Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:50:27 (111)

1996-10-08 15:50:27# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:50]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ánægjuefni að hér skuli vera lagt fram frv. sem gerir ráð fyrir hallalausum fjárlögum á næsta ári og raunar ekki aðeins hallalausum heldur með rúmlega 1 milljarðs afgangi. Það er nýlunda og mikil viðbrigði frá undanförnum áratug eða rúmlega það þar sem við höfum verið að fást við hallatölur upp á marga milljarða á ári hverju. Ég hef ekki síður en hæstv. fjmrh. og margir fleiri alltaf horft með sárum söknuði eftir þeim gríðarlegu fjármunum sem farið hafa til greiðslu vaxta og afborgana af lánum, en þessi upphæð er nú áætluð um 13,5 milljarðar á næsta ári samanborið við 13,8 milljarða á þessu ári. Í þeirri upphæð vega þungt afborganir lána vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem mikil átök stóðu um fyrir nokkrum árum og hefur orðið okkur þungur baggi. Á næsta ári þarf að greiða tæplega 1,5 milljarða af lánum vegna byggingar þessarar flugstöðvar sem ofan í kaupið þarfnast stækkunar og breytinga sem áætlað er að kosti rúmlega hálfan milljarð á næsta ári og 800 millj. þegar upp er staðið. Sem sagt: 2 milljarðar þar á næsta ári. Mér er engin launung á því að ég hefði heldur viljað sjá þá fjármuni renna til annarra verka.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar er vissulega um margt glæsilegt hús, falleg bygging, en hún er fyrst og fremst minnisvarði um óráðsíu og eyðslu um efni fram eins og margsinnis var sýnt fram á á sínum tíma. En sú gjörð verður ekki aftur tekin og enn um sinn má þjóðin súpa seyðið af þeirri glæframennsku, ef svo má orða, sem dugði okkur einu sinni ekki til þess að fá nógu stórt hús. Tæpum áratug eftir byggingu þess þarf að ráðast í umfangsmiklar breytingar og stækkun svo það fái gegnt hlutverki sínu svo viðunandi sé. Það er svo merkilegt að hæstv. ríkisstjórn hefur fullan skilning á þeirri þörf nokkrum mánuðum eftir að farið var að tala um hana, þar sem aftur á móti ekki hefur komist inn hjá henni að við Sjúkrahúsið á Egilsstöðum vantar sárlega skýli fyrir sjúkrabifreiðar, skýli sem beðið hefur verið um árum saman og er áætlað að kosti um 7 millj. kr. En ríkisstjórnin hefur ekki haft jafnmikinn skilning á þeirri þörf og því sem blasir við í málefnum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ég nefni þetta svona til samanburðar og sem dæmi um skilning og skilningsleysi um forgangsröðun og um mat á nauðsyn framkvæmda. Ég nefni Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna þess að hæstv. ráðherrar hafa ákaft höfðað til ábyrgðar almennings og látið að því liggja að hún sé töluverð á skuldasöfnun undangenginna ára. Staðreyndin er auðvitað sú að persónulegur metnaður og minnisvarðastefna á kostnað almennings á þar drjúgan hlut að máli. En það breytir ekki því að allir hljóta að vera sammála um nauðsyn þess og mikilvægi að reka ríkissjóð án halla og helst með afgangi svo unnt sé að lækka skuldabyrði ríkissjóðs.

Það er hins vegar álitamál hversu raunhæfar þær forsendur eru sem lagðar eru til grundvallar niðurstöðutölunum í þessu frv. og þá með hliðsjón af niðurstöðum þessa árs þar sem t.d. hagvöxtur á árinu sem er að líða er talinn verða um 5,5% en í spá fyrir árið 1997 er hann áætlaður 2,5%. Ég held að það sé varlega áætlað og að auknar fjárfestingar á þessu ári muni skila sér í meiri hagvexti á næstu árum heldur en hér er gert ráð fyrir. En það er eðli slíkrar spámennsku að fara varlega og það er út af fyrir sig ágætt.

