Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 20:58:18 (140)

1996-10-08 20:58:18# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[20:58]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska eftir að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umræðuna. Ef forsetinn mundi vilja gera ráðstafanir til þess yrði ég mjög þakklátur. Herra forseti, ég skil það svo að fjmrh. sé á leiðinni.

(Forseti (RA): Já. Það ber að skilja svo að kallað hefur verið eftir honum.)

Herra forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn og vissi ég að hann væri ekki langt undan þar sem hans fyrsta og stærsta mál er til umræðu. Ég vil í upphafi máls míns geta nokkurra atriða í tengslum við fjárlagafrv. sem ég tel vera af hinu góða. Ég tel það sem sagt er um lækkun erlendra skulda, bæði í fjárlagafrv. og það sem hefur komið fram, vera mjög ánægjulegan hlut. Ég hef lengi litið á lækkun erlendra skulda sem eitt mikilvægasta efnahagslegt markmið okkar og fjárlagafrv. hjálpar til við það markmið eins og reyndar fjölmargir aðrir þættir í þjóðlífinu. Ég hef sömuleiðis ástæðu til að ætla að fjárlagafrv. byggi á góðri áætlanagerð, betri áætlanagerð en oft áður. Það gera að vísu þær aðstæður í þjóðfélaginu því við búum við mun minni verðbólgu en á árum áður. Mér sýnist á ýmsu varðandi fjárlagafrv. að vinnubrögðin við gerð þess hafi farið batnandi undanfarin ár og eftirlit með ráðuneytum og stofnunum sé að mörgu leyti vel á veg komið miðað við það sem fyrr þekktist. Fjármálaráðuneytið er miðað við ráðuneyti almennt vel mannað að mati flestra sem hafa kynnst stjórnsýslunni.

[21:00]

Ég tel sömuleiðis jákvætt að þeirri stefnu er haldið áfram í þessu fjárlagafrv. að skuldfæra lífeyrisskuldbindingar B-hluta stofnana. Þetta er nokkuð sem var byrjað á 1993 og var rétt stefna. Henni er hér haldið áfram og ég teldi mjög æskilegt ef fjmrh. gæti upplýst í umræðunni meira um fyrirhugaðar breytingar á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna en þess máls er getið í málaskrá ríkisstjórnarinnar, ef hann gæti dregið nú við 1. umr. fjárlagafrv. einhverjar útlínur í því máli því að þetta er eitt það mikilvægasta sem menn koma til með að glíma við hér á haustdögum. Er hér á ferðinni mikilvæg kerfisbreyting eða er um að ræða lagfæringu á gömlu slitnu kerfi? Ég veit það ekki en ég teldi brýnt að fjmrh. upplýsti um það efni.

Annað atriði sem ég vil telja þessu frv. til tekna tengist atvinnuástandi. Við skulum horfast í augu við það að atvinnuástand hér er að mörgu leyti betra en er í nágrannalöndunum og við höfum ekki búið við þau vandræði sem við þekkjum frá næstu löndum. Þó svo að atvinnuleysi sé vitaskuld ekki viðunandi þá eigum við samt að horfast í augu við að okkar vandi varðandi þann þátt er minni en flestra annarra. Hins vegar blasir við okkur viðbótarvandi sem við höfum ekki getað tekið á enn þá sem er svokallað langtímaatvinnuleysi og vantar nú úrræði í þeim efnum eins og margt annað í þetta fjárlagafrv. En það gefst betra tækifæri til að ræða það mál.

