Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 17:16:39 (122)

1996-10-08 17:16:39# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:16]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að koma inn á þau mál sem mér gafst ekki tími til að svara í fyrra svari mínu við andsvari hv. þm. Það er náttúrlega víðs fjarri að verið sé að rífa niður menntakerfið í landinu. Það er verið að auka framlög til grunnskólans með heimanmundi til sveitarfélaganna. Það er verið að hækka framlög til háskólanna og það er verið að leita leiða til skipulagsbreytinga í framhaldsskólakerfinu þó að þar eigi að sýna aðhald. Það er mikil öfugmæli að verið sé að rífa niður menntakerfið í landinu með þessu.

Hvað varðar fíkniefnamálin, þau alvarlegu mál, þá á hv. þm. auðvitað að muna, því að þingmaðurinn er mikill áhugamaður um þennan málaflokk sem eðlilegt er, að á síðasta ári voru lagðir fjármunir í svokallaðan forvarnasjóð sem stóreykur fjármagn til þessa málaflokks og gert er ráð fyrir að svo verði einnig á þessu ári.

Hvað varðar Atvinnuleysistryggingasjóð þá er atvinnuleysi sem betur fer að minnka og það á að vera svigrúm (Gripið fram í.) til þess að sjóðurinn geti tekið á sig verkefni án þess að þrengt sé að þeim atvinnulausu. Það hefur ekki verið ætlun stjórnarflokkanna að gera það. Hins vegar hafa þeir stýrt málum þannig að atvinnuleysi er að minnka í þjóðfélaginu og það fer hratt minnkandi. Eftirspurn eftir starfskröftum er mikil nú. Þannig að allur þessi málatilbúnaður er á ótraustum grunni byggður svo ekki sé meira sagt.