og jafnréttisþing. Kvenréttindafélag Íslands verður 90 ára á næsta ári og það sama ár verður þess minnst að þá verða 90 ár liðin frá því að konur í Reykjavík og Hafnarfirði fengu rétt til að kjósa til bæjarstjórnar. Allt er þetta áminning og brýning til nýrrar sóknar.

Íslenskar konur eiga sér merka sögu. Nú er það okkar að bæta nýjum köflum við hana, köflum sem greina frá ávinningum í átt til betra mannlífs, réttlætis og aukins jöfnuðar. --- Góðar stundir.