Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:20:17 (77)

1996-10-07 17:20:17# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:20]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Sú umræða sem er hafin að frumkvæði þingflokks Alþb. og óháðra mun fara fram í allan vetur. Þessi mál, lífskjörin, fjölskyldan og kjarabaráttan verða aðalumræðuefnið í allan vetur. Það er af þeim ástæðum sem þingflokkurinn og þingmenn okkar hafa lagt fram þau mál sem kynnt hafa verið og kynnt verða næstu daga og gætu kannski orðið til þess að auðvelda þá kjarabaráttu sem fram undan er. Mál sem snerta vinnutímann, mál sem snerta þjónustugjöldin á heilsugæslustöðvunum, mál sem snerta jaðarskattana, mál sem snerta húsnæðiskerfið svo nokkur dæmi séu nefnd um mál sem verður að taka á í tengslum við þá kjarabaráttu og kjarasamninga sem fram undan eru að ógleymdum skuldum heimilanna sem eru stórfelldur og vaxandi vandi eins og hæstv. félmrh. viðurkenndi hér áðan.

Auðvitað er það verkalýðshreyfingarinnar að móta kröfurnar um kaupið í einstökum atriðum en það er Alþingi sem útbýr hinn pólitíska ramma og auðvitað er það þannig að kjarabaráttan er þegar upp er staðið pólitísk líka. Þess vegna skiptir máli hvað við gerum í þessari stofnun og hvernig ríkisstjórnin tekur á þeim málum sem snerta kjör hins almenna manns í landinu.

Hins vegar verð ég að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég óttast dálítið um það hvernig samskiptum ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar verður hagað á komandi vetri. Ég óttast það vegna þess að mér fannst að formenn stjórnarflokkanna, sem töluðu áðan, væru bólgnir af sjálfsánægju, þeir voru svo sannfærðir um að allt væri gott og fullkomið hjá þeim í efnahagsmálum og atvinnumálum að ekkert þyrfti annað að gera í kjaramálum en það eins og hæstv. forsrh. sagði að tryggja að ríkisstjórnin verði áfram til, þ.e. fylgt verði áfram þeirri stefnu sem hún hefur komið sér upp.

Kveðjur af þessu tagi til verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi í upphafi kjarabaráttu kunna ekki góðri lukku að stýra og það er greinilegt að hæstv. ráðherrar neita að horfast í augu við þann veruleika að þó að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi hreyfst að undanförnu hefur hann í raun og veru hreyfst minna en nemur breytingum á landsframleiðslu og þjóðartekjum á síðustu árum. Ef við lítum yfir árin frá 1990 til þeirrar spár sem liggur fyrir fyrir árið 1997 hefur verg landsframleiðsla aukist um 13%, vergar þjóðartekjur á sama hátt um 11,7%. Þetta kemur fram í þjóðhagsáætlun, 13% og 11,7%. Á sama tíma liggur það fyrir og kemur fram í sama skjali að ráðstöfunartekjur á mann hafa aukist um 2,8% og ef við skoðum þetta á mælikvarða launavísitölunnar einnar er um að ræða hækkun upp á 6,1%. Þess vegna alveg greinilegt að ef við horfum yfir þetta tímabil frá 1990 og til dagsins í dag og þess sem spáð er á næsta ári þá eru launin langt á eftir öðrum þjóðhagsstærðum og þess vegna er það greinilegt að verkalýðshreyfingin og einstök verkalýðsfélög sem hafa verið að tjá sig að undanförnu hafa rétt fyrir sér þegar þau segja: Það verður að hækka kaupið til þess að kaupið haldi í við annað í þjóðfélaginu og helst gott betur. Það er það sem menn eru að gera kröfur um. Hverju mæta menn þá? Þá mæta menn þessari taumlausu sjálfsánægju formanna stjórnarflokkanna sem birtist hér áðan.

Það var vissulega fagnaðarefni að það kom fram í máli hæstv. félmrh. að hann gerir sér grein fyrir því eftir langa viðtalstíma í félmrn. að skuldir heimilanna eru að sliga þúsundir fjölskyldna. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að ef það á að komast í gegnum kjarabaráttuna og kjarasamningana núna í vetur verða ráðherrarnir að hrista af sér sjálfsánægjuna sem einkenndi þá hér áðan.