Þá tel ég tvö önnur atriði vera jákvæð við frv. og þá umgjörð sem það mótar. Það eru í fyrsta lagi stóriðjumál, þær framkvæmdir og þau umsvif sem tengjast stóriðjumálum, bæði virkjanamál og nýir verksmiðjusamningar. Vitaskuld eigum við að líta á þetta með jákvæðum huga og fagna því að þarna séu umsvif í þjóðarbúinu sem koma okkur öllum til tekna. Síðasta atriðið sem ég vil nefna varðandi fjárlagafrv. og ég tel jákvætt er að það er bæði stefna frv. og hæstv. fjmrh. ef ég hef skilið hann rétt, að ekki standi til að næstu kjarasamningar verði gerðir á kostnað ríkisins. Ég vildi mjög gjarnan að fjmrh. gæti farið um það nokkrum orðum hvort að þetta sé ekki réttur skilningur hjá mér á fjárlagafrv. sem hann leggur hér fram því að menn hafa margoft upplifað það við kjarasamningsgerð að á lokastigi er snúið upp á handlegginn á fjmrh., oftast af hans meðráðherrum --- forsrh. hefur nú verið hvað drýgstur við þá iðju --- og síðan hefur þetta kallað á nokkurra milljarða útgjöld úr ríkissjóði til að loka kjarasamningum eins og heitir. En ég skil það svo að það sé ekki fyrirhugað að gera það í þetta sinn. Ég fagna því ef menn standa við þá stefnumörkun en ég vildi mjög gjarnan heyra hvort að þessi skilningur minn sé réttur á þessu efni.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt við svona umræðu, og þess vegna byrja ég mína ræðu á því, að telja upp nokkra þá þætti í fjárlagafrv. sem tengjast því sem við stjórnarandstæðingar eigum að líta með jákvæðum huga á. Við eigum kannski ekki alltaf að draga fram það neikvæða, í sjálfu sér er af nógu að taka við við þetta fjárlagafrv. Ég vil benda í fyrsta lagi á það þegar verið er að tala um opinber umsvif að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórarflokkarnir tala eins og Ísland sé að sökkva í opinber umsvif. Þetta er fráleitt. Ef opinber umsvif eru borin saman við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Skattbyrði hérlendis er um 31% af landsframleiðslu en meðaltalið í OECD er 39% þannig að opinber umsvif hér eru mun minni sem sést líka á því að útgjöld hins opinbera hér eru talin vera um 40% af landsframleiðslu en eru um 60% á Norðurlöndunum. Vitaskuld er ekki hægt að alhæfa út frá þessum tölum en þær segja okkur þó það að opinber umsýsla hér á landi er miklum mun minni en í nágrannaríkjunum og menn eiga þá líka að tala út frá aðstæðum hér á landi en ekki út frá stöðunni í nágrannalöndunum sem eiga mjög mörg við önnur verri vandamál að glíma. Þess má geta sem kemur skýrt fram í þessu frv., og þar er engin lausn á ferðinni, að búist er við að 15 milljarða halli verði á viðskiptajöfnuði á næsta ári. Það eru engin úrræði í fjárlagafrv. um hvernig eigi að bregðast við þessu. Þetta er líklega alvarlegasta efnahagsvandamál sem við eigum við að etja nú um þessar stundir vegna þess að þetta eykur ekki einungis skuldir okkar erlendis og hefur alvarlegar efnahagslegar afleiðingar hér á fjármálamarkaði heldur er þetta mjög hættulegt í þeirri gengisstefnu sem menn hafa almennt verið sammála um að reyna að viðhafa hin síðari ár, þ.e. að verjast gengisbreytingum eða gengisfalli krónunnar til að mæta kostnaðarhækkunum innan lands eða halla á viðskiptum við útlönd. Ég hef verulegar áhyggjur af þessum þætti efnahagsmála og hef ekki komið auga á nein úrræði hjá hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstjórn til að bregðast við þessu máli. Það er sömuleiðis ámælisvert að mínu mati þegar fjmrh. og aðrir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar einblína á jöfnuð í ríkisfjármálum eins og það sé trúaratriði. Þetta er orðið trúaratriði hjá þeim. Þetta er þráhyggja að mínu mati vegna þess að þó svo að ríkisfjármálin skipti miklu máli efnahagslega þá skiptir miklum mun meira máli í hvað skatttekjunum er varið og hvort verið sé að verja því skynsamlega sem tekið er inn á vegum hins opinbera en það eru um 125 milljarðar. Það skiptir miklu meira máli en hvort einn milljarður sé í afgang eða tvo milljarða vanti. Efnahagslega skiptir það miklu meira máli. Hæstv. fjmrh. hefur gert jöfnuðinn og þennan eina milljarð sem hann leggur fjárlögin upp með í tekjuafgang, og ég ætla ekkert að gera lítið úr, að aðalatriði í efnahagsstjórninni. Þetta er rangt. Þetta er ekki rétt. Það er ekki rétt með farið að jöfnuður í ríkisfjármálum skipti svona miklu máli efnahagslega vegna þess að útgjaldaliðirnir hafa miklu meiri áhrif á hagstjórnina en hvort menn séu akkúrat á núlli í ríkisbókhaldinu eða ekki.

