Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 22:12:33 (23)

1996-10-02 22:12:33# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, RG
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:12]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Í dag hef ég tilkynnt Alþingi formlega um stofnun nýs þingflokks Alþfl. og Þjóðvaka, þingflokk jafnaðarmanna. Stofnun þessa nýja þingflokks þarf engum að koma á óvart. Það hefur verið samhljómur í málflutningi okkar á Alþingi og stefnumörkun flokkanna byggir á sama sterka grunni, jafnaðarstefnunni. Þeir sem fylgst hafa með störfum Alþingis hafa tekið eftir málefnalegri samstöðu okkar. Sameining þingflokkanna er því rökrétt ákvörðun sem markar framtíðina. Með sameiningunni birtist vilji til að laða til samstarfs þá sem aðhyllast jafnaðarstefnuna og vilja vinna að nýsköpun íslenskra stjórnmála.

Við heitum á alla jafnaðarmenn að snúa bökum saman í baráttunni fyrir aðkallandi umbótamálum. Við höfum farið nýjar leiðir í kynningu á þingmálum jafnaðarmanna. Með því viljum við gefa þjóðinni mynd af fyrir hvað við stöndum. Við jafnaðarmenn erum virkt og öflugt stjórnmálaafl á Alþingi Íslendinga. Við höfum lagt fram málaskrá. Þar birtist breiddin í stefnu okkar. Áherslan er á líf og starf fjölskyldunnar. Mál okkar jafnaðarmanna miða öll að því að móta réttlátt þjóðfélag. Skattlagning á Íslandi særir réttlætiskennd fólks. Tekjur almenns launamanns eru skattlagðar í bak og fyrir meðan fyrirtækin í landinu lifa í austurlenskri skattaparadís. Meðan sameiginlegar auðlindir skila landsmönnum engu skattalega fá fyrirtækin að valsa um endurgjaldslaust og framselja auðlind okkar með gróða. Stefna jafnaðarmanna er að styrkja og efla velferðarkerfið þar sem virkar aðgerðir skapa raunverulegt jafnrétti kynjanna og jafnrétti þeirra sem vegna fötlunar eða annars standa höllum fæti.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt við hlustir undir stefnuræðu forsrh. og spurning vaknar um hvar sé pólitík ríkisstjórnarinnar. Pólitík er að taka afstöðu, pólitík er að koma með stefnumarkandi aðgerðir, pólitík er að koma með beinar aðgerðir til úrbóta í hagsmunamálum fjölskyldnanna, pólitík er að skapa framtíðarsýn og vekja með þjóðinni kraft og þor. Það var pólitík að takast á um Evrópska efnahagssvæðið og það var pólitík að hvetja til umræðu um hvað gæti falist í því fyrir okkur að leita eftir aðild að Evrópusambandinu.

Í fyrravor fékk þjóðin nýja ríkisstjórn. Þá var okkur fluttur bjartur boðskapur um vor í íslensku atvinnulífi. Í stjórnarsáttmála voru stefnumið fá og báru svip Sjálfstfl. í nýafstaðinni kosningabaráttu þar sem erfitt var að finna önnur markmið en að halda völdum. Lítið bar á mun fyrirferðarmeiri kosningaloforðum Framsfl. sem eru nú senn að falla í gleymskunnar dá eins og þeim var e.t.v. alltaf ætlað.

Hæstv. viðskrh. Framsfl. hefur ekki skapað störfin, það gerir hagvöxtur sem náðist með erfiðum aðgerðum á samdráttartímum við hatramma gagnrýni Framsfl. Ég rifja þetta upp vegna þess að nú er ríkisstjórnin ekki lengur ný. Hún er reyndar þegar búin að sitja meira en þriðjung hefðbundins kjörtímabils.

