Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:58:54 (65)

1996-10-07 15:58:54# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:58]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er stundum spurt um góðærið og ég tók eftir því þegar stefnuræða forsrh. var til umræðu að allmargir hv. þm. sögðu að við stjórnarliðar héldum því fram að nokkuð hefði lagast í efnahagsmálum og gjarnan mætti tala um góðæri, en það góðæri hefði hvergi komið fram nema hjá ríkisstjórninni sjálfri.

Hvað er nú góðæri? Þegar menn eru að tala um góðæri þá geta menn verið að tala um hagfelldan hag til sjávar og sveita. En í okkar skilningi væntanlega, því við erum að tala um efnahagslegt góðæri, erum við að tala um hagvöxt. Við erum að tala um að það hafi snúist til betri vegar með sameiginlegar tekjur þjóðarinnar frá því sem áður var. Og sú er staðreyndin og ekki er um það deilt að allverulegur hagvöxtur hefur orðið á þessu ári einkum og nokkur á því síðasta og verður vonandi á næstu árum, ekki jafnmikill og í ár, en áfram töluverður.

Þegar menn velta fyrir sér hvort góðærið sem þessi hagvöxtur sýnir hafi skilað sér sem fullyrt var að hefði ekki gerst, þá sýna tölurnar ótvírætt að það hefur gerst. Enginn vafi er á því að kaupmáttur launa hefur aukist. Hann hefur aukist á árunum 1995--1996 um 9% og sú aukning er helmingi meiri kaupmáttaraukning en varð að meðaltali í ríkjum OECD fyrst menn eru með samanburð og eru að rifja upp samanburðinn við Danmörku, sem er topplandið sem menn geta náð í, og gera þess vegna, kannski eðlilega, samanburð við það land. Þá ætti þessi samanburður að gleðja, auðvitað er Danmörk með í meðaltali OECD, að á milli þessara tveggja ára hefur kaupmáttaraukning orðið helmingi meiri á Íslandi en að meðaltali í löndum OECD, löndum sem við berum okkur saman við. Svarið við því hvort góðærið hafi skilað sér eða ekki er auðvitað að það hefur gerst. Það þýðir ekki að sérhver íslenskur launamaður hafi fengið til baka það sem sjö ára stöðnun þar á undan í íslensku efnahagslífi hafði leitt af sér. Enda þótt bjartara hafi verið í hálft til eitt ár í íslensku efnahagslífi lagar það ekki sjö ára stöðnun og menn eiga ekki á þinginu að tala þannig að búast megi við því og tala um svik og brigsl í því sambandi. Almenningur í landinu veit miklu betur en svo.

Við skulum skoða sviðið eftir að tekist hefur að halda hagvexti jöfnum og þéttum í nokkur ár, hvort það sem þegar er orðið hafi ekki skilað sér eins og þetta hefur skilað sér. Það nægir ekki til þess að bæta það sem miður hafði farið forðum tíð. Það er rétt að menn átti sig á því.

Menn segja einnig: Hefur góðærið skilað sér að öðru leyti? Við þingmenn höfum hver um annan þveran talað um eitt mesta bölið sem menn hafa búið við, atvinnuleysið. Hefur góðærið ekki skilað sér á þann veg að atvinnuleysið fer minnkandi? Er ekki góðærið þar með að skila sér hvað það varðar? Atvinnuleysið er hér með því minnsta sem gerist í Evrópu, auðvitað of mikið enn þá en hefur þó minnkað verulega. Það er ávöxtur af bættum hag og bættri stöðu sem við hljótum öll að meta og viðurkenna að hefur skilað sér, er að byrja að skila sér.

Menn vekja athygli á hag fyrirtækjanna og segja: Fyrirtækin birta tölur sem sýna mikinn og blómlegan hag en fólkið hefur ekki fengið aðgang að þessum bætta hag. Það var mjög lítið bætt staða á milli ársins 1995 og 1994. Staða fyrirtækjanna var mjög svipuð, batnaði örlítið. Hins vegar sýna tölur á fyrri helmingi þessa árs að hagur fyrirtækjanna hefur batnað og má búast við því að hagnaður aukist um 1,5%. Það er ekki há tala. En það er á fyrri helmingi þessa árs og samhliða þessum bata fyrirtækjanna hefur kaupmáttur verið að skila sér út til fólksins í landinu og það verður að halda áfram. Það gerist ekki með því að menn rjúki af stað með fornum hætti og hækki laun um 50 eða 100% eins og sumir hafa stungið upp á, væntanlega ekki í fullri alvöru en þó hafa þeir látið það í ljós á þann hátt að menn gætu ímyndað sér að það væri full alvara. Það eru hlutir sem aldrei geta gengið og allir vita, það er saga sem við þekkjum. Við sjáum hins vegar núna að það skiptir nokkuð í tvö horn með talsmenn launþegahreyfingarinnar. Annars vegar er stór hópur áhrifamikilla launþegaforustumanna sem tala um aukinn kaupmátt. Svo er hópur sem hefur verið að tala um 50 og 100% kauphækkanir í tölum talið. Það er ekki nokkrum manni til gagns, ekki efnahagslífinu til gagns og ekki félögum í launþegahreyfingunni til gagns. Kaupmáttaraukningin hins vegar er til gagns. Hin gamla saga er kunn þegar laun hækkuðu um sjö þúsund prósent á löngu árabili og kaupmáttur mældist hafa hækkað um 1%. En hvað skyldi hafa tapast þar á milli hjá fólki í allri þeirri óðaverðbólgu sem þá gekk yfir? Ég hef beðið starfsmenn þingsins að dreifa plöggum sem sýna mjög glöggt hvernig þessar tölur hafa þróast.