Á móti þeirri trú minni að það verði væntanlega meiri hagvöxtur en hér er spáð kemur líka að spá um launaþróun er heldur ekki líkleg til að standast svo að hugsanlega vegur þetta hvort á móti öðru. En spá um 3,5% launahækkanir getur varla staðist. Kjarasamningar eru lausir hjá meiri hluta alls launafólks um næstu áramót og það er mikil skammsýni að halda að það muni ekki fylgja fast eftir kröfum um verulegar kauphækkanir eftir að hafa borið meginþunga þeirra byrða sem nauðsynlegar þóttu til þess að skapa og koma á stöðugleika og festu í efnahags- og atvinnulífi landsmanna. Víst hafa kjörin verið að batna, svona að meðaltali a.m.k., en fyrr mátti líka vera. Það hefur sorfið verulega að fólki á meðallaunum og þar undir og hagur þessa fólks hefur ekki batnað svo um muni. Menn mega ekki gleyma að ýmis kostnaður hefur komið til á síðustu árum sem hefur komið mjög illa við lágtekjufólk og fólk með meðaltekjur og slíkur kostnaður er ekkert inni í myndinni þegar verið er að tala um ráðstöfunartekjur. Þar er ekki tekið tillit til aukins kostnaðar vegna skólagöngu, lyfja- og lækniskostnaðar, sem hefur verið að falla til að undanförnu, svo og þjónustugjalda af ýmsu tagi. Slík gjöld eru alveg fyrir utan þetta en hafa svo sannarlega aukið vægi í útgjöldum heimila og einstaklinga. Ríkisstjórnin heldur áfram á þeirri braut og mætti nefna ýmis dæmi um það í frv. Ég nefni eitt þó að það hafi verið til umræðu áðan hjá síðasta ræðumanni, hv. 12. þm. Reykv. Það er vísað til þess á bls. 292 í frv. að brottfall úr framhaldsskólum eða endurtekning prófa sé talin óeðlilega mikil. Það er ætlunin að taka 1.500 kr. gjald af nemendum sem endurtaka próf og sagt að þetta sé gert í þeirri von að gjaldtakan leiði til markvissari innritunar og auðveldi skipulagningu kennslu fremur en til útgjalda nemenda, eins og hæstv. menntmrh. ítrekaði áðan. Það er sagt að með hliðsjón af því að endurinnritun er jafnan meiri í áfangaskólum en bekkjaskólum sé áætlunin miðuð við 2.500 kr. á nemanda í áfangaskólum en 1.000 kr. í bekkjaskólum. Víða leynist matarholan og spurning hvort hér er ekki alveg eins verið að setja fótinn fyrir nemendur sem eiga erfitt með nám af einhverjum orsökum eins og það að tryggja markvissa innritun, eins og það er orðað. Um þetta þarf reyndar sérstaka lagaheimild og þar með sérstaka umfjöllun sem tæpast verður á lágu nótunum. Og vegna svars hæstv. menntmrh. við fyrirspurn hv. 12. þm. Reykv. minni ég á að tekjur vegna endurinnritunar eru áætlaðar 32 millj. kr. svo það er augljóslega reiknað með þó nokkrum tilfellum þar sem nemendur þurfa að draga upp veskið. Aukaútgjöld af þessu tagi eru ekki með í dæminu þegar reiknaðar eru út ráðstöfunartekjur sem sagðar eru sívaxandi um þessar mundir.

[16:00]

Það er deginum ljósara að launafólk hlýtur að sækja sinn rétt af fullum þunga og allir viðurkenna í raun að slíkar kröfur eru réttmætar. En auðsjáanlega vildu stjórnvöld ríkisfjármála helst vera laus við þetta suð, það sýna ýmsar athugasemdir í greinargerð með frv. til fjárlaga og ýmis orð hafa verið látin falla sem bera þess vitni, athugasemdir eins og að ,,mikilvægt sé að nýta efnahagsbatann skynsamlega og forðast kollsteypur`` sem væntanlega lesist: forðast launahækkanir. Það er talað um að ,,leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að verðbólgan fari aftur á skrið`` sem aftur lesist væntanlega: sem minnstar launahækkanir, og fleira í þessum dúr. Enn og aftur er hinn almenni launamaður kallaður til ábyrgðar.