Fólk hefur sannarlega fundið fyrir þessari ríkisstjórn. Það hefur tekið eftir harðneskjulegum aðgerðum eins og nýrri vinnulöggjöf þar sem stjórnarskrá launafólks var breytt án samráðs, atvinnurekendum og ríkisstjórn í vil og þegar stefnulausum niðurskurði viðkvæmra málaflokka er hrint í framkvæmd. Ríkisstjórnin er fumkennd og kraftlaus. Það kennir doða hjá þjóðinni, menn eru vissir um að það þýði ekki að andmæla neinu. Það sé fremur vonlítið að áhrifamiklar jákvæðar breytingar verði af völdum stjórnvalda. Finna ekki áhrif hagvaxtar og nýsköpunar á eigin umhverfi. Það kraumar undir í ládeyðunni sem liggur yfir í þjóðfélaginu. Það er eins og fólk finni sig vanmáttugt til breytinga og ástandið sem áhrifaleysið ofan frá skapar er e.t.v. ekki pólitískur doði. Má vera að það sé innibyrgð reiði. Verkalýðshreyfingunni er haldið í böndum sem óvíst er að hún brjóti af sér en gerist það má búast við að blásið verði til átaka.

[22:15]

Afleiðing nokkurra ára atvinnuleysis hefur kallað fram áður óþekkta tilfinningu í okkar samfélagi, ótta við að kalla eftir rétti sínum á vinnustað, ótta við að vera ekki til friðs af því að yfir vofir: Þú ert einskis virði sem starfsmaður, margir eru tilbúnir að taka við þínu starfi. Hvað er það þá sem er að gerast? Er verið að eyðileggja undirstöðu samfélagsins og öryggistilfinningu þjóðarinnar? Ég leita svara í stefnuræðu forsrh. en finn engin svör. Hvað er þar að finna? T.d. það að Framsfl. hefur nú öðlast skilning á opnum fjármagnsmarkaði, eflingu markaðsbúskapar og ávinningnum af aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og það er vel. Flestir aðrir gera sér grein fyrir hver er forsenda hagvaxtarins sem fleytir ríkisstjórninni svo áreynslulaust fram eftir kjörtímabilinu.

Stefnuræðan er líka boðskapur um efnahagslegan stöðugleika og að nú megi menn ekki vonast eftir að góðærið finni farveg í launaumslag alþýðunnar. Við í þingflokki jafnaðarmanna styðjum markmið um að tryggja stöðugleika og jafnvægi í þjóðarbúskapnum en þó þannig að þeir sem náðu niður vöxtum og verðbólgu með þjóðarsátt hljóti nú sanngjarnan arð af bættum hag fyrirtækja og atvinnulífs.

Jafnaðarmenn þekkja að það þarf að sýna aðgæslu í ríkisbúskapnum. Við vitum líka að mörg verkefni, sem áður þótti sjálfsagt að væru á hendi ríkisins, eiga ekki endilega heima þar í dag. Endurskipulagning á því hvað eru samfélagsleg verkefni verður að eiga sér stað því beinn niðurskurður er kominn langt yfir þolmörk. Þessi mál vilja jafnaðarmenn skoða með opnum huga. Jafnaðarmenn greinir hins vegar á við ríkisstjórnina um forgangsröðun útgjalda. Okkur greinir á við ríkisstjórnina um skattlagningu þar sem ein regla gildir um tekjur af vöxtum og arði en önnur um skatt af tekjum fyrir vinnu. Samhengislaus tekjutenging á mörgum ólíkum sviðum hittir sömu barnafjölskylduna fyrir og rústar fjárhagsáætlun heimilisins. Breytingar á síðasta þingi sem beindust að eftirlaunaþegum hafa víða haft skaðvænleg áhrif.

Nú er góðæri gengið í garð og tækifæri til uppbyggingar. Ríkisstjórnin hefur fengið sín tækifæri. Þessi ríkisstjórn mun hins vegar ekki breyta gjafapólitík sinni hvað varðar auðlindir okkar. Hún mun ekki leggja grunninn að réttlátara skattkerfi.

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við jafnaðarmenn munum leggja góðum málum lið eins og við gerðum á liðnum vetri. Við jafnaðarmenn munum standa vörð um lífsgildi fjölskyldunnar í störfum okkar á Alþingi Íslendinga. --- Ég þakka þeim er hlýddu.