Svo ég rifji það aðeins upp, herra forseti, þá eru það ekkert mörg tæki sem stjórnvöld hafa til að hafa áhrif á efnahagsstjórn til skamms tíma. Á sviði peningamála sem Seðlabanki hefur nú mest umsjón með eru möguleikar á að hafa áhrif á vexti eða gengi sem eru sín hliðin hvor á sömu myntinni. Við sáum einmitt aðgerðir í því efni hjá Seðlabankanum nú um daginn, alveg réttmætar aðgerðir að mínu mati sem var gripið til við vissar aðstæður. Hitt tækið sem við höfum eru ríkisfjármálin og það er það frv. sem við erum að ræða um hér, þ.e. hvort útgjöld og tekjur standist á hjá ríkinu eða hvort það sé tekjuafgangur eða mikill halli á útgjöldum ríkisins. Halli á útgjöldum ríkisins er vandamál sem flest nágrannalönd okkar hafa átt við að etja og hefur verið viðvarandi vandamál hér á landi. Hins vegar vil ég benda á í sambandi við ríkisfjármálin að það eru tvær hliðar á því máli. Annars vegar er sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið, þ.e. að lækka útgjöldin, að einblína á útgjöldin. En það er önnur hlið á rekstrarreikningi ríkisins og það eru tekjurnar. Þar hafa menn ekki gefið gaum að uppstokkun í skattkerfinu og í tekjuöflun ríkisins og er þar hægt að benda á marga þætti varðandi skattamálin sem ég ætla að koma að síðar. En ríkisstjórnin hefur ekki orðað neitt um að gera endurskoðun á tekjum ríkisins, jafnvel að auka tekjur ríkisins. Það er hægt að nefna ýmsa þætti sem þar væri hægt að færa til betri vegar vegna þess að jöfnuður í ríkisrekstri getur alveg eins orðið með því að auka tekjur eins og með því að lækka útgjöld og ekki hvað síst hjá þeim þjóðum sem hafa mjög lítil opinber umsvif eins og á við um Ísland. Menn verða að skoða ríkisfjármálin í alþjóðlegu samhengi en ekki út frá þessu sama þrönga sjónarhorni og ríkisstjórnin.

Ég hef áhyggjur af því að hin gamaldags og miðstýrða starfsmannastefna og umgjörð um starfsmannamál ríkisins sem var afgreidd á síðasta þingi í óþökk ekki bara stjórnarandstöðunnar heldur allra stéttarfélaganna á vinnumarkaðinum, að þessi starfsmannastefna eða nýi rammi um starfsmenn ríkisins eigi eftir að koma ríkisvaldinu í koll á næstu árum. Þetta var vond löggjöf eins og við bentum á sem þar var afgreidd og ég held að fjmrh. sé nú kannski að komast að því smátt og smátt að það hefði verið betur hlustað á eitthvað af þeim varnaðarorðum sem við höfðum um þetta efni.

