Byggðastofnun

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:09:57 (36)

1996-10-07 15:09:57# 121. lþ. 3.1 fundur 28#B Byggðastofnun# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:09]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Fyrir nokkru kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluendurskoðun hjá Byggðastofnun. Þar kom fram hörð gagnrýni á ýmsa þætti starfseminnar en ekki er hægt að ræða almennt um efni skýrslunnar undir þessum dagskrárlið. Það bíður betri tíma. Í skýrslunni er hins vegar vikið að stjórnskipulagi stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun telur að forsrh. eigi að fara með yfirstjórn og að stofnunin og stjórn hennar beri ábyrgð gagnvart honum. Þetta getur kallað á breytingar á skipunarhætti stjórnar sem er kosin af Alþingi.

Í fjölmiðlum hefur hæstv. forsrh. tekið undir þessi sjónarmið og m.a. bent á að hann flytji Alþingi skýrslu um byggðamál en í salnum sitji stjórnarmenn sem hafi öllu ráðið.

Ég spyr hæstv. forsrh.: Mun hann leggja fram frv. á þessu þingi um breytingar á skipunarhætti stjórnar Byggðastofnunar, t.d. að hún sé ekki kosin af Alþingi eða aðrar breytingar á stjórnskipulagi stofnunarinnar í ljósi skýrslu Ríkisendurskoðunar og ummæla hans í fjölmiðlum?