Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 21:57:33 (21)

1996-10-02 21:57:33# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SF
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:57]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Síðustu missiri hafa heilbrigðismál verið mjög til umræðu. Til heilbrigðis- og tryggingamála er árlega varið 40% af útgjöldum ríkisins. Framlög til málaflokksins hækka úr 50 milljörðum í ár í 52 milljarða á næsta ári. Framlögin hafa farið hækkandi, m.a. vegna þess að ellilífeyrisþegum fjölgar, meðalaldur hefur hækkað, lyf og tækjakostur verður dýrari.

Miðað við umræður um heilbrigðismál að undanförnu mætti ætla að við byggjum við lélegt heilbrigðiskerfi. Það er alls ekki svo. Við búum við eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi. Við höfum hins vegar þurft að hagræða ýmsu innan kerfisins eins og flestar vestrænar þjóðir, m.a. til þess að tryggja að þeir sem mest þurfa á þjónustunni að halda fái hana.

Á síðustu missirum hafa margir jákvæðir hlutir í heilbrigðismálum landsmanna náð fram og fleiri eru í farvatninu. Vil ég nefna nokkur dæmi. Lögð hefur verið fram stefna um frekari uppbyggingu heilsugæslunnar. Gera á úttekt á hagkvæmni þess að auka samvinnu eða sameina sjúkrahús á suðvesturhorninu. Efla á forvarnir m.a. með stórhækkuðum framlögum í forvarnasjóð. Í haust munu aðgerðir á hjartveikum börnum færast heim. Barna- og unglingageðdeild hefur verið efld og barnageðlæknir ráðinn á Sjúkrahús Akureyrar. Aðstaða á kvensjúkdómadeild og gjörgæslu Landspítalans hefur verið bætt. Ný öldrunarmatsdeild hefur tekið til starfa á Landspítalanum. Ný hjartadeild og barnadeild hafa nýverið verið teknar í notkun á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Hafinn er undirbúningur að því að beinmergsflutningar verði framkvæmdir hér á landi. Svona mætti lengi telja. Mörg jákvæð spor eru tekin í heilbrigðismálum, bæði stefnumótun og framkvæmdum.

Umræðan um heilbrigðis- og tryggingamál hefur hins vegar því miður oft og tíðum verið í upphrópunarstíl þar sem heilbrigðiskerfið er sagt slæmt, ekkert sé vel gert og einungis sé um skerðingar að ræða. Slíkar upphrópanir eru ósannar. Hæstv. heilbrrh. hefur einmitt boðað að í fjárlagafrv. verði ekki ný þjónustugjöld né skerðingar í lífeyristryggingum.

[22:00]

Í gær afhentu fulltrúar stjórnmálahreyfinga ungs fólks formönnum flokkanna kröfu um nýja kosningalöggjöf. Rökin eru m.a. þau að kosningalög séu hornsteinn lýðræðis í hverju landi og því þurfi að jafna atkvæðisréttinn. Allir flokkar hafa á stefnuskrá sinni að leiðrétta misjafnt vægi atkvæða. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að eitt af meginmarkmiðum hennar sé að endurskoða kosningalöggjöfina m.a. til þess að tryggja jafnara vægi atkvæða. Nú er liðið á annað ár ríkisstjórnarsamstarfsins og því er brýnt að hefjast strax handa við að undibúa nýja lagasetningu.

Margar leiðir eru færar en tvær eru bestar að mínu mati. Í fyrsta lagi að gera landið að einu kjördæmi. Þekkt dæmi um slíkar kosningar eru forsetakosningarnar. Þar hafa allir jafnan atkvæðisrétt óháð búsetu. Ef landið er eitt kjördæmi ættu þingmenn einnig auðveldara með að hefja sig yfir kjördæmapotið svokallaða. Þeir gætu frekar tekið ákvarðanir með hagsmuni allrar þjóðarinnar að leiðarljósi en ekki þröngra sérhagsmuna kjördæma sinna. Önnur leið sem vert er að skoða er sú sem Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh. og form. Framsfl., hefur nefnt. Í henni felst að um helmingur þingmanna yrði kjörinn af landslista en hinn úr kjördæmunum.

Annað mál sem brýnt er að skoða eru jafnréttismál. Alþfl. stýrði þeim málaflokki um langan tíma án nokkurs sérstaks árangurs. Launamunur kynjanna er þar ofarlega á dagskrá. Nýleg rannsókn Félagsvísindastofnunar háskólans sýnir svart á hvítu að þegar bornir eru saman sambærilegir einstaklingar og tekið hefur verið tillit til þátta eins og starfsstéttar, menntunar, starfsaldurs, fjölda yfirvinnutíma og hvort starfað sé hjá einkafyrirtæki eða opinberum aðilum hafa konur samt sem áður 11% lægri laun en karlar. Þennan launamun er einungis hægt að skýra með kynferði. Í lögum segir að konur og karlar skuli fá jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Hér skal undirstrikað að ekki er einungis verið að fjalla um sömu laun fyrir sömu vinnu heldur sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. En hvaða störf eru jafnverðmæt og sambærileg? Það liggur ekki í augum uppi.

Erlendis og hjá mörgum sveitarfélögum hér á landi hefur svokallað starfsmat verið notað til að meta störf til að geta borið þau saman og athuga hvort þau séu jafnverðmæt. Í stuttu máli má segja að starfsmat sé aðferð til að meta innihald starfa eftir starfslýsingu þar sem hæfni, ábyrgð, áreynsla og vinnuskilyrði eru lögð til grundvallar.

Um þessar mundir er verið að vinna að því að hrinda af stað tilraunaverkefni um starfsmat á nokkrum vinnustöðum. Það er því alrangt sem hér hefur komið fram að ekki sé verið að vinna neitt í því að leiðrétta launamun kynjanna. Annað mál sem er mikilvægt fyrir jafnréttið í þjóðfélaginu eru fjölskyldumálin. Nú í upphafi þings mun hæstv. félmrh. einmitt leggja fram tillögu til þál. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar.

Herra forseti. Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar er að ná jafnvægi í ríkisfjármálum m.a. til þess að verja velferðarkerfið til framtíðar. Íslenska þjóðin getur ekki leyft sér til lengdar að safna skuldum. Tölurnar tala sínu máli. Í ár er íslenska ríkið að borga 13 milljarða í vexti vegna skulda. Á næsta ári er áætlað að vextir ríkissjóðs verði 13,5 milljarðar. Sú upphæð er hærri en varið er til allra framhaldsskóla og háskólastigsins í landinu. Þróun ríkisfjármála þarf að snúa við. Annars köllum við stórhækkaðar skuldir yfir komandi kynslóðir. Þetta markmið verðum við að hafa að leiðarljósi þó það væri að sjálfsögðu mun þægilegra og áreynsluminna fyrir þá sem eru kosnir til að leiða þjóðina að halda áfram á braut skuldasöfnunar. --- Góðar stundir.