Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 23:20:55 (31)

1996-10-02 23:20:55# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[23:20]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hvers vegna lærum við ekki af reynslunni? Hvers vegna fjárfestum við ekki í framtíðinni? Ýmislegt af því sem framkvæmt hefur verið á undanförnum árum og nýjasta skýrsla Ríkisendurskoðunar um Byggðastofnun ber t.d. vitni um á lítið skylt við fjárfestingar í framtíðinni. Það er nefnilega beint samband á milli lífskjara og þess hvernig fjárfest er og þá ekki síður á milli lífskjara og þess hvernig þjóðir hlúa að menntun. Þeir peningar sem settir eru í menntun eru fjárfesting til framtíðar. Einkum er framhaldsskólastigið talið mikilvægt ef efla þarf atvinnulífið. Eigi að síður leitaði ríkisstjórnin logandi ljósi að möguleikum til niðurskurðar í menntamálum og virðist ætla að halda sig áfram við fortíðarbyggðastefnuna því að það á að spara alveg sérstaklega í framhaldsskólum, einkum hinna dreifðu byggða. Þær upphæðir sem þar geta skilið á milli feigs og ófeigs eru ámóta og sú sem nú hefur verið ákveðið að verja til hins nýja prestakalls í Lúxemborg og Belgíu, prestakalls sem enginn hefur óskað eftir. Ef það er stefna, herra forseti, er hún alveg ótrúlega taktlaus. Á sama tíma og við fáum upplýsingar um það hvernig gagnslitlum milljörðum hefur verið varið í hefðbundnar atvinnugreinar á að skera það sem sannarlega horfir til framtíðar. Það er hins vegar ekki á málaskrá ríkisstjórnarinnar að breyta lögum um Byggðastofnun.

Það er hik í útflutningi okkar á iðnaðarvörum öðrum en sjávarafurðum. Vöxturinn hefur því miður ekki haldið áfram og ýmsir telja að það sé beinlínis afleiðing þess að við höfum ekki gætt nægjanlega að menntunar- og rannsóknarþættinum, að skólakerfið sé ekki nógu gott, ekki síst framhaldsskólastigið. Ný framhaldsskólalög voru að vísu samþykkt á síðasta þingi, en það er afleit pólitík að hefja framkvæmdina með niðurskurði. Við verðum að horfa til framtíðar því að það er okkur keppikefli að blómlegur iðnaður og fjölbreytt atvinnulíf fái að þróast. Annars mun Ísland ekki halda sínu í samkeppninni um unga fólkið. Það er nefnilega rétt sem forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur bent á að kynslóðin sem nú er að vaxa úr grasi á Íslandi, sú kynslóð sem er úthýst af menntmrh. og mun halda sitt menntaþing í tjaldi, mun líta á allan heiminn sem sitt atvinnusvæði. Þess vegna verðum við að taka á menntamálunum með öðrum hætti. Niðurskurður þar er ekki bara að skjóta sig í aðra löppina heldur báðar og hver er þá framtíðarsýnin?

Ef dregið verður úr úthafsveiðum sem hafa verið undirstaða hagvaxtar undanfarinna ára, eins og stjórnvöld áforma og ef við náum ekki lengra í bili með annan iðnað til að auka hér fjölbreytni atvinnulífsins og bæta lífskjörin, hvernig sjá menn þá næstu framtíð fyrir sér? Við þekkjum stóriðjuhugmyndirnar. En erum við ekki að færast á byrjunarreit ef það er framtíðarsýnin að sjávarafurðir og stóriðja verði nánast okkar eini útflutningur áfram?

Forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir 1.500 kr. hækkun lægstu launa. Það er líka hluti af framtíðarsýninni. Og ef framtíðarsýnin er svona þegar gyllingin er þurrkuð af, hvað á þá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar við þegar sett eru fram áform um að efla samkeppni? Á það við um landbúnaðinn? Nú eru bændur sjálfir að reyna að brjótast undan stirðnuðu kerfi og það væri verðugt verkefni að fylgja því eftir. Ekki er það á dagskrá. Það þyrftu líka að vera fleiri viðskiptaliðamót í sjávarútveginum því að eins og staðan er nú er það nánast afráðið þegar fiskveiðiheimildum er úthlutað, hverjir á endanum selja afurðirnar og hvert. Það er lítill hvati, hvað þá samkeppni í slíku kerfi. Á samkeppnin þá að nást með ríkari rétti neytenda, með virkara aðhaldi samkeppnislaga gagnvart fákeppni og einokun? Um það eru heldur engin merki í stefnuræðu eða málaskrá ríkisstjórnarinnar.

Er það ekki líka öfugþróun hvernig ríkisstjórnin, nú í líki samgrh., beitir Pósti og síma inn á þjónustumarkað Internetsins þar sem risinn er líklegur til að mylja undir sig fyrirtækin sem hafa á undanförnum árum þróað þar neytendamarkaðinn? Fyrirtæki sem sérhæfa sig í upplýsingatækni og hugbúnaði þurfa svo sannarlega að vera hluti af okkar framtíð og fá að þróast við eðlilegar markaðsaðstæður. Þó að Póstur og sími eigi boðleiðina er ekki þar með sagt að hann þurfi að eiga fyrirtækin sem nýta hana. Það dettur vonandi engum í hug að það sé nauðsynlegt fyrir Vegagerð ríkisins að eiga sérleyfin á vegum landsins þó að vegirnir séu í hennar umsjá? Nei, herra forseti. Þess sjást því miður fá merki að ríkisstjórnin styðji samkeppni þar sem hún á við eða hrófli við sérhagsmunum hinna fáu. Þar eru framsóknarmennirnir komnir heim engu síður en sjálfstæðismennirnir. Þvert á móti er full ástæða til að óttast að fyrst og fremst eigi að innleiða samkeppni í skólastofunum og í sjúkrastofunum þar sem lögmál eins og umhyggja foreldra fyrir börnum sínum eða umhyggja aðstandenda fyrir sjúkum ráða ákvörðunum og eitthvað sem kallast markaðslögmál er út í hött. Slík öfugþróun má aldrei verða. Við þurfum annað gildismat, aðra lífssýn þar sem almannahagur er settur í öndvegi og fjölbreytt menntun skapar okkur betri lífskjör.

Herra forseti. Þingflokkur jafnaðarmanna mun tefla hugmyndum jafnaðarstefnunnar fram gegn gagnslitlum úrræðum ríkisstjórnarinnar og veita henni þannig verðugt aðhald.

Góðir áheyrendur. Ég þakka þeim sem hlýddu. --- Góða nótt.