Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 23:09:38 (30)

1996-10-02 23:09:38# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GÁ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[23:09]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Það er sagt að þeir eigi það eitt sameiginlegt, bjartsýnis- og svartsýnismaðurinn að báðir hafi æðioft rangt fyrir sér, spár þeirra og draumar rætist ekki. En á milli þeirra er himinn og haf og öll þekkjum við áhrif þessara tveggja manna á umhverfi sitt, það er ólíkt. Svart/hvít umræða og bölmóður hefur lamað ríki og álfur. Bölmóður sundrar fjölskyldum og skaðar heilu byggðarlögin sé horft til lengri tíma. Því hljóma orð skáldsins sterkt í hinni svart/hvítu umræðu:

  • Og því geng ég fár og fölur
  • með framandi jörð við il.
  • Það vex eitt blóm fyrir vestan
  • og veit ekki að ég er til.
  • Nú blasir það við á öðru ári í samstarfi núverandi stjórnarflokka að atvinnulífið er í sókn, umræðan er að snúast við. Kröflu og Blöndu þarf að stækka. Flugstöðin er of lítil. Loðdýraræktin og fiskeldið sækja fram á ný. Allar hrakspárnar um offjárfestingu í ferðaþjónustu áttu ekki við rök að styðjast. Vandamál samtímans eru aðeins verkefni sem þarf að vinna, verkefni þar sem Alþingi og ríkisstjórn, aðilar vinnumarkaðarins og fólkið í landinu, hver og einn, verður að gera sitt besta.

    Hér höfum við hlustað á merkilegar umræður í kvöld og tal stjórnarandstöðunnar. Ég tek eftir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson vill í einu og öllu fara eftir hagsmunasamtökum hvað sum mál varðar. Hann ræddi ítarlega um fjármagnstekjuskattinn og gagnrýndi hann hart. En ég minnist þess að þegar hann var lögleiddur á síðasta vetri, þá var farið eftir tillögum verkalýðshreyfingarinnar í þeim efnum. (ÖJ: Þetta er rangt. Það er ósatt.) Í meginatriðum var það gert, hv. þm. (ÖJ: Það er ósatt.) þannig að það er nú svona að menn vilja ekki í einu og öllu þegar allt kemur til alls hlusta á heildarsamtökin.

    Hver var boðskapur stjórnarandstöðunnar í kvöld? Mér er skapi næst eftir að hafa hlustað á stjórnarandstöðuna að auglýsa eftir henni. Hún fór úr þinginu í vor með mikið af tillögum en hún kemur dauð til umræðunnar í haust. Hún hefur svona sitthvað á hornum sér, að ræða forsrh. hafi verið slöpp, í hana vanti eitt og annað. En hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar? Hvað hafa þeir lagt til í kvöld til þess að leysa þau verkefni sem eru fram undan? Því miður er það nú svo, góðir Íslendingar, að það hefur einkennt A-flokkana og vinstri menn á Íslandi að vilja lifa á þeirri list að eyða krónunni sem náunginn er með í vasanum, rétta næsta manni hana í biðröðinni. Alþb. er krónískur stjórnarandstöðuflokkur sem fellir dóma og forðast andstöðu, forðast ríkisstjórnarsængina eins og piparmey karlmann. Og það er nú svo að þegar kosningar hafa farið fram, þá stöndum við frammi fyrir því að þeir eru á ný orðnir óháðir. Eru þetta ekki svik við kosningaloforð og þjóðina?

    Um Alþfl. er fátt að segja. Hann vinnur það nú helst til afreka að sameina sjálfan sig. Þeir sem týndust eru komnir heim. Jóhanna er komin heim með slitna skó af haglendum Íslands eftir mikla trúboðsferð. Nú verður gaman á þeim bæ þegar á ný verður tekist á um hægri og vinstri það verður tja tja, ja, ja og enginn veit hvert á að fara.

    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur að það ber að segja stríð á hendur fíkniefnasölum. Þeir eru ein versta vá sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir um þessar mundir. Um það verkefni verða Íslendingar að sameinast. Alþingi og ríkisstjórn, heimilin og allir viti bornir menn verða að taka á því stóra verkefni.

