Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 16:37:49 (118)

1996-10-08 16:37:49# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[16:37]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þau þáttaskil hafa orðið að fjárlög eru lögð fram með rúmlega 1 milljarðs tekjuafgangi eftir að gert hafði verið ráð fyrir hallarekstri um árabil. Síðast var hagnaður á ríkissjóði árið 1983 og halli síðasta áratugar er orðinn yfir 100 milljarðar kr. Þetta hefur leitt til þess að vaxtabyrðin er orðin annar stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs á eftir heilbrigðis- og tryggingamálum eins og oft hefur verið rakið í þessari umræðu. Hins vegar er þetta staðreynd sem farin er að verða það augljós, eftir umræður síðustu ára, að allir sjá að þetta getur ekki gengið til lengdar, enda heyri ég á yfirlýsingum talsmanna stjórnarandstöðunnar í umræðum um málið að samstaða er um markmið fjárlaga, að skila hallalausum fjárlögum. Ég vil hins vegar undirstrika að ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið og hlutverk Alþingis og fjárln. í umboði þingsins er að fara yfir frv., ígrunda forsendur þess og útfæra einstök atriði eins og nefndinni er ætlað að gera. Ég mun því kjósa við 1. umr. málsins að hafa nokkur almenn orð um ríkisfjármálin en ég fæ tækifæri til að ræða um einstök verkefni við 2. umr. málsins þegar fjárln. hefur lokið vinnu sinni, þ.e. að fjalla um frumvarpið fyrir 2. umr., en það starf hennar er þegar hafið eins og hefð er fyrir.

Ég gat þess að bærileg samstaða er um hallalaus fjárlög. Hins vegar heyrist oft í umræðum um þessi mál að forgangsröðunin sé ekki rétt, ríkisstjórnarflokkarnir séu með niðurskurði að brjóta niður velferðarkerfið o.s.frv. Ég hef fylgst nokkuð náið með því, á fimm ára starfsferli mínum í fjárlaganefnd, hvað viðmælendur nefndarinnar telja forgangsverkefni þ.e. það verkefni sem þeir eru að tala fyrir hverju sinni í sínum heimsóknum. Þessi afstaða er auðvitað skiljanleg. Sú starfsemi sem ríkisvaldið leggur fjárveitingar til eru yfirleitt nauðsynleg verkefni og það er skiljanlegt að ábyrgðarmenn þeirra verkefna haldi þeim fram af kappi. Hins vegar eru velferðarmál af ýmsu tagi langsamlega stærsti hlutinn af útgjöldum ríkissjóðs. Velferðarmál eru í raun forgangsverkefni í ríkisfjármálum og svo hefur verið um margra ára bil. Heilbrigðis- og tryggingamál, félagsmál og menntamál kalla á útgjöld upp á 76,1 milljarð kr. af 125,4 milljarða kr. útgjöldum þessa fjárlagafrv. Vaxtakostnaðurinn til viðbótar nemur 13,5 milljörðum kr. Það er alveg ljóst að markmiðinu um hallalaus fjárlög verður ekki náð nema með aðhaldi í þessum þáttum en það aðhald mun, ef vel tekst til, leiða til að undirstöður velferðarkerfisins verða treystar með minnkandi skuldasöfnun og minnkandi vaxtabyrði. Hið vandasama í þessum efnum er að veikja ekki það öryggisnet sem við viljum að þjóðfélagið búi þeim sem minnst mega sín.

Með fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að halda aftur af útgjaldaaukningunni en frv. er fráleitt niðurskurðarfrumvarp í þessum efnum. Hv. 12. þm. Reykn. kom áðan inn á þessa forgangsröð og hv. þm. nefndi hvað hann vildi hafa í forgangi. Það voru menntamál, félagsmál, heilbrigðismál, menningarmál og umhverfismál ef ég hef náð þessu öllu niður, en síðan að þetta yrði á kostnað þjónustu við atvinnuvegina. Þetta er málefnaleg umræða eins og þingmannsins er von og vísa. Ég vil taka fram í þessu sambandi að þetta gengur ekki upp. Verulega hefur verið dregið úr þjónustu við atvinnuvegina á síðustu árum m.a. með útgjöldum til landbúnaðarins. Það er sá málaflokkur sem hefur lækkað mest á undanförnum árum. Verið er að vinna í anda þeirrar stefnumörkunar að atvinnuvegirnir sjái sem mest um sig en hins vegar hefur ekki verið hjá því komist að verja fé m.a. til að mynda nýja varnarlínu í landbúnaði.

