Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 19:22:29 (132)

1996-10-08 19:22:29# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:22]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum nokkuð sammála um þessa hluti, ég og hv. þm. Ég hefði átt að bæta því við vegna þess að hv. þm. minntist á það í máli sínu að flýtifyrning hefði haft þýðingu í þessum efnum. Það er rétt en það var tímabundin aðgerð og henni er lokið. Nú er það ekki flýtifyrning sem hvetur fyrirtækin til fjárfestinga. Þetta var aðgerð sem á ættir að rekja til kjarasamninga sem gerðir voru í ágætri samstjórnartíð okkar hv. 9. þm. Reykv. og þeirri aðgerð er lokið þannig að það skýrir þetta enn frekar.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um jaðaráhrifin en ég bendi á að eftir að fjármagnstekjuskatturinn hefur verið lagður á skapast svigrúm til þess að gera breytingar í tekjuskattsmálum, þar á meðal vegna þess t.d. að skattafsláttur vegna hlutafjárkaupa er ekki jafnbrýnn og áður þegar skattur af arði hefur verið lækkaður niður í 10% og ég tek það fram að ríkisstjórnin hefur ekki endanlega tekið af skarið um það hvernig hún vill dreifa þeim tekjum sem koma bæði af því og eins af fjármagnstekjuskattinum en mér finnst vera eðlilegt að nefna þar til sögunnar bæði tekjuskattinn og eignarskattinn. Þá mætti í leiðinni hugsa sér breikkun eignarskattsstofnins og lækkun á fyrningum. Þetta þarf auðvitað að ræða og ég held að það sé ekkert óeðlilegt og óvanalegt við það að þær umræður eigi sér stað um svipað leyti og verið er að gera kjarasamninga í landinu og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.