Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:09:21 (75)

1996-10-07 17:09:21# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á umræðuna. Við, stjórn og stjórnarandstæðingar, höfum verið að reyna að nálgast í umræðu um lífskjör og innbyrðis skiptingu á hagsældinni í landinu en það tekst ekki. Hvar skilur þá á milli í umræðunni? Fulltrúar ríkisstjórnarinnar tala í meðaltölum eða heildarsamanburði. Áherslan er á samanburð Ísland/OECD, Ísland/nágrannalönd, Ísland/Danmörk. Við þingmenn erum að tala um lífskjaradreifingu milli stétta á Íslandi. Við ræddum skýrslu í vor. Samanburður náði til skýrslu þar sem reynt var að gera samanburð á lífskjörum á Íslandi og í Danmörku. Samanburðurinn sem þá var gerður náði til tíma þar sem kaupmáttur í Danmörku óx á árunum 1991--1994 um 6,7% meðan kaupmáttur minnkaði á sama tíma hér á landi um 6%. Þessi staðreynd er rammi skýrslunnar sem við vorum að fjalla um í vor og höfðum mjög lítinn tíma til í lok þings. Þetta er til umhugsunar fyrir þá sem biðja menn að bíða rólegir eftir bættum kjörum eftir að aukinn hagvöxtur er nú orðinn 3--5% og er staðreynd sem stjórnarflokkarnir hafa haldið mjög á lofti á síðustu vikum. Menn gera sér kannski ekki grein fyrir því hver sá munur er að ræða lífskjarasamanburð í samdrætti annars vegar og miklum hagvexti hins vegar. Það má líka geta þess að kaupmátturinn var lakari hér á landi árið 1994 en 1990 vegna stórfelldra efnahagserfiðleika. Þetta er munurinn þá og nú. Skýrslan sem við ræddum í vor sýndi mun hærra matarverð en í Danmörku. Það var bent á, og ég rifjaði upp núna, að við hefðum getað notað GATT til að lækka matarverð. Var það gert? Nei, það var ekki gert. Vegna ummæla sem féllu hér áðan tek ég fram að það var ekki Alþfl. eða jafnaðarmenn sem stóðu í vegi fyrir því að það væri gert. Það er erfitt að átta sig á því hvernig ólík atriði sem komu ekki fram í skýrslunni hafa áhrif á efnahagslega stöðu fjölskyldna. Þess vegna hefur þingflokkur jafnaðarmanna beðið um viðbótarskýrslu þar sem ítarlegri samanburður er gerður á milli Íslands og Danmerkur og skýrslan fyllri enda bar hún þess mjög merki í vor að hafa verið ókláruð eða réttara sagt ekki fullunnin.

Beiðni okkar er að gerður verði ítarlegri samanburður á verði matvara hér og í Danmörku, samningsbundnum réttindum, kostnaðarþáttum svo sem í heilsugæslu og víðar, skiptingu þjóðartekna til nokkurra ára og innbyrðis skiptingu milli einstakra hópa launafólks í þessum tveimur löndum og einnig að kannað verði hver ástæðan er fyrir því að danskir vinnuveitendur geta greitt hærri laun en íslenskir vinnuveitendur. Aðalvandi okkar er sá að það er ekki unnt að fá samanburð á ráðstöfunartekjum sambærilegra fjölskyldna hér og í Danmörku og ég ætla að geta um hvers vegna. Í skýrslunni í vor kom það fram að danskar upphæðir eru umreiknaðar með svokölluðu PPP. Það er verðlagssamanburður sem OECD gerir á milli aðildarlanda en til er önnur tala sem er einnig frá OECD en byggist á verðlagssamanburði milli Norðurlandanna innbyrðis. Hefði verið rökrétt að ganga út frá því að síðari talan væri eðlilegri af því þar er gengið út frá samanburði milli skyldra þjóða með svipuð lífskjör og neyslumynstur sem ætti að vera marktækari en samanburður milli óskyldari þjóða. Þjóðhagsstofnun notaði ávallt lægri töluna og ég get nefnt sem dæmi að í vor var oft vitnað í setningu á bls. 14 í skýrslunni þar sem segir að þegar upp er staðið hafi danska fjölskyldan 15% meira til ráðstöfunar en sú íslenska. Ef samanburður milli Norðurlandanna hefði verið notaður í þessari skýrslu hefði talan ekki verið 15%, hún hefði verið 23,7%. Þetta eru líka staðreyndir um samanburðinn sem gerður var. En stærsti galli skýrslunnar er að mínu mati sá að hún gerir engan beinan samanburð á ráðstöfunartekjum sambærilegra fjölskyldna í löndunum. Ég vitnaði til setningarinnar á bls. 14. Í öðrum töflum er að finna beinan samanburð fyrir einstaklinga af ýmsum stéttum en hver yrði myndin? Ef við giftum saman tvo kennara, látum þau eiga tvö börn, bæði á barnaheimili, og skulda íbúð og bíl eða verkamann og afgreiðslustúlku, kennara og hjúkrunarfræðing o.s.frv. Það hafa verið gerðar tilraunir til slíks samanburðar á grundvelli upplýsinga sem fram koma í skýrslunni sem ég hef vísað til og út kemur þetta, virðulegi forseti: Dönsku kennarahjónin hafa 63% meira til ráðstöfunar en þau íslensku. Dagvinnulaun þeirra íslensku þyrftu að hækka um 103,8% til að þau hefðu það jafngott og þau dönsku. Danski verkamaðurinn og afgreiðslustúlkan hafa 53,6% meira út úr dagvinnunni, yfirvinna minnkar muninn í 32,4%. Og dagvinnulaun íslensku hjónanna þyrftu að hækka um 110,5% til að þau standi jafnfætis þeim dönsku. Virðulegi forseti. Þetta er ef eðlilegt gengi OECD á milli Norðurlandanna er notað. Því miður er þetta rétt, virðulegi forsrh., og við þurfum að ræða nánar um þessi mál á komandi hausti.