Vaktþjónusta lækna og sjúkraflutningar í Hafnarfirði og nágrenni

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:23:52 (47)

1996-10-07 15:23:52# 121. lþ. 3.1 fundur 31#B vaktþjónusta lækna og sjúkraflutningar í Hafnarfirði og nágrenni# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:23]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Mér var nú ekki svarað nema að hluta og að litlu leyti. Í fyrsta lagi er ég ekki að spyrja um neyðarþjónustu. Mér er kunnugt um fyrirkomulag hennar. Ég er að tala um almenna næturþjónustu fyrir sjúka í Hafnarfirði. Hvert eiga þeir að snúa sér? Það liggur ekki ljóst fyrir. Mér er vitaskuld kunnugt um að læknar eru að störfum á St. Jósefsspítala og Sólvangi en þeir sinna ekki óskum sjúklinga um almenn viðvik að næturþeli. Það er misskilningur hæstv. ráðherra.

Í annan stað fékk ég engin svör, því er verr og miður, um framtíðarsýn og fyrirkomulag hæstv. ráðherra á sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu öllu og þar með því svæði sem nefndi sérstaklega áðan og þá einkanlega markmiðssetninguna með því. Er verið að spara peninga, er verið að bæta þjónustu eða hvað er hér á ferð yfirleitt? Meginatriðið er að á meðan endurskoðun á sér stað er auðvitað algerlega óviðunandi að óvissa ríki um það hver eigi að sinna þjónustu við sjúka á þessu svæði og ég vænti þess að ráðherra taki málið föstum tökum og geri þá bragarbót sem nauðsynleg er nú þegar.