Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 22:38:37 (26)

1996-10-02 22:38:37# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:38]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þingsetning er í senn hátíðleg og virðuleg athöfn. Þá komum við saman að loknu þingfundahléi, eftirvænting liggur í lofti og tilhlökkun að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem bíða. Stefnuræða forsrh. og umræður um hana er fyrsti tónninn sem sleginn er á hverju þingi og gefur til kynna áherslur í hljómkviðu vetrarins.

Það voru vonbrigði að ekki tókst að þessu sinni að gera breytingar á tilhögun umræðna hér í kvöld og gera þær styttri, markvissari og líflegri og þar með áheyrilegri fyrir almenning.

Nú horfir betur í þjóðarbúskapnum eftir samdráttarskeið undanfarinna ára. Okkur hefur tekist að mæta þeim þrengingum af skynsemi og fyrirhyggju. Fyrirtæki hafa hagrætt og nýtt betur efni sín, almenningur sýnt skilning, þolinmæði og fórnarlund. Stjórnvöld hafa lagt kapp á að búa atvinnulífi landsins bætt skilyrði t.d. með skattalækkunum og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur þegar reynst heilla- og framfaraskref fyrir þjóðina. Verðbólgudraugurinn er niður kveðinn, erlend skuldasöfnun stöðvuð, kaupmáttur eykst. Jafnframt þessu höfum við staðið vörð um það velferðarkerfi sem byggt hefur verið upp hér á landi í tímans rás þrátt fyrir oft og tíðum mjög ósanngjarna, ósanna og hatramma umræðu um annað, eins og við höfum raunar orðið vitni að hér í kvöld í málflutningi sumra stjórnarandstæðinga.

Atvinnuleysi fer nú minnkandi og var í ágúst sl. 3,8%. Spáð er 4% á árinu öllu samanborið við 5% árið 1995.

Sköpuð hafa verið skilyrði til fjölgunar starfa og aukins atvinnuöryggis. Á þessu ári er áætlað að nýjum störfum fjölgi um 3.000 og hagvöxtur fer fram úr björtustu vonum. Helsta markmið ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum er hallalaus fjárlög.

Aukinn stöðugleiki í efnahagslífinu gerir kleift að vinna að langtímastefnumótun sem lengi hefur verið þörf fyrir hér á landi. Ungu fólki finnst það réttlætismál að því sé gert ljóst hversu mikið skattbyrði þess eykst miðað við umframeyðslu samtímans. Slíkt rímar einnig vel við áform ríkisstjórnarinnar um langtímaáætlanir í ríkisfjármálum. Ungt sjálfstæðisfólk hefur nýverið vakið athygli á staðreyndum um þessi mál með eftirtektarverðum hætti.

Sú sem hér talar hefur margoft úr þessum ræðustól rætt mikilvægi menntunar og rannsókna í síbreytilegum heimi. Það skiptir sköpum í alþjóðlegri samkeppni að rækta þennan þátt í þjóðlífinu til að standast öðrum þjóðum snúning. Við keppum svo sannarlega við þá sem standa í fremstu röð. Þá dugar ekki næstbesti kosturinn heldur eingöngu sá besti. Ríkar skyldur eru lagðar á herðar okkar að nýta sem best þá fjármuni sem varið er til menntunarinnar og eru í raun fjárfesting í framtíðinni.

Á síðasta kjörtímabili var mótuð ný menntastefna. Ný grunnskólalöggjöf var sett ásamt nýjum lögum um leikskóla og á síðasta þingi voru samþykkt ný framhaldsskólalög þar sem stóraukin áhersla er á starfsmenntun. Allt er þetta afrakstur mikillar vinnu sem hófst á síðasta kjörtímabili. Mikið verk er fram undan við að laga skólakerfið að nýjum lögum til að markmið þeirra nái fram að ganga.

Hinn 1. ágúst sl. fluttist grunnskólinn til sveitarfélaga. Það eru mikil tímamót í íslenskri skólasögu og stærsta skref í valddreifingu sem stigið hefur verið hér á landi. Tilflutningurinn gekk nánast snurðulaust fyrir sig sem er að þakka því að allir málsaðilar lögðu sig fram um að svo mætti verða. Það er bjargföst sannfæring mín að tilflutningurinn reynist í framtíðinni lyftistöng fyrir allt skólastarf í landinu og umbætur í skólamálum verði hraðari og metnaðarfyllri í höndum sveitarfélaga en ríkis.

Það er fullljóst að aðhald af hendi íbúa sveitarfélaga verður öflugra þar sem fólk er æ meðvitaðra um mikilvægi skólastarfsins.

Nú stendur yfir endurskoðun aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla. Það er mjög viðamikið og mikilvægt verkefni. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki fyrir næsta skólaár. Nefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi kemur að þessari endurskoðun og verður skipuð á næstu dögum.

Herra forseti. Jónas Hallgrímsson segir í kvæði sínu Alþingi hið nýja 1840:

  • Bera bý
  • bagga skoplítinn
  • hvert að húsi heim.
  • Síðar segir skáldið:

  • Svo skal hinu unga
  • alþingi skipað
  • sem að sjálfir þeir
  • sér munu kjósa.
  • Á þessu þingi verður fjallað um mörg og mikilvæg verkefni sem skipta sköpum um hag einstaklinga og þjóðar. Við sem skipum sveit alþingismanna mótum með umræðum og vinnulagi svip þingsins. Við skipum okkur í flokka eftir hugsjónum og lífsskoðun en greinir hins vegar á um ýmis markmið og leiðir að þeim.

    Þegar grannt er skoðað reynast ágreiningsefnin þó oftast færri en fleiri. Ég vænti þess að stjórn og stjórnarandstaða eigi góða samvinnu á þessu þingi, svipur þingsins verði ákveðinn, traustur og frískur og okkur auðnist að bera bagga skoplítinn hvert að húsi heim.

    Öll stefnum við að betra og fegurra mannlífi í þessu dýra landi. --- Góðar stundir.