Tengt þessu er atvinnustigið í landinu en af þeim vettvangi eru bæði sæmilegar fréttir og vondar fréttir. Skráð atvinnuleysi hefur minnkað á þessu ári með auknum umsvifum og þar með fjölgun starfa og spáð er þróun í sömu átt á næsta ári. Vondu fréttirnar eru hins vegar þær hversu hægt gengur að draga úr atvinnuleysi meðal kvenna. Það eru að vísu ekki nýjar fréttir fyrir okkur kvennalistakonur a.m.k. sem höfum ár eftir ár reynt að knýja á um einhverjar alvöruaðgerðir til að taka á þessum vanda. Það er staðreynd að atvinnuleysið hefur komið miklu verr niður á konum en körlum. Það er hreinlega alþjóðlegt fyrirbæri, þó að hér sé ekki gengið svo langt að senda konur heim og skipa þeim að hylja andlit sitt og hætta að mennta sig eins og gerist í sumum löndunum nú um stundir, enda vita menn þótt því sé ekki haldið hátt á lofti að stóraukin atvinnuþátttaka kvenna hefur haldið uppi auknum hagvexti síðustu ára þrátt fyrir allt. En konur verða fremur en karlar fyrir barðinu á atvinnuleysi. Atvinnuleysi kvenna mældist t.d. 6,3% að meðaltali fyrstu sjö mánuði þessa árs, en hins vegar 3,7% meðal karla. Þetta stafar m.a. af því að nýir atvinnukostir hafa dregið að sér vinnuafl karla miklu fremur en kvenna og stjórnvöld virðast bara harla sátt við það eða a.m.k. koma ekki auga á nein úrræði. Auðvitað gætu þau, ef þau vildu, t.d. lagt áherslu á að laða að fjárfesta í ferðaþjónustu og þar með verið bæði umhverfisvænni og kvenhollari en þau eru með áherslum sínum á stóriðju. Engin teikn eru þó á lofti um áherslubreytingar í þessum efnum og forsendur af þessu tagi virðast fjarri hugarheimi hæstvirtra ráðherra.

Í greinargerðinni koma fram miklar áhyggjur af aukinni einkaneyslu og enn og aftur finnst manni að verið sé að senda almenningi svolítið tóninn, fólk kunni ekki fótum sínum forráð, það safni skuldum og eyði um efni fram og einhvern veginn finnst mér liggja í orðanna hljóðan að þetta fólk hafi ekkert með hærra kaup að gera. Það eyði því bara og sói og auki viðskiptahallann með allri þessari einkaneyslu. Reyndar er í greinargerðinni fallist á þá augljósu staðreynd að þessi aukna einkaneysla stafar að talsverðum hluta af því að fólk hefur hreinlega haldið að sér höndum í þrengingum síðustu ára og þess vegna hafi hlaðist upp allnokkur endurnýjunarþörf eins og ég held að það sé orðað hér einhvers staðar, t.d. í sambandi við bíla og heimilistæki.

Það má heldur ekki gleyma því að þessi neysluaukning skilar auknum tekjum í ríkissjóð og er reyndar meginorsök fyrir betri útkomu ríkissjóðs á þessu ári og auðveldar áætlanir um jöfnuð á næsta ári eða jafnvel afgang. Þannig eru alltaf margar hliðar á sama teningnum og fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Mér finnst satt að segja óþarflega mikil áhersla á þetta atriði og eins og verið sé að segja fólki að það eigi ekki að fá hærri laun því að það eru tæplega ráð til að hamla gegn einkaneyslu ef hún er svona hættuleg önnur en þau að halda niðri launum og hafa hæfilegt atvinnuleysi eins og stundum er sagt. Innflutningshöft eru varla inni í myndinni. Þau tilheyra liðinni tíð. Nú er hins vegar keppikeflið ,,að auka sem mest frelsi í viðskiptum, ekki síst innflutning`` eins og segir, með leyfi forseta, á bls. 235 í greinargerðinni og gengur það nú svolítið þvert á allar yfirlýsingarnar um hinn vonda viðskiptahalla.

