Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:49:07 (64)

1996-10-07 15:49:07# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:49]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þingflokkur Alþb. og óháðra hefur beðið um umræðu utan dagskrár um alvarlega stöðu margra fjölskyldna í þjóðfélaginu í aðdraganda kjarasamninga. Í raun má segja að umræðan sé í beinu framhaldi af þeirri skýrslu sem þingflokkurinn bað um á síðasta þingi þar sem gerður var samanburður á launum og lífskjörum hér og í Danmörku og þeirri umræðu sem sú skýrsla fékk á síðasta starfsdegi þingsins í vor. En skýrslan sýnir svo að ekki verður um villst að kjör fólks í Danmörku eru mun betri en hér. Það er alvarleg staðreynd sem við komumst ekki hjá því að ræða frekar og skoða í hverju þessi mikli munur liggur.

Launagreiðslur fyrir hverja vinnustund eru mun hærri þar en hér. Þó er heildarhlutfall launa af landsframleiðslu ekki lægra hér en gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við og landsframleiðsla er hér ívið hærri en að meðaltali í OECD-löndunum. En mikil landsframleiðsla og hátt hlutfall launa af landsframleiðslu þýðir í okkar tilviki ekki há vinnulaun á almennum vinnumarkaði.

Ef notaður er annar mælikvarði, þ.e. landsframleiðsla á vinnustund, kemur í ljós að þar erum við aftarlega á merinni samanborið við önnur lönd. Reyndar setur sænska vinnuveitendasambandið okkur á bekk með Spánverjum hvað varðar tímakaup t.d. í iðnaði. Þar erum við í 17. sæti, rétt fyrir ofan Portúgala og Grikki og það geta varla talist þær þjóðir sem við viljum helst bera okkur saman við hvað varðar laun og lífskjör. Þá má benda á að samkvæmt niðurstöðum kjararannsóknarnefndar eru 25% ASÍ-landverkafólks með undir 95 þús. kr. í heildarmánaðarlaun eða um það bil 80 þús. kr. í útborguð laun. Þá er meðtalin gífurleg yfirvinna, mun meiri en gerist meðal nágrannaþjóðanna. Ef hins vegar litið er til launa sem fást fyrir í dagvinnuna eina hjá þessum sama hópi, kemur í ljós að 62% hafa undir 80 þús. kr. í útborguð laun. Þegar horft er á laun opinberra starfsmanna er útkoman mjög svipuð. Ég efast um að nokkur hér inni treysti sér til þess að lifa af þessum launum. Það má reikna með að af þessum 80 þús. kr. mánaðarlaunum þurfi að greiða frá 25% og upp í 50% í húsnæðiskostnað og minnst önnur 20% í annan fastan kostnað. Þá er heldur lítið eftir fyrir mat og öðrum nauðsynjum fram til næstu mánaðamóta.

Ef fyrirvinnan er ein er útilokað fyrir fjölskyldu af hvaða stærð sem er að draga fram lífið á þessum launum. Stór hópur fólks, allt of stór hópur fólks, býr við allt of langan vinnudag, léleg laun og sífellt versnandi skuldastöðu heimilanna sem oft leiðir til upplausnar fjölskyldu. Þessu fólki hefur um langan tíma verið gert að bera þyngstu byrðarnar í þjóðfélaginu og þær eru alltaf að þyngjast þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Það að semja um launagreiðslur fyrir unna vinnustund er að sjálfsögðu í höndum stéttarfélaga en ýmislegt annað, t.d. það sem varðar tryggingakerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið, velferðarkerfið almennt, er í okkar höndum sem hér störfum. Þættir sem varða forsendur kjarasamninga eru ákvarðaðir á Alþingi en eru sífellt að breytast sem gerir rauhæfa kjarasamninga mjög erfiða.

Þingflokkur Alþb. og óháðra hefur lagt fram rúmlega 20 þingmál er varða stöðu fjölskyldunnar. Við leggjum sérstaka áherslu á tillögur til úrbóta í málefnum þeirra sem nú búa við lökust kjörin, þeirra sem eru á lægstu kauptöxtunum og einnig og ekki síður þeirra sem nú greiða háa jaðarskatta. Þar er í mörgum tilvikum um að ræða ungt fólk með börn, ýmist í námi eða að koma sér upp húsnæði, fólk sem vinnur myrkranna á milli til að reyna að standa við skuldbindingar sínar en er þá refsað með háum jaðarsköttum þannig að ráðstöfunartekjurnar eru í raun ekki mikið hærri en þeirra sem vinna mun minna en eru á sömu töxtum. Í tillögum okkar er tekið á allt of löngum vinnutíma og því hefur reyndar margoft verið lýst yfir að óhóflega langur vinnutími ásamt bágri fjárhagsstöðu getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjölskylduna, sérstaklega er hætta á að slík aðstaða bitni illa á börnum innan fjölskyldunnar, jafnvel þannig að þau bíði af því varanlegan skaða. Samtökin Barnaheill hafa tekið þetta sérstaklega fyrir á ráðstefnum sínum og fundum og sent okkur þingmönnum gögn þar um og tillögur um það hvernig styrkja megi stöðu barna í samfélaginu.