Ég er þeirrar skoðunar að búast megi við því ef vel er á málum haldið að kaupmáttur í landinu geti haldið áfram að aukast jafnt og þétt á næstu árum og það er afar mikilvægt.

Við getum hins vegar viðurkennt að viðskiptakjör okkar út á við hafa rýrnað örlítið og munu rýrna á þessu ári. Á hinn bóginn er von til þess miðað við almenna þekkingu, þó með miklum fyrirvörum, að þau muni ekki rýrna á næsta ári, standa í stað eftir því sem væntingar standa til.

Þó að staðan hafi batnað á árinu er misskipt hag atvinnulífsins. Sjávarútvegurinn sem heild stóð vel árið 1995. Þetta ár verður miklu lakara. Staða sjávarútvegsins sem heildar verður algerlega í járnum á þessu ári og ákveðinn þáttur í sjávarútveginum stendur afar illa eins og menn þekkja og hefur þegar verið kynnt. Bolfisksvinnsla er nú rekin með 8,5% tapi en frá 1995 hafa þó laun á þeim vettvangi hækkað um 7,5% þannig að menn hafa verið að teygja sig og reyna að vera í takt við aðra hvað þetta varðar.

Við gerum oft samanburð og við heyrðum fréttir frá Noregi. Þar höfðu orðið mestu kauphækkanir vegna kjarasamninga sem orðið höfðu um langt árabil og var mikið fréttaefni, 4--5% kauphækkun hafði orðið og valdið miklum áhyggjum í Noregi, þessi mikla kauphækkunarskriða sem nú varð. Norska þingið er að afgreiða fjárlög með 400 milljarða kr. afgangi, þremur og hálfum fjárlögum íslenska ríkisins í afgang. Þeir fara engu að síður að með varúð í kaupgjaldsmálum og þeir reyndar eru að skera niður í þjónustu við aldraða og sjúka sem vart mundi verða gert hér á landi ef slíkur afgangur væri eins og þar er á tölum svo að við nefnum nú þennan samanburð. Ég bind vonir við það að forustumenn í atvinnulífi beggja vegna borðsins muni hér eftir sem á undanförnum árum eiga stóran hlut í því að tryggja að kaupmáttur vaxi og þeir muni ekki leggjast í ómerkilega baráttu sem er skjólstæðingum þeirra ekki til góðs.

Hv. 5. þm. Suðurl. minnti á kjör fólks í Danmörku og skýrsluna um það. Ég vek athygli á því að þeim samanburði lauk 1993 og þá vorum við á botni langrar efnahagslægðar og sjö ára stöðnunar. Síðan hefur miðað vel hjá okkur. Ég býst við því að skýrslan í dag yrði okkur hagfelldari nú þegar en hin fyrri. Danir tóku sér mikið efnahagslegt tak fyrir 8--10 árum, gengu í gegnum mikla erfiðleika, miklar skipulagsbreytingar og það hefur verið að skila sér með þeim hætti að við viljum helst bera okkur saman við þá eftir þær miklu efnahagslegu breytingar og var þá mjög að þeim fundið á þeim tíma þegar þær aðgerðir voru allar gerðar.

Að öðru leyti komu fram mjög frómar óskir frá hv. þm. Ég heyrði reyndar engar lausnir um það hvernig ætti að tryggja það að laun manna í landinu hækkuðu, a.m.k. ekki aðferðir sem væru betri eða dygðu betur en þær sem núv. ríkisstjórn stendur fyrir. Hv. þingmaður sagði að vísu efnislega að þess væri ekki að vænta að lífskjör fólks mundu hækka meðan þessi ríkisstjórn sæti. Ég vek athygli á því að þegar sú ríkisstjórn sat sem þessi þingmaður studdi varð mesta kaupmáttarhrun sem menn hafa lengi séð og sést á öllum línuritum. Og hv. þm. studdi þá ríkisstjórn ótrauð eftir því sem ég best veit í öllum þeim darraðardansi. Þótt kaupmáttur launanna félli jafnt og þétt mánuð frá mánuði var ekki talað eins og nú er talað.

En hv. þm. gerði líka að umtalsefni launamuninn í landinu sem alltaf er að aukast. Þetta eru fullyrðingar sem fá kannski ekki staðist þó menn taki sér þær oft í munn án þess að geta rökstutt þær. Fyrst menn eru að ræða samanburð í launum vildi ég biðja hv. þm. að nefna mér dæmi um það að einhvers staðar í víðri veröld sé launamunur minni og meira jafnræði í launum en hér í landinu. Getur hv. þm. fundið eitthvert land þar sem meira launajafnræði er til staðar en í því landi sem við erum að setja lög sem sitjum í þessum sal?

Ég hef oft heyrt nefnd lægstu laun síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum og er drjúgur tími síðan. Menn hafa nefnt lægstu laun og sagt: Getið þið lifað af þessum launum? Þetta þykir afar snjallt í öllum umræðum af þessu tagi enda búið að nota þetta í 35 ár og svo er alltaf einhver tala nefnd, aldrei sama talan því þetta breytist allt saman. Auðvitað eru rökin þau að það er alltaf afar erfitt og hvarvetna að lifa af lægstu launum og verður væntanlega ætíð. Það breytir því ekki að við erum væntanlega öll sammála um það að vinna að því að framhald geti orðið á þeirri kaupmáttaraukningu sem orðið hefur og það gera menn með því að fylgja fram stefnu ríkisstjórnarinnar, m.a. með því að skila hallalausum fjárlögum, gefa atvinnulífinu svigrúm til þess að eflast og styrkjast og það er það sem ríkisstjórnin mun auðvitað gera.