Í þeim punktum sem tíundaðir eru á bls. 234--236 um helstu áhersluatriði í ríkisfjármálum er sitthvað fleira að finna sem þarfnast nánari skýringa og verður okkur vonandi ljósara eftir umfjöllun í hv. fjárln. Eitt áhersluatriðið er það að stefnt er að betri og markvissari þjónustu með færri en öflugri stofnunum og ætlunin er að taka sérstaklega til skoðunar rekstur sjúkrahúsa, framhaldsskóla, rannsóknastofnana, sýslumannsembætta og skattstofa og klykkt út með því að með breytingunum eigi að nýta þá möguleika á hagræðingu sem ný tækni og bættar samgöngur gefa.

Nú má vel vera að sumt af þessu sé öldungis þaulhugsað og undirbúið en ég leyfi mér þó að efast um það. Reyndar veit ég að svo er ekki og að í fæstum tilvikum er t.d. um nokkurt samráð að ræða við heimamenn, hvað þá að nokkrar áætlanir séu til um skipan mála eða hverju sú skipan eigi að skila, fjárhagslega, stjórnunarlega eða faglega. Við getum tekið sem dæmi Hússtjórnarskólann á Hallormsstað, skóla sem á sér langa og merka sögu og kostar ríkissjóð satt að segja sáralítið, þar sem nemendur greiða allan efniskostnað. Það er auðvelt að fletta því upp, mig minnir að það sé í kringum 6 eða 7 millj. kr. sem áætlað er að leggja til skólans á næsta ári, en þyrfti að vera um 10 millj. kr. ef ætlunin væri að reka hann allt árið. Ég efa stórlega að tillögusmiðir hafi grænan grun um hvað fram fer í þessum skóla en áreiðanlega getur hv. formaður fjárln. og reyndar fleiri hv. fjárlaganefndarmenn upplýst hæstv. menntmrh. um það. Hann lýsir hins vegar þeim vilja sínum að hætta starfsemi skólans í núverandi mynd og afhenda hann Menntaskólanum á Egilsstöðum. Sá skóli hefur að vísu ekki nokkurn áhuga á því að fá enn eitt húsið fjarri höfuðstöðvum en hann situr nú uppi með húsakynni Eiðaskóla og svikin loforð um nægilegt fé til að endurnýja það húsnæði og koma því í nothæft form. Skólahúsið á Hallormsstað þarfnast einnig sárlega viðhalds og forráðamenn þar vissu ekki annað en til þeirra hluta væri ætlað söluandvirði skólastýrubústaðar sem var um 6,3 millj. kr. Ekki bólar á efndum þess og þannig er því miður oft í samskiptum ríkis og stofnana að ríkið stendur ekki við sitt ef það mögulega kemst hjá því og viðkomandi stofnun veslast upp hægt og bítandi þangað til hægt er að halda því fram að hún sé ekki á vetur setjandi.

Þetta dæmi um Hússtjórnarskólann á Hallormsstað þarf aðvitað að skoða betur og sama er að segja um aðra skóla sem lenda undir niðurskurðarhnífnum, Hússtjórnarskólann í Reykjavík, Framhaldsskólann á Húsavík, Framhaldsskólann á Laugum, Framhaldsskólann á Nesjum í Austur-Skaftafellssýslu og fleiri. Hæstv. menntmrh. gengur hér fram eins og læknir sem gefur lyf við einhverri meinsemd án þess að hirða um hliðarverkanir og kannski verður heilsan hreint ekkert betri að meðferð lokinni, heldur bara öðruvísi. Mér er t.d. fullkunnugt um að forsvarsmenn Laugaskóla hafa lagt fram mótaðar tillögur um breytingar á rekstri skólans og kennslutilhögun sem mundi breyta miklu um framtíð og rekstur skólans. Hæstv. menntmrh. sér hins vegar ekkert annað en sameiningu við Framhaldsskólann á Húsavík þótt fáir aðrir sjái hagkvæmni þess, heldur miklu fremur kostina við að hafa þessa skóla hvorn með sínu móti. Þarna á Laugum eru mikil húsakynni og mjög góðar aðstæður til að reka góðan heimavistarskóla, að ekki sé minnst á mikilvægi hans fyrir byggðina á staðnum. Sama er að segja um Framhaldsskólann á Nesjum í Austur-Skaftafellssýslu. Fjárln. var á ferð um þetta svæði í ágúst sl. og þótt heimamenn þar töluðu um vegaframkvæmdir og hafnarframkvæmdir líkt og alls staðar er til umræðu þá fór ekkert á milli mála hvert var áhersluatriði númer eitt, tvö og þrjú. Það var að framhaldsskólinn þeirra væri styrktur og efldur vegna þess að ekkert skipti meira máli en það að hlúa að æskunni í heimabyggð og bjóða upp á menntunarkosti þar eftir því sem unnt væri. Við hljótum því að kalla eftir eitthvað haldbærari rökum en af því bara í þessum efnum.