Við höfum farið fram á að gerð verði ítarleg úttekt á afleiðingum þess langa vinnudags sem nú tíðkast. Við flytjum margar aðrar tillögur sem hafa bein áhrif á kjör fjölskyldna. Allt eru þetta mál sem Alþingi ber að afgreiða. Þetta lýtur að okkar störfum, okkar ákvarðanatöku. Það varðar t.d. kjör fjölskyldna í landinu að hér ríki jafnrétti til náms og það er okkar verkefni að tryggja það. Sú staðreynd að í dag eru um 58 þús. einstaklingar á vinnumarkaðnum með grunnskólamenntun eða minna kollvarpar þeirri ímynd að við séum vel menntuð þjóð. Við höfum lagt fram frv. þar sem lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna er breytt. Stjórnvöld virðast sjá ofsjónum yfir lánveitingum til þeirra sem stunda nám. Ómanneskjulegar kröfur eru gerðar til ungs fjölskyldufólks í námi og þung endurgreiðslubyrði þegar námsmaður hefur lokið námi og fer að stunda aðra betur launaða vinnu, gerir námsmanni illmögulegt að koma sér upp húsnæði eða sjá sér og sínum farborða. Ef marka má viðhorf stjórnvalda af verkum þeirra, má segja að það að stunda nám sé illa launuð og lítilsvirt vinna, líklega minni háttar starf, svo notuð séu orð sem finna mátti í einu frumvarpa ríkisstjórnarinnar sl. vetur. Þá eru þau byrjunarlaun sem mörgum stéttum eru boðin að afloknu löngu námi frámunalega lág, t.d. byrjunarlaun kennara, sem vissulega sýnir ákveðið viðhorf stjórnvalda til menntunar.

Þegar skýrslan um samanburð á launum og lífskjörum hér og í Danmörku kom út sagði forsrh. að segja mætti að lífskjör hér væru bara nokkuð góð. Þetta er að vissu leyti rétt. Meðaltöl skýrslunnar segja að lífskjör séu nokkuð bærileg hér á landi. En við vitum betur. Við vitum að bókhaldsleg meðaltöl geta komið vel út ef launamunur er mikill þannig að á meðan stór hópur launþega býr við svívirðilega lág laun, þá býr annar hópur að sama skapi við gífurlega há laun. Meðaltal þessara tveggja stærða getur þýtt nokkuð góð laun. En staðreyndirnar tala sínu máli. Hér búa mjög margar fjölskyldur við hreina fátækt. Hér er fólk sem ekki hefur efni á þeirri læknisþjónustu sem það í raun þyrfti á að halda. Hér býr ungt fólk sem veigrar sér við að ná í lækni heim til veikra barna vegna þess að það á ekki fyrir þjónustunni. Hér eru börn með langvarandi erfiða sjúkdóma og aðstandendur þeirra fá ekki þá þjónustu sem börnin eiga lögumsamkvæmt að fá. Hér er fólk sem ekki hefur efni á að senda börn sín til mennta og ungt fólk sem ekki hefur efni á að mennta sig. Hér er fólk sem getur ekki látið aldraða foreldra sína njóta þeirrar umönnunar eða lífsgæða sem þeir ættu rétt á eftir að hafa skilað löngum vinnudegi. Hér er fólk sem ekki á þak yfir höfuðið eða hefur aðgang að húsnæði sem samræmist fjárhagsstöðu þess. Hér er stór hópur fólks sem hefur misst allt sitt. Hér er fólk sem engar stofnanir eða heimili í þessu velferðarþjóðfélagi sinna. Það sefur úti og í yfirgefnum byggingum. Hér er félagslegt húsnæðiskerfi sem átti að sinna sérstaklega þeim sem búa við lökust kjörin en gerir það ekki lengur. Stór hópur fólks nær ekki því tekjulágmarki sem þarf til að kaupa húsnæði í félagslega kerfinu og verður þess í stað að fara í dýrt leiguhúsnæði sem það ræður engan veginn við. Vandamálin eru óteljandi og hér er ekki um að ræða lítinn afmarkaðan hóp þjóðfélagsþegna. Hópurinn er stór.

Það búa margir við ótrúlega léleg kjör hér á landi. Það er okkur sem hér störfum til skammar að halda á málum með þessum hætti. Í ekki stærra samfélagi en okkar ættu svona vandamál ekki að vera til. Þingflokkur Alþb. og óháðra hefur eins og áður sagði lagt fram margar tillögur til úrbóta fyrir launafólk í landinu. Við neitum því að það ástand sem hér hefur skapast á undanförnum árum sé komið til að vera, en við vitum að lítil von er til breytinga á meðan þessi ríkisstjórn situr, ríkisstjórn sem vísvitandi hefur verið að breyta þjóðfélaginu í þessa veru. En við beinum þeirri spurningu engu að síður til ríkisstjórnarinnar hvort og þá hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar af hálfu hennar til þess að jafna lífskjör í landinu og til þess að tryggja að hér verði lífskjör launafólks sambærileg á við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Og eru fyrirhugaðar sérstakar ráðstafanir til að bæta kjör þeirra verst settu, t.d. lífeyrisþega?

Virðulegi forseti. Í tilefni þess að ég tala hér í fyrsta skipti á grænu ljósi vil ég nefna að það minnir mig óneitanlega á loforð flokks sem nú situr í ríkisstjórn, þar sem menn höfðu einu sinni fólk í fyrirrúmi en hafa gleymt því öllu.

(Forseti (Ólafur G. Einarsson): Grænt ljós hefur lengi verið í þinginu en ekki svona hátt stillt kannski.)