Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 16:25:57 (112)

1996-10-08 16:25:57# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[16:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vék að endurinnritunargjöldunum og ég vil upplýsa það að ekki er stefnt að því að þau verði hærri en 1.500 kr. en þar sem er talað um tekjur allt að 32 millj. kr. er líka litið til þeirrar hagræðingar sem menn vona að þessi ráðstöfun hafi í för með sér, ekki einungis að þetta verði innheimt heldur að þetta leiði til hagræðingar í skólakerfinu og markvissrar innritunar og markvissara starfs sem er vissulega þörf á á framhaldsskólastiginu eins og þeir vita sem best þekkja til þar.

Varðandi Hússtjórnarskólann á Hallormsstað vil ég láta þess getið að það er alls ekki frumleg hugmynd að sameina hann skólanum á Egilsstöðum. Sú hugmynd hefur komið fram fyrir löngu og hefur lengi verið á döfinni að velta því fyrir sér hvernig það væri best gert. Við höfum sett okkur þau markmið með fjárlagafrv. að miða við skóla sem eru með færri nemendur en 80 ef við teljum að þeir væru betur komnir sem hluti af stærri heild og þar á meðal Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað. Varðandi byggingarframkvæmdir og byggingarmál hans er ljóst að ráðist verður í að nýta sér það söluandvirði þeirrar húseignar sem var seld til þess að gera skólahúsið betra, til þess að bæta það og bæta við það. Að því verki verður unnið á næsta ári ef allt gengur eftir eins og byggingarnefnd hefur lagt upp með þannig að það kemur mér á óvart ef Egilsstaðaskóli er andvígur því að taka þetta verkefni að sér. Varðandi fjárhagsmál hans og sameiningu Eiðaskóla tel ég að frá því hafi verið gengið með viðunandi hætti. Þessi atriði vildi ég láta koma fram vegna ræðu hv. þm. og þeirra atriða sem hann nefndi í máli sínu.