Það er full ástæða til þess að skyggnast nánar á bak við ýmsa fleiri punkta í þessum kafla greinargerðarinnar, svo sem í sambandi við nýskipan í ríkisrekstrinum og áherslu á skilvirkari þjónustu ríkisins sem aðallega virðist eiga að felast í því að skapa markaðsaðstæður í ríkisrekstri eins og það er orðað. Það er t.d. ætlunin að einkavæða eftirlitsmælingar og beinar þjónusturannsóknir og þá er kannski eins gott að gæta vel að því að ekki verði vegið að grunnrannsóknum sem alltaf hljóta að verða á hendi ríkisins. Ég held að ég skilji þá við þennan markmiðskafla og snúi mér að öðrum þáttum.

Það er orðið ljóst, eins og reyndar fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna fullyrtu við afgreiðslu fjárlaga ársins í ár, að bæði tekju- og gjaldahlið fjárlaga voru stórlega vanmetnar. Heildartekjurnar á yfirstandandi ári verða væntanlega um 5 milljörðum kr. meiri en áætlað var en útgjöldin nær 4 milljörðum kr. hærri. Tekjurnar eru meiri vegna aukinnar veltu í þjóðfélaginu, meiri veltu en gert var ráð fyrir. En aukning útgjalda frá áætlun fjárlaga stafar að langstærstum hluta af því að útgjöld sjúkrahúsa og sjúkratrygginga vegna lyfja, læknisþjónustu og fleira munu fara nær 1,5 milljörðum umfram fjárlög. Með öðrum orðum hefur ekki náðst sá sparnaður sem stefnt var að og var í reynd fullkomlega óraunhæfur. Þetta er nákvæmlega sama sagan og mörg undanfarin ár. Það eru sett markmið um niðurskurð og sparnað svo hundruðum milljóna skiptir en niðurstaðan er sú sama. Við munum auðvitað hvernig þessi mál gengu fyrir sig við afgreiðslu fjárlaganna í lok síðasta árs þegar menn höfðu ekki tillögur um leiðir fyrr en á, ekki bara á elleftu stundu heldur á tólftu stundu. Svona vinnubrögð eru auðvitað ótæk, en þau munu virðast eiga að halda áfram í sama dúr.

Á bls. 273 er gefið svokallað heildaryfirlit útgjalda og skýrt í örstuttu máli hver séu veigamestu einkenni gjaldahliðar frv. Þar segir m.a.: ,,Í þriðja lagi tekst að halda tilfærsluútgjöldum óbreyttum milli ára, en útgjöld til almannatrygginga á árinu 1996 verða nálægt einum milljarði kr. umfram fjárlög en á næsta ári er stefnt að því að ná þeim slaka að mestu til baka.`` Hvernig menn ætla að fara að því er mér gjörsamlega óskiljanlegt.

Á kaflanum um tryggingamál sem hefst á bls. 322 er þó ekki mikið að græða. Það er enn einu sinni rætt um lækkun lyfjakostnaðar, m.a. með gæða- og kostnaðarkynningu fyrir lækna og það á að spara á óútskýrðan hátt kostnað vegna rannsókna og röntgengreiningar. Fleira er tínt til en vantar kjöt á beinin og að fenginni reynslu hef ég ekki trú á að það sé allt saman til fullmótað. Ekki hef ég þó á móti sparnaði á þessum sviðum, síður en svo, að því tilskildu að ekki sé enn og aftur seilst í vasa neytandans sem því miður gæti svo sannanlega orðið raunin.