Þetta frv. er eins og fyrri frv. hæstv. fjmrh. Það eru engar kerfisbreytingar í stóru ráðuneytunum, engar. Það er alveg augljóst þegar þeirri stefnu er ýtt á flot að skera niður útgjöld, þá staðnæmast menn vitaskuld við tvö stærstu ráðuneytin, það er að segja heilbr.- og trmrn. og menntmrn. Það eru engar kerfisbreytingar á ferðinni í þessum ráðuneytum. Það er engin forgangsröðun í umfjöllun um þessi mál í fjárlagafrv. Þar ræður ríkjum hugsunarlaus eða hugsunarlítill sparnaður. Það er farið í útgjaldaliði síðasta árs og skoðað hvort ekki er hægt að skera niður um 5% eða nokkur prósent. Það er ekki settur upp sá forgangslisti sem vitaskuld er nauðsynlegur ef menn ætla að mæta ríkisfjármálum á þennan hátt, til að mynda að ákveða hvaða þjónustu á ekki að veita og hvaða þjónustu á að styrkja af hálfu ríkisins. Þessi ríkisstjórn gengur út frá því að það eigi að veita sömu þjónustu og að reyna að gera það á ódýrari hátt. Það er í sjálfu sér ekki slæmt markmið ef það væri ekki búið að reyna það hér í mjög mörg ár, að viðhalda sömu þjónustu en á ódýrari hátt. Ég fullyrði það, herra forseti, að það er búið að hagræða til að mynda innan heilbrigðiskerfisins og innan menntakerfisins þannig að ekki verður betur gert. Og þegar ég segi betur gert þá er vitaskuld hægt að finna einstaka þætti, svo er alltaf. En aðalmálið er að við erum farin að spara á þessum sviðum meira til skamms tíma sem kemur niður á okkur ef við lítum aðeins lengra fram á veginn. Það er ámælisvert, herra forseti, að ekki skuli þá vera tekist á við kerfisbreytingar í þessum liðum og forgagnsraðað öðruvísi.

Heilbrigðismálin hafa mjög verið til umræðu. Það hefur verið bent á það bæði í umræðunni í dag og í umræðunni í fyrra að þetta fjárlagafrv. eins og reyndar það síðasta, er gert þannig úr garði að til þurfa að koma aukafjárveitingar til heilbrigðismála á næsta ári. Það liggur nokkuð í augum uppi. Ég fullyrði að heilbrigðiskerfi okkar er gott og það er ódýrt og það er verið að ná sambærilegum árangri við það sem gerist annars staðar hvað varðar heilsugæslu og öryggi sjúklinga. En nú getum við spurt okkur: Erum við að bruðla í þessu kerfi? Hvernig er alþjóðlegi samanburðurinn, hæstv. ráðherra? Það er þannig að við erum að eyða til heilbrigðimála rétt rúmum 8% af landsframleiðslunni. Af 24 OECD-ríkjum erum við í 13. sæti. Þannig að við erum ekkert að eyða og eyða og eyða í heilbrigðiskerfinu eins og vitleysingar. Við erum ekkert að því. Sama er í menntamálunum. Útgjöld til menntamála eru u.þ.b. 5% af landsframleiðslu og þar erum við í 12. sæti af 17 OECD-ríkjum. Þessar tölur koma beint út nýrri tölfræðibók menntmrn. sem var dreift hér fyrir nokkrum dögum. Það er greinilegt að þarna erum við heldur ekkert að eyða og spenna eins og vitleysingjar miðað við aðrar þjóðir því það er réttur mælikvarði að taka landsframleiðsluna, verðmætasköpunina og skoða opinber útgjöld í hlutfalli af henni. Þetta sýnir okkur að það eru engin efnahagsleg rök fyrir þráhyggju ríkisstjórnarinnar um að skera og skera og ráðast á ríkisreksturinn vegna þess að okkar umsvif og útgjöld eru mun minni en flestra annarra þjóða.