[16:45]

Oft heyrist sú skoðun að einhver ákveðin starfsemi ríkissjóðs sé það mikilvæg að hún eigi að hafa algjöran forgang og nægilegar fjárveitingar, eins og það er orðað. Ég get ekki tekið undir þá skoðun að einhver þjónusta eða starfsemi hins opinbera sé þess eðlis að hún þurfi ekki neitt aðhald eða skoðun á því hvort hún sé veitt með hagkvæmum hætti eða ekki. Ég hygg einmitt að endurmat á starfsemi hins opinbera geti oft og tíðum orðið til að efla viðkomandi starfsemi og tryggja hana í sessi.

Það er nú einu sinni svo á tímum hraðfara breytinga eins og nú að starfsaðferðir og skipulag sem einu sinni þótti gott og gilt úreldist. Þannig er það með ríkisstofnanir alveg eins og þá starfsemi sem rekin er af einkaaðilum. Endurmat getur falist í því að skilgreina markmið með þjónustunni upp á nýtt og leggja mat á hvernig skal ná þeim markmiðum með sem mestri hagkvæmni.

Auðvitað er sú starfsemi sem kostuð er af ríkissjóði, ekki síst í heilbrigðis- og tryggingamálum og málefnum fatlaðra, einstaklega viðkvæm fyrir umræðum um breytingar og endurmat á starfseminni. Það breytir ekki þörfinni í þessu efni. Það er auðvitað langt í frá að allar skipulagsbreytingar á þessum vettvangi séu gerðar af illum hug til þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta.

Starf fjárln. hefur á undanförnum árum beinst mjög að stórum málaflokkum á borð við heilbrigðis- og menntamál og það verður engin breyting á því núna. Svo mun vissulega verða nú. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir skipulagsbreytingum í framhaldsskólakerfinu. Í fjárln. munum við auðvitað fara vel yfir faglegar forsendur þessara fyrirætlana með fulltrúum menntmrn. Því hefur verið haldið fram að sameining yfirstjórnar og aukin samvinna þessara skólastofnana leiði til öflugri skóla. Við munum að sjálfsögðu fara vel yfir þau rök sem menntmrn. færir fram með tillögum sínum um framhaldsskólana því þeir hafa verið hér sérstaklega til umræðu og málefni einstakra skóla.

Heilbrigðismálin og sjúkrahúsin hafa tekið mikinn tíma okkar fjárlaganefndarmanna. Ég hef lesið það í blöðum frá ábyrgum aðilum í heilbrigðiskerfinu að það sé svo mikið af landsbyggðarmönnum í fjárln. að þeir leggi það sérstaklega fyrir sig að skera niður sjúkrahússtarfsemi í höfuðborginni. Það er auðvitað víðs fjarri að svo sé. Auðvitað hefði ég ekki tekið þetta alvarlega nema vegna þess að þetta kom frá ábyrgum aðilum í læknastétt sem héldu þessu fram í blaðagreinum. Það hefur verið svo undanfarin ár að fjárframlög til sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist meira en fjárframlög til sjúkrahúsa úti á landi. Hins vegar á ekki að vera í slíkum samanburði. Það eru vissulega skýringar á því að ýmis hátækni sem er á þessu svæði í sjúkrahúsum er dýr. Það er stöðugt viðfangsefni og afar erfitt viðfangsefni að halda utan um útgjaldaaukninguna í þeirri miklu starfsemi sem er á þessu sviði hér. En auðvitað leggur fjárln. sem heild sig í það verkefni af bestu samvisku að fara yfir þessi mál og gera sér grein fyrir forsendum eins og hægt er.

