Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:33:58 (80)

1996-10-07 17:33:58# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þáltill. um fjölskyldustefnu verður lögð fram alveg á næstu dögum. Ég vænti þess að það gerist á morgun eða hinn daginn. Komandi kjarasamningar verða náttúrlega ekki leystir hér í þingsalnum en bætt vinnulöggjöf á að geta greitt fyrir lausn kjarasamninga. Það hefur skapast nokkurt svigrúm til kaupmáttaraukningar. Gömlu lögin reyndust illa. Þau hafa beinlínis stuðlað að auknum launamun, ekki læknað hann. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að ræða þetta æsingalaust. Ég held að það sé mjög eftirsóknarvert að reyna að breyta launauppbyggingunni í landinu, þ.e. að hækka lægstu grunnlaunin en minnka áhersluna á yfirvinnuna og stytta vinnutíma án þess að framleiðni eða afköst minnki. Reynslan hefur nú kennt mörgum þjóðum að langur vinnutími er ekki mælikvarði á mikil afköst. Þar af leiðandi held ég að það þurfi að huga líka að þessu atriði ekki síður en prósentuhækkunum.

Sem betur fer er atvinnuleysið að minnka. Spá vinnumálaskrifstofu félmrn. fyrir septembermánuð hljóðar upp á líklegt 3,2% atvinnuleysi í september. Nú liggja tölur ekki fyrir svo að ég verð að hafa á þessu nokkurn fyrirvara. Það er þó allt of mikið skráð atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu og reyndar eru sums staðar uggvænlegar horfur vegna erfiðleika í bolfiskvinnslunni sem geta leitt til aukins atvinnuleysis og vandræða. Þrátt fyrir það að hér sé enn nokkurt skráð atvinnuleysi þá vantar okkur orðið fólk í stórum stíl. Það vantar fólk í Reykjavík tugum saman í heimililshjálp og félmrn. mun standa að námskeiði í samstarfi við Sókn og Reykjavíkurborg beinlínis til þess að kynna starfið að heimilishjálpinni. (Gripið fram í.) Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá Þórunni Sveinbjarnardóttur þá er þau fast að 80 þúsundum með að sjálfsögðu fullum vinnudegi.

Það vantar víðar fólk. Það vantar stórlega fólk í fiskvinnslu. Á föstudaginn var t.d. varð ég að láta afgreiða 70 atvinnuleyfi handa Pólverjum til þess beinlínis að fiskvinnsla strandaði ekki á nokkrum stöðum hér á landi. Ég hafði reyndar vakið athygli á því með auglýsingu að störf væru laus en fólkið virtist ekki vilja taka þessi störf. Við höfum beitt okkur fyrir námskeiðum fyrir atvinnulausa byrjendur í fiskvinnslu og það hefur gefið góða raun. Tveir þriðju af þeim sem sóttu fyrsta námskeiðið réðu sig í fiskvinnslu upp úr því og ég vonast eftir að áframhald verði á þessu. Ég vænti þess að menn gangi að komandi kjarasamningum með stillingu. Við skulum láta aðila vinnumarkaðarins um að ræðast við. Við leysum þetta ekki eins og ég sagði í þingsalnum. Ég vænti þess að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir stór orð og heitingar sem menn hafa haft uppi einstöku sinnum í hita leiksins, þá eigi þessir kjarasamningar að geta farið þannig fram að þeir hafi í för með sér eðlilegar kjarabætur án þess að setja hér allt á annan endann því að það er engum greiði gerður með því.