[21:15]

Þessi setning, þar sem segir: ,,Fjárfesting í menntun borgar sig þegar til lengri tíma er litið`` eru orðin tóm. Menntmrh. hefur viðhaft þessi orð um nokkra hríð. Þau endurspeglast hins vegar ekki í fjárlagfrv. því vitaskuld kemur menntastefna stjórnvalda fyrst og fremst fram í fjárlagafrv. Hún kemur ekki fram á einhverjum glansþingum sem haldin eru í Háskólabíói eða hvar sem þau eru haldin. Hún kemur fram í fjárlögum. Þar birtist menntastefna ríkisstjórnarinnar og það er alveg ljóst hver hún er. Þar er áframhaldandi stöðnun á ferðinni. Ekkert er gert með þá sókn sem menn töluðu um, reyndar allir flokkar, fyrir síðustu kosningar. Mér finnst þetta mjög miður. Stundum er talið að hæstv. núv. menntmrh. sé líklega sá ráðherra ríkisstjórnarinnar sem er mest ofmetinn. Ég hef haldið það um nokkra hríð því hann talar þannig um menntamál að menn geta verið honum býsna sammála en þegar á reynir hefur hann ekkert gert í málaflokknum frá því hann tók við störfum, ekki nokkurn skapaðan hlut. Því menntastefnan endurspeglast bara í einu og það er sóknin á fjárlögum í þennan málaflokk. Sú sókn hefur ekki verið fyrir hendi, því miður.

Við getum sömuleiðis sagt, þegar við tölum um fjárlagafrv., að ekki sé tekið á neinum kerfisbreytingum. Það er ekki breyttur stafkrókur í landbúnaðarmálunum. Það er enn þá verið að setja um sex milljarða í slakt og ónýtt landbúnaðarkerfi. Þetta eru ekki bara fullyrðingar stjórnarandstæðings um landbúnaðarmál, ég gæti nú talað lengi um þau, heldur get ég bent á tvær staðreyndir í málinu. Matarverð hér á landi er með því hæsta sem gerist í Evrópu og stuðningur við landbúnað hér á landi er einn sá almesti í Evrópu. Samkvæmt síðustu tölum var aðeins eitt ríki, Sviss, sem fékk meiri stuðning við landbúnaðarmál, en okkar stuðningur er u.þ.b. 50% meiri en stuðningur Evrópusambandsins við landbúnaðarmál. Þá sjá menn út í hvers konar fen Íslendingar eru komnir. Þarna örlar ekki á nokkurri einustu uppstokkun, hæstv. fjmrh. Þessir hlutir eru látnir algjörlega afskiptir meðan reynt er að spara enn frekar í þeim tveimur stóru málaflokkum sem ég nefndi áður.

Vegamál eru einn sá málaflokkur, sem ég vil gera að umtalsefni og í fara 7 milljarðar á fjárlögum. Við erum öll það gömul, herra forseti, sem hér sitjum að við getum léttilega hugsað 20--30 ár til baka. Við sjáum hvílíkt stórvirki hefur verið unnið í vegamálum hér á landi á þessum tíma. Þetta mikla átak var að mörgu leyti nauðsynlegt En að við skulum enn þá halda áfram að verja til vegamála þetta háum upphæðum á hverju einasta ári. Mér skilst að það sé eina málefnið sem rætt sé um í þingflokki Sjálfstfl. þegar rædd eru fjárlög, þá sé bara talað um vegamál. Það sé eini málaflokkurinn sem þingmenn Sjálfstfl. skiptast á skoðunum um og ekki hafi farið sögur frá þingflokki sjálfstæðismanna um aðra pólitíska umræðu en þá hvort ekki sé hægt að auka fjárveitingar til vegamála. Það heyrist ekki sú rödd sem ég er að tala um --- að vara við þessum miklu útgjöldum. Sá maður sem léti slíkt heyrast yrði gerður útlægur um leið úr þeim þingflokki.

Þetta er viðkvæmt mál. Þetta er líka viðkvæmt mál innan míns þingflokks. Vegavinalobbíið eða vegagerðarvinirnir á Alþingi eru sterkasti hagsmunahópurinn. Það er svo merkilegt að þó að hér séu fimm þingflokkar, og það eru sagðir vera bændahagsmunir, iðnaðarhagsmunir, sjávarútvegshagsmunir, menntamálahagsmunir og eitthvað þess háttar, þá er einn málaflokkur sem á sér flesta formælendur á hinu háa Alþingi og það eru vegagerðarvinirnir. Þetta fer í gegnum alla flokka. Í mínum þingflokki eru menn sem eru mér mjög ósammála að vekja máls á þessu.