[16:15]

Fremst í þessum kafla um tryggingamálin er rétt að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki um 2% eins og reyndar kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns en eins og menn muna ákvað meiri hluti Alþingis að afnema tengingu bóta við launaþróun og hér sjáum við afleiðingarnar af því, afleiðingar sem margir óttuðust og bentu á á sínum tíma. Hér er gert ráð fyrir 2% hækkun bóta um leið og reiknað er með að launin hækki þó að meðaltali um 3,5%. Ég hef þegar spurt út í þetta atriði og svarið var að hækkun bóta væri miðuð við verðlagsþróun sem þýðir einfaldlega að kjör bótaþega eiga yfirleitt ekki að batna heldur standa í stað og nákvæmlega þetta óttuðust menn sem afleiðingar af fyrrnefndri aftengingu. Nú eru þessar bætur ákveðnar í fjárlögum án tillits til launaþróunar og niðurstaðan er versnandi hagur bótaþega. Ég ætla ekki að hafa neitt fleiri orð um þetta en vísa aðeins til orðaskipta hæstv. ráðherra og hv. síðasta ræðumanns hér áðan.

Ég tek líka eftir því í töflu á bls. 323 að framlag vegna fæðingarorlofs er áætlað óbreytt frá þessu ári og leiðir það þá hugann að þeirri endurskoðun sem sagt hefur verið að standi yfir á lögum um fæðingarorlof. Ég hélt m.a. að sú endurskoðun væri unnin með það fyrir augum m.a. að auka hlut karla, gera körlum kleift fremur en áður að taka fæðingarorlof og eiga þannig réttmætan hlut í umönnun ungra barna sinna. Hvernig það mætti gerast án aukins fjármagns er erfitt að skilja nema ætlunin sé að skerða hlut kvenna og það er einmitt það sem margir óttast. Af þessu tilefni óska ég eftir því að hæstv. fjmrh. upplýsi stöðu þessa máls og hvaða áhrif hann telur að það hafi á framlag ríkisins til greiðslna í fæðingarorlofi.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég er sammála því markmiði að ríkissjóð beri að reka án halla og helst með afgangi og það ætti að vera hægt þó við höfum enga olíu eins og frændur okkar í Noregi sem njóta rekstrarafgangs á fjárlögum sínum sem nemur fjórföldum fjárlögum íslenska ríkisins. En við getum ekki ,,treyst`` til lengdar á aukna veltu og tekjur af eyðslusköttum sem grunn undir jafnvægi milli tekna og útgjalda eða til þess að fá afgang til þess að standa undir greiðslu vaxta og afborgana af skuldum vegna eyðslu fyrri ára. Það er ekki nógu góður grunnur. Við verðum að styrkja stoðir tekjuöflunarkerfis ríkisins og efla það m.a. með auðlindagjaldi og hugsanlega umhverfisgjöldum sem verður þó að tengja úrbótum í umhverfismálum, aðgerðum gegn mengun og fleira í þeim efnum. Við þurfum einnig að forgangsraða betur á útgjaldahlið fjárlaga.

