Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 16:53:56 (72)

1996-10-07 16:53:56# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:53]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér fara fram mjög athyglisverðar umræður. Allt er að lagast í ríki Davíðs Oddssonar jafnt og þétt kom fram í máli hæstv. forsrh. og það er gott og það er rétt að hér er talsverður uppgangur í þjóðfélaginu þegar vitnað er til meðaltalanna. Ég held að flestir geri sér grein fyrir því engu að síður að það er ekki vegna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, heldur þrátt fyrir þá ríkisstjórn.

Við megum ekki horfa fram hjá því að þegar við tölum um kaupmátt og þróun kaupmáttar, þá getum við ekki lagt alla þegna þjóðfélagsins eða alla þjóðfélagshópa að jöfnu. Hjá sumum hefur orðið kjarnarýrnun. Hjá öðrum hefur orðið umtalsverð kjarabót. Það hefur orðið umtalsverð kjarabót hjá þeim sem eignuðust SR-mjöl t.d., fengu SR-mjöl að gjöf á sínum tíma. Það hefur orðið umtalsverð kjarabót hjá þeim. Það hefur orðið umtalsverð kjarabót hjá þeim sem stunda brask með kvóta, mikil kjarabót, gósentíð. Það hefur orðið mikil kjarabót hjá þeim sem hafa notið góðs af vaxtaokri síðustu ára og hafa fengið í ofanálag skattafslátt af arði frá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. sem spurði áðan hvort hér væri virkilega nokkur þingmaður sem vildi hækka skatta til þess að verja hag sjúklinga og öryrkja, heilbrigðiskerfisins og velferðarþjónustunnar. Og hann er hér. Ég vil hækka skatta á því liði sem er í fyrirrúmi Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsfl., sem hefur beitt sér fyrir skattívilnunum til ríkasta hluta samfélagsins en níðist á þeim sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Ég held að það sé afar varhugavert þegar menn eru að leggja að jöfnu breytingar á sköttum til hækkunar eða lækkunar. Spurningin er þessi: Á hverjum bitnar skattahækkunin ef því er að skipta og hverjir njóta góðs af skattalækkun ef um það er að ræða? Og við skulum ekki gleyma því að á síðustu missirum og síðustu árum, allar götur frá árinu 1991, frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kom til valda, fyrst í samstarfi við Alþfl., Jafnaðarmannaflokk Íslands og nú síðar við Framsfl., þá hefur stöðugt verið vegið að launafólki og sértaklega þeim sem eiga í erfiðleikum í þjóðfélaginu; sjúklingum, þeim sem búa við barnaómegð, þeim sem eru í húsnæðisleit, þeim sem búa við tímabundna erfiðleika á æviskeiðinu. Það eru þessir hópar sem hafa þurft að þola kjararýrnun, ekki kaupmáttaraukningu, á síðustu árum.

Það sem vakti sérstaklega athygli mína í umræðunum áðan voru ummæli formanns Framsfl. sem sagði að ríkisstjórnin hefði hafið undirbúning kjarasamninga þegar eftir að hún tók við valdataumum í landinu, þegar hún skipaði nefnd til að fara í saumana á skattamálum. Til að gera hvað? Til að láta launafólk semja um kosningaloforð ríkisstjórnarinnar? Var það það sem vakti fyrir ríkisstjórninni og er það það sem skýrir einkunnagjöf hæstv. forsrh. gagnvart launafólki í landinu, einkunnagjöf sem er á þá lund að segja að þeir sem tala um kaupmáttaraukningu viti hvað þeir eru að tala um? En hinir sem voga sér að tala um kauphækkanir --- og er þá væntanlega skírskotað til talsmanna Dagsbrúnar, Hlífar og Verkamannasambandsins sem allir hafa talað um þörf á umtalsverðum kauphækkunum láglaunafólki til handa. Hver var sú einkunn sem þetta fólk fékk? Ómerkileg barátta. Þetta fólk stendur í ómerkilegri kjarabaráttu.

Hér hefur verið hafin, hæstv. forseti, mjög mikilvæg umræða. Þeirri umræðu lýkur ekki í dag og ekki á næstu dögum, ekki á næstu vikum, en henni mun ljúka og vonandi á annan veg en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur lagt upp með.