Ég tel að þessar upphæðir verði að skoða í samhengi. 7 milljarðar til vegamála --- við erum að eyða í alla framhaldsskólana 5,3 milljörðum, í allar rannsóknir og alla háskóla fara 3,5 milljarðar. Þetta eru mjög háar tölur. Ég held að við höfum gert stórvirki í vegamálunum á síðustu tveimur áratugum. Ég spyr mig: Er ekki orðið mál að linni? Alltaf er sagt að þetta séu fjárfestingar sem borgi sig. Ég efast um það. Ég hef ekki séð, hæstv. fjmrh., þá útreikninga þegar hver etur upp eftir öðrum hvort sem það er í þingsölum eða annars staðar: Ja, þessi vegarspotti er nú þjóðhagslega hagkvæmur. Þær litlu arðsemisáætlanir sem ég hef séð frá Vegagerðinni benda ekki til að þar séu útreikningar eins og best verður á kosið. En látum það vera. Ég segi fyrir mig, herra forseti, að ég vildi gjarnan eyða 1 milljarði minna í vegamál og 1 milljarði meira í menntamál. Ég mundi gjarnan vilja eyða 1 milljarði minna í vegamál og 1 milljarði meira í heilbrigðismál. Þetta kalla ég forgangsröðun. Það getur vel verið að það sé dauðasök í íslenskri pólitík að tala svona. Það eiga allir að vilja meiri og meiri vegi. En við megum ekki hugsa svona þegar við erum að tala um þá þætti sem skipta máli til framtíðar og þegar við höfum gert stórátak í þessum efnum. Þetta er nákvæmlega sá málaflokkur sem við getum eytt endalaust í. Við getum eytt endalaust í vegi vegna þess að alltaf er hægt að betrumbæta þá. Það er annar málaflokkur sem við getum líka eytt fé í endalaust og allir vita hver er. Það eru hafnir. Það er endalaust hægt að bæta við fjárveitingar í hafnir. Ekki höfum við verið að auka flutninga til og frá landinu eða flytja afla til og frá landinu en við höfum aukið mjög fjárveitingar til hafna undanfarin ár. Ég held að það sé þó betra að setja í hafnarmannvirki, því við erum kannski komin skemur áleiðis með þau heldur en ýmsar vegaframkvæmdir. Ég held að við séum mjög aftarlega á merinni hvað varðar flugvallaframkvæmdir. Þar höfum við ekki verið með þessa tuttugu ára framkvæmdagleði eins og verið hefur í sambandi við vegamál. Þetta kalla ég forgangsröðun, herra forseti. Ég er kannski að snerta hér á heilögu efni en mér er farið að blöskra svo þær upphæðir sem settar eru í þennan málaflokk á sama tíma og við erum að spara um of í hinum stærri málefnum.

