Byggðastofnun

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:12:43 (38)

1996-10-07 15:12:43# 121. lþ. 3.1 fundur 28#B Byggðastofnun# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:12]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Ég skil svar hans þannig að hann kjósi að ræða málin í víðara samhengi þó síðar verði á þinginu sem var einmitt það sem ég talaði um.

Mér finnst hins vegar miður að hann skuli ekki geta fylgt eftir þeim ummælum sínum í fjölmiðlum þar sem hann tók mjög skýrt undir álit Ríkisendurskoðunar að breyta þyrfti stjórnskipulagi stofnunarinnar --- að hann mundi þá fylgja því eftir með frv. sem menn gætu rætt um. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að málið getur verið viðkvæmt innan stjórnarliðsins.

Með fyrirspurn minni er ég ekki að lýsa áliti mínu á þeirri endurskoðun sem hugsanlega þarf að fara fram á stjórnskipulagi Byggðastofnunar. En ég vek athygli á þeirri afdráttarlausu yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar og undirtektum forsrh. um þetta efni. Að því leyti er svar forsrh. mér nokkur vonbrigði. Hann var ekki reiðubúinn til að kveða þannig að orði að við mundum sjá frv. í vetur sem tæki á þessum þáttum. Við því er ekkert að gera. Alla vega er yfirlýsing ráðherra markverð að málin í heild verði rædd þó síðar verði.