    [23:15]

    Hæstv. forseti. Ég dreg ekki úr því að fram undan eru mörg þung verkefni sem vandasamt er að leysa. Ég nefni kjarasamninga. Leiðarljósið þar er: Varðveitum stöðugleikann og í fyrsta áfanga eiga þeir sem verst eru settir að fá úrlausn. Formaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, hefur sett fram þá skoðun að finna þurfi siðferðilegan grunn sem kjarasamningar framtíðarinnar gætu byggt á og settar væru fram leikreglur sem tryggðu aukið réttlæti í launamálum. Hér reynir á ríkisstjórnina en jafnþunga ábyrgð bera aðilar vinnumarkaðarins. Verkföll og verðbólga væru slys sem bitnaði bæði á launþegum og atvinnulífi. Hvað yrði um skuldug fyrirtæki og heimili í slíkum hremmingum? Ég spyr. Hvað yrði um stöðugleikann? Hvað yrði um þau áform að minnka byrðar á komandi kynslóðum? Hvað yrði um mikilvægasta áformið, hallalaus fjárlög og lækkaða vexti í framtíðinni?

    Að mörgu ber að hyggja um þessar mundir og eitt atriðið er eignaskiptingin í landinu. Við framsóknarmenn höfum mestar áhyggjur af skuldsetningu heimilanna og stöðu yngri kynslóðarinnar. Þar er nú unnið að margvíslegum lausnum á vegum hæstv. félmrh. Landvinnsla á fiski er rekin með halla og hér er mikið atvinnuspursmál á landsbyggðinni í uppnámi. Frystiskip og styrkir Evrópusambandsins banka fast á dyr. Gætum okkar. Verjum vinnuna heima.

    Við verðum einnig að spyrna við fótum og koma í veg fyrir að eignir landsmanna og auðlindir til sjávar falli fáum í skaut. Alræði markaðarins og þeirra ríku má aldrei hirða afraksturinn úr höndum fjöldans, þá er friðurinn úti. Alþingi má t.d. aldrei fallast á að takmarkaður afnotaréttur á kvóta verði lögum samkvæmt veðsettur handhöfum afnotaréttarins. Óveidda fiska í sjónum má aldrei veðsetja samtímanum.

    Mikil umræða fer fram um velferðarmál og skilgreina verður samhjálpina þannig að þeir sem þurfa aðstoð fái hana. Þetta er vandasamt verkefni. Þeir sem betur eru settir verða að missa, hinir að njóta. Hin aldraða kynslóð hefur borið íslenskt þjóðfélag fram til sigurs á þessari öld með vinnu og framsýni. Aldraðir eru misvel settir. Þar sem annars staðar er hlutverk ríkisins að aðstoða þá efnaminni.

    Eftir að lífeyrissjóðirnir styrktu stöðu sína verða þeir að endurskoða hlutverk sitt og koma meira inn í greiðslur eftirlauna. Smánargreiðslurnar skera í augu, hjá sjóðakerfi sem í eignum á 300 milljarða. Greiðslur úr lífeyrissjóði á ekki að skatta í annað sinn.

    Hæstv. forseti. Bændur og landbúnaðurinn í heild hefur gengið í gegnum sársaukafullan samdrátt og niðurskurð á síðustu árum. Nú ríkir nokkur friður um landbúnaðinn og segja má að meðal bænda sé vaxandi bjartsýni, að fram undan séu heldur bjartari tímar. Bændur eiga stóran þátt í því að verðbólgan náðist niður. Þeir hafa fórnað hluta af kaupi sínu til að lækka matarverð. Hagstofa Íslands upplýsir að á fimm ára tímabili hafa hækkanir á landbúnaðarvörum verið langt undir almennum verðhækkunum og í raun hafa landbúnaðarafurðir stórlega lækkað í verði sé miðað við vísitölu neysluverðs. Á sama tíma hafa opinber framlög til stuðnings landbúnaði lækkað um 40% og skiptir nú lækkunin milljörðum og er stærsti sparnaðurinn í fjárlögum. Nú ber nokkuð nýrra við þegar menn á borð við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og Jónas Kristjánsson ritstjóra eru þagnaðir og virða þessar staðreyndir. Það er helst hagfræðingastóðið hjá ASÍ og VSÍ sem gerist óbilgjarnt. Krefjast þeir að íslenskir bændur verði sviptir hluta af GATT-vernd og sæti lakari aðlögun en keppinautar í nágrannalöndum. Hér ríður á að kjörnir forustumenn vinnandi fólks átti sig á staðreyndum og slái skjaldborg utan um landbúnaðinn og vinnuna sem hann gefur. Bændur hafa fórnað og eru að ganga í gegnum erfitt tímabil. Landbúnaðurinn er hluti af keðju eða heild í landinu. Bændur voru hagstjórnartæki í áratugi í kjaradeilum. Það má ekki gerast á nýjan leik.

    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Þrátt fyrir deilur og erfiðleika er lífið dásamleg guðs gjöf. Nú ríður á því að ábyrgir aðilar taki höndum saman um að leysa verkefni líðandi stundar í sátt við alla aðila. --- Góða nótt.