Einnig má benda á, herra forseti, varðandi skattamálin að við erum með tiltölulega lága skatta hérlendis miðað við önnur lönd. Áhyggjuefnið í skattkerfinu er fyrst og fremst millitekjufólkið sem við höfum e.t.v. gleymt í skattaumræðunni hin síðari ár. Eitt hugtak í þessari umræðu er notað rangt, þegar jafnvel hæstv. fjmrh. og fleiri eta hver upp eftir öðrum og tala um jaðarskatta. Jaðarskattar eru skattar sem menn borga af viðbótartekjum sínum. Menn rugla þessu hugtaki við það þegar tekjur aukast þá gliðnar vitaskuld það öryggiskerfi sem við höfum byggt upp í þjóðfélaginu. Öryggiskerfið er byggt upp á þann hátt að ef fólk hefur lágar tekjur fær það bætur. Þessar bætur geta t.d. verið barnabætur eða aðrar bætur. Þessar bætur minnka vitaskuld þegar tekjurnar aukast. Þá megum við ekki segja að þetta sé skattlagning, þarna séu jaðarskattarnir allt í einu farnir að virka. Það er rangt. Við getum talað um þetta, eins og stundum hefur verið gert, sem jaðaráhrif. Það er alla vega betra hugtak heldur en jaðarskattar. En þegar öryggisnetið gliðnar eðlilega með hækkandi tekjum eigum við ekki að segja að við séum að skattleggja fólkið í landinu. Það er rangt. Við eigum ekki að nota það orðalag í sambandi við skatta því við erum með nógu háa jaðarskatta samt sem áður, t.d. viðbótarskattinn, 42% upp í 47%. Það er nokkuð há skattprósenta sérstaklega vegna þess að hún kemur nokkuð hart á millitekjufólk sem við þurfum að huga betur að.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. tveggja spurninga um þetta efni. Hann upplýsti að nefnd væri að vinna að tillögum um endurbætur á skattkerfinu og að það mundi hugsanlega koma fram frv. í vetur um það efni. Í nefndinni eru væntanlega embættismenn og fulltrúar stjórnarflokkanna og hagsmunaaðila. Ég veit ekki til að stjórnarandstaðan komi nokkuð að þessari endurskoðun á skattamálum. Ég bendi honum á það fræga fordæmi að stjórnarandstaðan var höfð með í ráðum þegar fjármagnstekjuskatturinn var undirbúinn. Hún átti alla vega aðild að nefndinni. Ég vildi mjög gjarnan fá að vita, án þess að ég ætli að blanda þeirri frægu nefnd inn í þetta mál, af hverju stjórnarandstaðan er ekki kölluð til í sambandi við þetta efni. Af hverju eru aðilar vinnumarkaðarins kallaðir til í hvert einasta skipti þegar kemur að skattamálum? Satt best að segja er ég búinn að fá alveg nóg af áhrifum aðila vinnumarkaðarins á löggjöf á Íslandi. Það á við um skattamál eins og aðra þætti. Ég held að menn ættu aðeins að fara að hugsa betur um leikreglurnar í þjóðfélaginu um hagsmunagæslu, hagsmunavörslu og hagsmunaárekstra. Það er e.t.v ekki hægt að fara mikið út í það við þessa umræðu.

Annað sem hæstv. fjmrh. lét hafa eftir sér í viðtali við blaðið Tíund, sem er starfsmannablað embættis ríkisskattstjóra, að ég held. Þar ræddi hann um þá möguleika að breikka skattstofn og lækka prósentur. Þetta var ekki útfært í hans huga. Þetta er hugmyndafræði sem ég hef hugsað mikið um og margir fleiri. Þetta er reyndar ekki alveg ný hugmynd. En ég vildi gjarnan heyra hvort þarna sé eitthvað á ferðinni hjá hæstv. ráðherra sem vert er að varpa fram í umræðuna eða eru þetta, eins og oft vill verða, hugleiðingar um hvað betur mætti fara í framtíðinni? Spurning mín er sú hvort þarna sé að vænta einhverra breytinga á hinu háa Alþingi.

Ég bendi á varðandi ríkissjóðshallann að menn verða líka að huga að tekjunum. Ef við tökum samanburð við landsframleiðslu þá skila fyrirtæki á Íslandi einna minnstum sköttum til samfélagsins af öllum ríkjum í Evrópu. Þetta er staðreynd. Fyrirtæki á Íslandi búa í skattaparadís. Og ekki ætla ég að hafa á móti því þegar menn notuðu það sem aðferð til að leysa úr ákveðnum vandamálum þ.e. að færa til skattbyrðina í þjóðfélaginu til að örva atvinnu og styrkja fyrirtæki. Sú stefna átti rétt á sér á þeim tíma. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Ætlar hann að láta fyrirtæki á Íslandi búa í miklu hagfelldara skattumhverfi heldur en í nágrannalöndunum? Hvers konar stefna er það? Við erum á sama tíma að skirrast við að leggja nauðsynlegt fjármagn í t.d. menntakerfi eða í heilsugæslu, allt hlutir sem koma til með að kosta okkur mikið í framtíðinni ef við gætum ekki að því að hafa eðlileg framlög til þeirra þátta. Hæstv. fjmrh. þekkir það afskaplega vel því hann flutti ræðu á ráðstefnu um samkeppnisstöðu og flutti þar ræðuna sem hann á eftir að flytja á landsfundi Sjálfstfl. Hann var að æfa sig og flutti hana ágætlega. En það sem kom fram, reyndar ekki í ræðu hæstv. ráðherra, heldur í alþjóðlegum samanburði varðandi samkeppnisstöðu Íslands, að þar erum við í 18. sæti af 24 OECD-ríkjum. Við erum alls staðar í þessum samanburði næstum því neðstir í bekknum. Þetta er yfirleitt þannig að samanburðurinn er nokkurn veginn eins og fjöldi í bekkjardeild, svona 20--24 ríki tekin saman, þ.e. eiginlega öll Evrópuríkin. Við erum venjulega í 15.--20. sæti.

