Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:05:55 (99)

1996-10-08 15:05:55# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:05]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi gefst ekki tækifæri til þess í stuttu andsvari að svara öllum þeim spurningum sem fram komu en það verður að sjálfsögðu gert í síðari ræðu minni í dag.

Ég vil fyrst segja að þegar minnst er á Framkvæmdasjóð aldraðra er minna sem gengur til rekstrar úr þeim sjóði á næsta ári en í ár. Þegar litið er til orðsins ,,innflutnings`` á bls. 235 stendur það auðvitað eins og nokkurs konar hortittur einn og sér. Þetta skýrði ég í framsöguræðu minni. Það sem fyrst og fremst er átt við er frelsi í viðskiptum, bæði innan lands og á milli landa. Innflutningur gæti þess vegna átt við landbúnað eins og aðrar vöru ef í það er farið til að gleðja hjarta hv. fyrirspyrjanda. Þegar skapa á markaðsaðstæður, innri markað --- innri markaður ætti nú að vera alþýðuflokksmönnum kær, það er sama hugtak og notað er í Evrópusambandinu --- er átt við að menn greiði með einhverjum hætti fyrir viðskipti sem eiga sér stað á milli stofnana með þjónustugjöldum þannig að það komi fram hver raunverulegur kostnaður er.

Varðandi það hvað sé inni í grundvelli tekna og gjalda í þjóðhagsáætlun er að finna upplýsingar um það, sem ég hef ekki tíma til að fara í, en ég get bætt við vegna spurningarinnar um viðskiptamálin að það má benda á bls. 233 þar sem rætt er um árangur efnahagsstefnunnar.

Varðandi aflabrögð er það ekki fjmrn. sem metur hvaða afli er í pokanum heldur er það Þjóðhagsstofnun. Við byggjum auðvitað á þjóðhagsspám Þjóðhagsstofnunar eins og við höfum gert á undanförnum árum. Upplýsingar um það er að finna í þjóðhagsyfirliti.