Ríkisvaldið er stór atvinnurekandi á höfuðborgarsvæðinu og það er einnig stór atvinnurekandi víða um landsbyggðina. Það verður þó breyting á þessu að nokkru með mikilli tilfærslu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga sem tekur gildi á næsta ári að fullu og tók gildi um mitt ár nú með flutningi grunnskólans. Þar gerist fjöldi ríkisstarfsmanna starfsmenn sveitarfélaga. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls. Auk þess verður mjög fróðlegt að fylgjast með afdrifum verkefna sem hafa verið falin tilraunasveitarfélögum, m.a. á Höfn í Hornafirði og á Akureyri, svo dæmi séu nefnd. Framvindan í þessum málum getur vísað leiðina til frekari tilfærslu verkefna.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé jákvæð þróun að flytja fleiri þætti opinberrar þjónustu til sveitarfélaganna. En til þess verða sveitarfélögin vissulega að eflast og stækka enda er nokkur þróun í þeim efnum nú og umræða um sameiningu sveitarfélaga er mjög mikil á landsbyggðinni um þessar mundir. Ég er þó þeirrar skoðunar að það eigi ekki að rasa um ráð fram í þessum verkefnaflutningi. Þetta er þróun sem komin er í ákveðin farveg en henni á þó að fylgja eftir. Með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga á sér stað valddreifing í þjóðfélaginu sem ég tel vera af hinu góða, þ.e. að forræðið í þessum málum færist nær fólkinu.

Ég vil aðeins víkja að tekjuhliðinni áður en lengra er haldið. Því er ekki að neita að tekjuaukning vegna aukinna umsvifa í þjóðfélaginu og þeirrar staðreyndar að hjól atvinnulífsins eru farin að snúast hraðar, ef svo má segja, léttir róðurinn við að ná markmiðum fjárlaga. Það er spáð hagvexti og það er spáð auknum umsvifum á næsta ári. En það veldur vissulega áhyggjum hve þáttur einkaneyslu er stór í aukningunni. Það hefur verið reynt að láta að því liggja að við stjórnarliðar höldum því fram að þessi aukning á einkaneyslu sé láglaunafólki að kenna. Því fer auðvitað víðs fjarri. Það hefur enginn haldið því fram að láglaunafólk í þjóðfélaginu beri ábyrgð á þessari aukningu. Mér dettur ekki í hug að halda því fram. Hins vegar er það svo að ekki eru allir í þjóðfélaginu lágt launaðir. Það er staðreynd að þeir sem eru hærra launaðir lifa stundum um efni fram. Aukning í neyslu er mjög fljót að taka við sér. Mér er t.d. sagt hjá hinni nýju Ráðgjafarþjónustu heimilanna að ekki sé ætíð samband á milli lágra launa og greiðsluerfiðleika fólks. Fólk með hærri laun geti ekki síður lent í greiðsluerfiðleikum. Ég er ekki að gera lítið úr erfiðleikum láglaunafólks, langt því frá. Hins vegar er alrangt að við stjórnarliðar höfum haldið því fram að láglaunafólk beri ábyrgð á aukinni einkaneyslu í þjóðfélaginu og að það lifi um efni fram.

Auðvitað má spyrja sem svo hvort við þessar aðstæður sé ekki lag til að auka enn þá við á tekjuhliðinni og auka skatta. Svar mitt við því er nei. Ég held að jaðarskattar í þjóðfélaginu séu orðnir það háir að þeir séu farnir að íþyngja mörgum, t.d. þeim sem eru að byrja búskap eða koma sér upp þaki yfir höfuðið og leggja á sig meiri vinnu þess vegna. Það geti beinlínis latt fólk við tekjuöflun. Það hefur verið hafin vinna á vegum ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna til að kanna þessi mál og skapa svigrúm til lækkunar í þessum efnum eða snúa til baka á þessu sviði. Ég tel það jákvætt.