Menntamál, heilbrigðisþjónusta og félagsleg þjónusta á að hafa algeran forgang. Sömuleiðis vil ég nefna löggæslu og baráttu gegn ofbeldi og glæpum. Menningarmál hljóta alltaf að þurfa verulegan stuðning ríkisvalds. Umhverfismál skipta höfuðmáli fyrir framtíð lands og þjóðar, ekki síst til uppbyggingar atvinnulífs í framtíðinni. Þar er margt ógert sem ekki er hægt að vísa til einkaaðila. Hins vegar eiga atvinnuvegirnir sjálfir að standa undir þeirri þjónustu sem þeir þurfa á að halda. (Gripið fram í: Líka landbúnaðurinn?) Líka landbúnaðurinn. Við hljótum í fullri alvöru að ræða það hvort ekki beri að skilja að ríki og kirkju þó að það hefði vafalaust ekki í för með sér umsvifalausan sparnað fyrir ríkissjóð. Og það þarf að beita miklu virkara aðhaldi í yfirstjórnum ráðuneytanna en það hefur löngum gengið heldur illa. (Gripið fram í: Sameina ráðuneyti.) Sameina ráðuneyti og gera ákveðnar breytingar í stjórnskipan landsins. Það er auðvitað spurning hvort ekki þarf að taka tékkheftið af hæstv. ráðherrum sem eiga á næsta ári að fá að ráðstafa að vild 84 millj. kr., mismunandi eftir ráðuneytum. Auðvitað er því fé oft varið til gagnlegra og þarfra verkefna en við höfum ýmis dæmi um hið gagnstæða og nægir að minna á samtök nokkurra ráðherra um lausn á flóknum vanda nýlega sem varða mannleg samskipti í einni kirkjusókn.

Ég veit raunar að menn eru að reyna að taka á ýmsu því sem ég hef nefnt, m.a. að draga úr kostnaði vegna þjónustu við atvinnuvegina. Mér virðist reyndar sú viðleitni að draga úr kostnaði við hin ýmsu verkefni einkennast fyrst og fremst af nokkuð einstrengingslegri trú annars vegar á hagkvæmni sameiningar eða samreksturs stofnana sem hv. 14. þm. Reykv. styður með ráðum og dáð eftir því sem ég heyrði áðan og hins vegar trú á samkeppni eins og kemur fram í hugmyndum um útboð á rannsóknum í orkugeiranum og margt fleira mætti nefna. En um leið og reynt er að spyrna við fótum á ýmsum sviðum er það umhugsunarefni að margvíslegur kostnaður vegna erlendra samskipta vex og vex og mér virðist menn láta það yfir sig ganga nánast viðnámslaust.

Það fjölgar sífellt í starfsliði á erlendri grundu. Húsnæði er keypt og byggt fyrir tugi milljóna. Ferðalög vegna fundahalda aukast mikið ár frá ári og sífellt eykst kostnaður hér á landi vegna þessara auknu samskipta. Menn hafa ekki undan að þýða samninga og reglugerðir og kosta til þess stórfé og sífellt þarf að koma til móts við kröfur erlendis frá í hinum og þessum atriðum sem eru bundin samningum og reglugerðum. Skýrasta dæmið um slíkan kostnað vegna erlendra samskipta eru gríðarlegar upphæðir sem það kostar ríkissjóð að huga að aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Kostnaður vegna þessa er áætlaður hvorki meira né minna en 55 millj. kr. á næsta ári og við erum ekki einu sinni komin með aðild að þessu samstarfi heldur aðeins áheyrnaraðild. Sú aðild verður vafalaust staðreynd og að henni er stefnt en þá vantar inn í þessa tölu, þ.e. 55 millj. kr., sem ætlað er til þessa starfs á næsta ári, þá vantar enn þá inn í þá tölu þær breytingar sem gera þarf á Flugstöð Leifs Eiríkssonar beinlínis vegna Schengen-samstarfs og þær breytingar eru sannarlega fyrirhugaðar samanber áformin um stækkun og breytingar upp á 523 millj. kr. á þessu ár og meira síðar eða samtals um 800 millj. kr. að því er ætlað er. Sá kostnaður er auðvitað alls ekki allur vegna Schengen en þar er um verulega upphæð að ræða. Nú er ég ekkert að tala gegn þessu samstarfi þó að ég sé ekkert sannfærð um brýna nauðsyn þess að taka þátt í því. Ég bendi aðeins á þetta dæmi sem nokkuð lýsandi fyrir þau miklu útgjöld sem það kostar okkur að vera fullgildir aðilar í samfélagi þjóðanna og ég vil benda á og leggja áherslu á að í þessu efni eigum við að fara með gát og vita a.m.k. svona nokkurn veginn til hvaða kostnaðar er verið að stofna hverju sinni.