Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:28:04 (79)

1996-10-07 17:28:04# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:28]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég byrja á því að taka undir með hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni sem hann sagði hér áðan að við Íslendingar höfum það að meðaltali gott. En það gerum við reyndar líka þegar við stöndum með annan fótinn í sjóðandi vatni og hinn í ísköldu þannig að það að við höfum það að meðaltali gott segir kannski ekki svo mikið um það hvernig ákveðnum þjóðfélagshópum líður og það er kannski það sem þessi umræða snýst um fyrst og fremst. Ég held að það sé ágætt eins og sumir hafa gert í umræðunni að draga pínulítið fram stöðu einstakra hópa í staðinn fyrir að tala alltaf í meðaltölum vegna þess að það segir manni ekki alla söguna.

Skilaboð ríkisstjórnarinnar, sem við höfum séð, bæði í umræðunni og ekki síður í framlögðu fjárlagafrv. eru meira og minna í meðaltölum. Það er mjög fróðlegt að skoða það hvernig þetta er allt saman lagt fram hjá hæstv. ríkisstjórn, ekki aðeins skilaboðin til fjölskyldnanna heldur líka skilaboðin eða boðskapurinn til launafólks í tilefni af komandi kjarasamningum. Það má segja að hæstv. ríkisstjórn láti ekki hjá líða að minna verulega á komandi kjarasamninga í nýframlögðu fjárlagafrv. því þó það sé sjaldnast nefnt berum orðum þar er það svo að sérstaklega hinn svokallaði ráðherrakafli er í raun og veru sannkallaður óður til verkalýðshreyfingarinnar. Þar er reyndar enginn baráttuóður á ferð og enn síður er þar hægt að greina vott af þakklæti til launafólks fyrir þær fórnir sem það hefur fært í þágu efnahagslegs stöðugleika á liðnum árum. Ég held að full ástæða sé til að minna á það úr þessum ræðustól að það er fyrst og fremst launafólk með samstöðu verkalýðshreyfingarinnar sem gerði það mögulegt að þessi efnahagslegi stöðugleiki myndaðist. Það er alveg ástæða til þess að minna á að það er á engan hátt aðeins ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að þakka heldur kannski, eins og bent var á í umræðunni áðan, þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn hafi setið hér við stjórnvölinn. Því það er engu líkara þegar maður les þann boðskap sem kemur fram í fjárlagafrv. en að það þurfi virkilega að halda launafólki og samtökum þess niðri. Það er sá boðskapur sem mörgum líkar illa að sjá, ekki síst með tilliti til fortíðarinnar og þeirrar ábyrgðar sem verkalýðshreyfingin og launafólk hefur sýnt í því skyni að ná fram efnahagslegum stöðugleika. Fjárlagafrv. hins vegar og boðskapur ríkisstjórnarinnar í umræðunni er í raun og veru linnulaus hræðsluáróður. Ef þið krefjist bættra kjara þá fer allt úr böndunum, og í sjálfu fjárlagafrv. er t.d. sagt berum orðum, ef ég má vitna í það, með leyfi forseta:

[17:30]

,,Mikilvægt er að nýta efnahagsbatann skynsamlega og forðast kollsteypur. Í komandi kjarasamningum þarf að taka mið af þeim efnahagslega ramma sem markast af aukningu þjóðartekna. Þannig má koma í veg fyrir að verðbólgan fari aftur á skrið því að hún leikur þá verst sem minnst mega sín.``

Ég get ekki skilið annað en hér sé um hreinan og kláran hræðsluáróður að ræða meira og minna í boðskap ríkisstjórnarinnar á undanförnum vikum. Þó að allir séu sammála um að það þurfi að gæta viss aðhalds í ríkisrekstri þá eru, eins og fram hefur komið í umræðunni, menn ekki sammála um hvernig það er gert. Og ég vil minna á það sem hv. málshefjandi sagði í upphafi, að Alþb. og óháðir hafa lagt fram fjölda tillagna í þeim efnum sem liggja fyrir þinginu og sem sjá má líka á liðnum árum í tillöguflutningi okkar.

Herra forseti. Þessi hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa áttað sig á því að það verður ekki endalaust gengið á launafólk og á fjölskyldur þessa lands. Þrátt fyrir göfugt markmið um efnahagslegan árangur í ríkisfjármálum þá er það svo að fólk gerir fyrr eða síðar kröfur til þess að fá eitthvað af þessum efnahagsbata sem alltaf er verið að tala um. Og það er ekkert að undra, herra forseti, að láglaunafólk sem nú hefur uppi hærri kaupkröfur en ríkisstjórnin hefur gefið, ég vil segja leyfi til eða grænt ljós á, telji sinn tíma nú vera kominn eftir áralanga þolinmæði og þrautseigju í nafni þess að styrkja efnahagslega stöðu ríkisins sem hæstv. ríkisstjórn hælir sér núna af fram og aftur. Það er hins vegar því miður ekki háleit markmið að sjá í þágu fjölskyldunnar, hvorki í þessu fjárlagafrv. né í stefnu ríkisstjórnarinnar að öðru leyti nema fjölskyldustefna hæstv. félmrh. verði lögð fram og rædd fljótlega. Það vona ég sannarlega því að a.m.k. er þar hægt að binda vonir við það að ríkisstjórnin sé á einhvern hátt að gæta hagsmuna fjölskyldunnar.

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Hæstv. forsrh. sagði í umræðunni áðan að það væri afar snjallt eins og hann orðaði það, í umræðu af þessu tagi að spyrja hvort fólk treysti sér til að lifa af lægstu laununum. Það er rétt hjá hæstv. ráðherranum að það er afar snjallt að spyrja svona. Ég heyrði hins vegar hæstv. forsrh. ekki svara þessari spurningu og ég vil í lokin til upplýsingar segja honum og þeim sem hér eiga eftir að tala að lægstu laun innan Verkamannasambands Íslands eru rúmar 49 þús. kr. og það var ekki minnst á þau í máli hv. málshefjanda.