Ég tel ekki fært að auka tekjurnar til að auka útgjöld, ekki við þær aðstæður sem nú eru, en ég tel að nú eigi að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Ef það tekst ekki nú við þessar aðstæður er algerlega borin von að það takist. Hins vegar er einn þáttur á tekjuhliðinni sem mér er hugleikinn og það er að ná inn þeim sköttum sem ríkið á rétt á. Það er ljóst að að herða þarf róðurinn í þessum efnum.

Það er nokkuð um tvöfalt siðferði í þessum málum. Menn gagnrýna harðlega og oft með réttu aðhald og niðurskurð til ýmissa mála ríkissjóðs en mér finnst oft vera dálítil linka í umfjöllun fjölmiðla, t.d. um hvernig skattar skila sér þegar skattskráin kemur fram. Umfjöllunin er nánast um það hvað fólk hefur í tekjur frekar en hvernig bæði fólk og fyrirtæki skila sköttum sínum.

Ég vil sérstaklega nefna virðisaukaskattinn í þessu efni. Þó fjáraukalagafrv. komi ekki til umræðu hér fyrr en síðar var það lagt fram í dag. Þar kemur enn fram staðfesting á því að tekjur af virðisaukaskatti hækka minna en almenn velta í þjóðfélaginu. Gerð er grein fyrir þessu í fjáraukalagafrv. en áætlaðar tekjur 1996 hækka um 14,3% en tekjur af virðisaukaskatti hækka aðeins um 0,4% eða um 180 millj. kr. Vantar þarna stórlega upp á að þetta fylgi veltuaukningunni í þjóðfélaginu. Þetta er umhugsunarefni og það þarf að fara vel yfir þær ástæður sem liggja þarna að baki.

Hlutverk ríkisvaldsins er eitt mesta ágreiningsefni í stjórnmálaumræðu samtíðarinnar og hefur svo ávallt verið. Stefna flokks míns hefur ávallt verið sú að ríkið skuli tryggja grundvallarstarfsemi í samfélaginu en það eigi ekki að fást við starfsemi í samkeppni við einkaaðila. Það sé einnig réttlætanlegt að ríkið semji við einkaaðila um að sinna verkefnum með þjónustusamningum sem og að reka starfsemi eigin stofnana með aðferðum samningsstjórnunar svo dæmi sé tekið. Slíkar ráðstafanir verða þó að byggja á rækilegri úttekt á þeirri starfsemi sem á sér stað, umfangi hennar og markmiðum með henni. Þjónustusamningar eða útboðsstarfsemi sem byggja ekki á skýrum grunni að þessu leyti eru verri en engir. Ríkið vill oft verða í almennri umræðu ópersónulegt afl sem fáir hafa samúð með. Því stjórna þeir aðilar sem í almennu tali eru nefndir ,,þeir``. Að ,,þeir`` hafi gert þetta og ,,þeir`` hafi gert hitt. Ríkissjóður er þó hvorki stærri né minni en skattgreiðendur gera hann, hann er það sem skattgreiðendur láta af mörkum.

[17:00]

Verkefnaflutningar til sveitarfélaga, þjónustusamningar, samningsstjórnun og að fela einkaaðilum að annast starfsemi ríkisins sem er samkeppnisstarfsemi, eru tæki til þess að draga markalínur um einstaka starfsþætti ríkisvaldsins. Skýrar markalínur og markmið fyrir opinbera starfsemi eru einnig mikið hagsmunamál fyrir launafólk sem hjá ríkinu vinnur sem og fyrir fjárveitingavaldið. Með því að línur eru skýrar vita ríkisstarfsmenn fremur hvar þeir standa. Fjárlög hverju sinni eru áætlun um útgjöld ársins. Það er nauðsynlegt að þau séu gagnsæ og skýr og sýni umfang opinberrar starfsemi og að aukaútgjöld séu aðeins vegna atvika eða útgjaldatilefna sem voru ófyrirséð þegar fjárlög eru samþykkt. Það hefur verið þróun til batnaðar í þessum efnum en það má auðvitað betur gera.

