Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 16:30:19 (114)

1996-10-08 16:30:19# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[16:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerðinni sem hv. þm. vitnar til stendur: ,,Ætlunin er að taka 1.500 króna gjald af nemendum sem endurtaka próf``. Það hámark er sett eins og stendur. Hins vegar þegar áætlun er gerð og menn velta fyrir sér hvað þetta kann að gefa í hagræðingu og tekjur er miðað við þann kostnað sem þarna er getið. En ekki er stefnt að hærri gjaldtöku í þessu skyni en 1.500 krónum en hitt eru síðan forsendur sem menn gefa sér þegar þeir reikna út hugsanlegar tekjur af þessu m.a. af því að áfangakerfið er dýrara en bekkjakerfið. Það eru þær forsendur sem hv. þm. var að lesa en gjaldið verður ekki hærra en 1.500 krónur.

Um stöðu hússtjórnarskólans og þessara minni skóla er það í senn faglegt mat og einnig stjórnsýslulegt mat sem stjórnar því að menn ræða um sameiningu þessara skóla. Ég hef hvergi lagt til að Laugaskóli verði sameinaður skólanum á Húsavík. Ég hef hins vegar hvatt til að skólarnir á Norðurlandi taki upp meira samstarf og hef haldið fund með skólameisturunum og mun einnig ræða frekar við þá því ég tel, og þeir eru að mínu mati sammála mér um það, að aukið samstarf skólanna bæði á Norðurlandi og einnig á Austurlandi muni styrkja stöðu framhaldsskólanna. Ég tala nú ekki um gildi þess ef það leiðir til hagræðingar og betri nýtingar á opinberum fjármunum. Það sem hv. þm. gerði einnig að umtalsefni varðandi Laugaskóla er að gildistala þess skóla er færð til samræmis við ýmsa aðra skóla úti á landsbyggðinni og unnt er að færa fyrir því rök að innan þeirra marka ætti skólinn að geta veitt þá menntun sem forsvaranleg er miðað við að hann starfar á framhaldsskólastigi.