Byggðastofnun

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:11:10 (37)

1996-10-07 15:11:10# 121. lþ. 3.1 fundur 28#B Byggðastofnun# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:11]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Mér þótti skýrsla Ríkisendurskoðunar um margt góð. Segja má að sumt hafi verið nokkuð ákveðnar aðfinnslur. Það sem ég gæti fundið að á móti væri helst að ekki hefðu verið gerð nægilega glögg skil milli þess sem tíðkast hefði og þess sem tíðkast nú. En ég tel eins og hv. þm. að skýrslan geti verið góður grundvöllur til að ræða mál þessarar stofnunar.

Það er rétt að Ríkisendurskoðun bendir á að skynsamlegt geti verið að breyta um forræði gagnvart þessari stofnun og skilja meira á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvaldsins og auka þannig eftirlitshlutverk löggjafarvaldsins gagnvart þætti framkvæmdarvaldsins. Ég hef sagt fyrir mitt leyti að ég taki undir þessi sjónarmið. En ég get ekki lýst því yfir hér og nú að tillaga um breytingar á slíku í þá átt verði flutt á þessu þingi. Til þess yrði að vera þokkaleg samstaða milli manna um það. Ég tel eðlilegt að menn ræði þessar hugmyndir, ræði skýrsluna og í framhaldi af slíkum umræðum verði tekin ákvörðun um hvort lagabreyting yrði gerð. Ég hef hvorki náð að tala um þau mál við núverandi stjórnarmenn í stjórn Byggðastofnunar né heldur ráðherra í ríkisstjórn eða forustumenn þingflokka. Það væri því ekki tímabær yfirlýsing af minni hálfu að lýsa því yfir að slíkt frv. yrði flutt.