Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:39:38 (106)

1996-10-08 15:39:38# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom því ekki að í fyrra andsvari mínu að ég tel að það sé rangt með farið þegar sagt er að fjárlagafrv. endurspegli andúð á menntun. Auðvitað má betur gera. Ég tek undir það með hv. þm. að menntun á að vera forgangsmál við ráðstöfun á opinberum fjármunum. En fjárlagafrv. almennt endurspeglar alls ekki neina andúð á menntun og hvað sem líður umræðum um framhaldsskólana þá kemur fram að á milli ára hækka þó framlögin um 37 millj. kr. En nemendafjöldinn veldur því að um raunhækkun kann ekki að vera en það er alls staðar á öllum sviðum reynt að auka framlög og útgjöld til menntamála.

Það kemur fram í greinargerð með frv. að varðandi Landsbókasafni Íslands -- Háskólabókasafnið er m.a. um rekstrarkostnað húsnæðis að ræða sem tekið er tillit til en það kemur einnig fram að samkvæmt lögum um safnið er gert ráð fyrir að hluti af fjárveitingum til Háskóla Íslands renni árlega til safnsins samkvæmt sérstöku samkomulagi þess við skólann. Það er þetta samkomulag sem ég tel að sé mjög brýnt að knýja fram að verði gert og það á m.a. að taka til þess hvernig safnið er opið. Það eru einkum óskir háskólastúdenta sem valda því að menn eru að tala um að safnið eigi að vera opið á öðrum tímum en þjóðarbókasöfn almennt og það er sá vandi sem menn standa frammi fyrir og eru að þreifa sig áfram í rekstri þessa safns, hvernig er hægt að sameina Landsbókasafn annars vegar og háskólabókasafn og það veiti þá alhliða þjónustu bæði almenningi og stúdentum sem þarf að vera. Ég tel að samkomulag milli háskólans og safnsins sé mjög brýnt til þess m.a. að skýra þetta og koma til móts við óskir í því efni.