Hér hefur verið til meðferðar og var í fyrra frv. um fjárreiður ríkissjóðs sem er ætlað að bæta skipulag þessarar starfsemi og marka hreinni línur milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í þessum efnum. Það er ætlunin að leggja þetta frv. á ný fyrir nú í vetur eða nú á næstunni og vonandi verður það afgreitt á þessu þingi. Það er mikil nauðsyn á því að samskipti ríkisstjórnar og Alþingis séu í föstum og ákveðnum skorðum og ákveðnar reglur gildi. Það er t.d. nauðsyn á því að fjárln. séu kynnt þau áform sem eru um aukaútgjöld, að henni séu kynnt þau tilefni sem upp koma á vegum framkvæmdarvaldsins þannig að hún standi ekki frammi fyrir gerðum hlut, að hún fái upplýsingar um þær forsendur sem að baki liggja ákvörðun ríkisstjórnar. Þetta er auðvitað hægt að ræða nánar þegar þetta frv. kemur fyrir og eins varðandi umræður um fjáraukalög sem verða hér innan tíðar. Í fjárlagafrv. eru hin svokölluðu heimildarákvæði. Ætlað er 200 millj. kr. til að standa straum af þeim, 6. greininni, en ég lýsi þeirri skoðun minni að það er æskilegt að spara frekar þessi opnu ákvæði heldur en að fjölga þeim.

Ég vil nefna að það er nauðsyn á því að kanna ýmsa þætti opinberrar starfsemi til þess að fyrir ýmssi grundvallarstarfsemi sé séð og það sé frekar reynt að spara í yfirstjórninni og einfalda hana ef það mætti verða til þess að halda aftur af útgjöldum og efla þá ýmsa grundvallarþjónustu sem ekki er hægt að vera án. Á þessum forsendum hefur nefnd á vegum stjórnarflokkanna m.a. verið að fjalla um sýslumannsembættin í landinu með tilliti til þess hvort breyttar aðstæður í þjóðfélaginu gera það að verkum að það megi fækka þeim embættum. En það er að mínu dómi skilyrði að þjónustan sé veitt, þessi grundvallarþjónusta sem embættin veita á þeim stöðum þar sem þau eru og að ávinningurinn af sparnaði sem af þessu hlýst sé notaður til þess t.d. að efla þá grundvallarstarfsemi sem löggæslan í landinu er. Þessi nefnd hefur ekki lokið störfum enn þá og það er ekki gert ráð fyrir sparnaði eða breytingum vegna þeirra starfa í þessu fjárlagafrv. en ég vildi eigi að síður nefna þetta því þetta er dæmi um verkefni sem þarf að vinna að og athuganir sem þurfa að vera í gangi um sparnað í yfirstjórn í opinberum rekstri.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja það eitt að mesta hættan í efnahagsmálunum nú er fólgin í því að verðbólgan fari af stað á ný. Það yrði mjög slæmt, ef svo má að orði komast og er þá ekki sterkt að orði kveðið, fyrir efnahag fólksins í landinu ef að svo skyldi fara. Ríkisvaldið verður að leggja sitt af mörkum til þess að svo verði ekki og það tæki sem ríkisvaldið hefur í höndunum til þess er að sýna aðhald í opinberum útgjöldum. Ég tel að í þessu fjárlagafrv. sé það reynt án þess að neinar kollsteypur séu teknar og markmið þess sé að koma í veg fyrir að verðbólgan í landinu rjúki upp á ný. Það yrði slæmt fyrir láglaunafólkið í landinu. Það yrði slæmt fyrir þá sem skulda og þurfa að greiða af sínum skuldum og það yrði ekki síður slæmt fyrir fyrirtækin í landinu sem þurfa að standa í alþjóðlegri samkeppni, m.a. við nágrannalöndin sem hafa verðbólgustig um og innan við 2%. Efnahagskerfi okkar er orðið hluti af efnahagskerfi vestrænna ríkja og aðhald í ríkisfjármálum er eitt af þeim tækjum sem við þurfum og getum beitt til þess að vera samkeppnisfærir á þeim vettvangi. Ég tel að við höfum tækifæri til þess nú að ná árangri í þessum efnum og mun því ljúka máli mínu við 1. umr. málsins.