Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 14:36:52 (95)

1996-10-08 14:36:52# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi menntamálin fyrst skal það tekið fram að við teljum okkur vera að efla menntun í landinu og menningu á næsta ári með fjárlögunum. Í fyrsta lagi lætur ríkið sveitarfélögunum í té heimanmund með grunnskólanum sem nemur 300--400 millj. kr. Þá leggur ríkið fram 265 millj. kr. árlega næstu fimm árin til skólaframkvæmda til að tryggja einsetningu grunnskólans. Ég minni á ný lög um framhaldsskólann sem koma að fullu til framkvæmda árið 2000. Það er aukið námsframboð á háskólastiginu. Um er að ræða fjarnám, leikskólakennaranám, nám í matvælafræði við Háskólann á Akureyri. Loks fara 260 millj. kr. til aukins framlags vegna vísindasamstarfs á vegum Evrópubandalagsins sem er stórkostleg hækkun og gefur mikla möguleika.

Þegar minnst er á stofnanir á bls. 232, þá er hér átt við stofnanir eins og skólastofnanir, sýslumenn, sjúkrahús og skattstofur svo ég nefni dæmi. Hugmyndin er sú að reyna að fækka stofnunum. Það þýðir ekki endilega að þjónustan hverfi á stöðunum heldur að stofnununum fækki þótt vinnustöðvarnar séu kannski jafnmargar og áður.

Um Byggingarsjóð verkamanna skal það tekið fram að á sínum tíma töldum við okkur hafa náð utan um hann. Ég man eftir því þegar ég kom í fjmrn. 1991, að þá voru þau mál í miklum ólestri. Það sem ákveðið var að gera var að hafa fullt samræmi á milli útlána og þess sem ríkissjóður lagði fram á hverjum tíma. Nú hefur það hins vegar gerst að byggingarsjóðnum hefur vegnað illa af margvíslegum ástæðum, m.a. þeim að það hefur reynst erfitt að koma íbúðum út og það eru stórkostlegar skuldir sem hafa safnast hjá sveitarfélögunum við sjóðinn. Það er hugmynd félmrh. að taka sérstaklega á þessu máli og ég hygg reyndar að sú stjórnsýsluendurskoðun sem nú liggur fyrir verði ágætur grundvöllur til þess að gera breytingar að þessu leyti og mörgu öðru leyti hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.