Í málaflokknum um framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi, sem er mjög mikilvægur og hefur ekki breyst nokkurn skapaðan hlut í tíð núv. menntmrh., erum við í 17. sæti af 20 af OECD-ríkjum. Það vita allir sem nenna að hugsa um efnahagsmál og ríkisfjármál að framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi er eitt það mikilvægasta sem til er í hagstjórn hverrar einustu ríkisstjórnar. Flestar ríkisstjórnir reyna að hugsa aðeins fram yfir eitt eða tvö ár. Við erum um árabil búin að vera einna aftast á merinni varðandi þennan þátt. Auðvitað kemur þetta fram í lakari lífskjörum og veikari stöðu, bæði fyrirtækja og einstaklinga um þessar mundir.

[21:30]

Það sem er e.t.v. versti samanburðurinn á alþjóðlegum mælikvarða, af því að ég vil skoða Ísland á alþjóðlegum mælikvarða, er framleiðnin, þ.e. hverju við erum að ná út úr framleiðsluþáttunum. Þetta snýr að fyrirtækjum á Íslandi. Þar erum við í 21. sæti af 24 OECD-ríkjum. Ég held að það séu Grikkland og Tyrkland sem eru fyrir neðan okkur. Framleiðni er ekkert annað en það sem fyrirtæki er að ná út úr framleiðsluþáttum, það geta verið fjárfestingar, það getur verið vinnuafl, það getur verið hráefni, það er hvað sem við getum nefnt, en það er framleiðnin sem stendur undir launakjörum í hvaða landi sem er. Og þetta er ástæðan fyrir því að launakjör hér á landi eru með því lægsta sem þekkist í Evrópu, a.m.k. hvað viðvíkur taxtalaunum. Þetta veit hæstv. fjmrh. Hann veit það að fyrirtæki á Íslandi eru með einna lægstu framleiðni, eru lélegust í bekknum af öllum fyrirtækjum í Evrópu. Og þá spyrjum við okkur: Hvar er sóknin til að breyta þessu? Því ég er alveg viss um að hæstv. fjmrh. tekur undir með mér að launahækkanir og kaupmáttaraukning og lífskjaraaukning verður að byggjast á framleiðniaukningu. Hún kemur ekki hér einhvern veginn ofan af himnum. Það þarf að skapa verðmætin. Það þarf að skapa þannig aðstæður að þessi verðmæti verða til. Það örlar ekki á einu einasta atriði í þessu fjárlagafrv. sem tekur á þessum þætti. Ekki neitt. Þessi atriði gera það að verkum að um þetta frv. má segja að það er ekkert hugsað til langs tíma. Frv. er kannski nákvæmlega það sem það er, frv. til fjárlaga fyrir árið 1997. Það er ekkert hugsað fyrir 1998 eða 1999. Það örlar ekki á neinum breytingum sem mundu horfa til framfara fyrir komandi ár og reyndar ýmislegt í því sem ætti ekki að vera fyrir árið 1997.

Það má nefna marga þætti sem við tökum ekki á sem eru nauðsynlegir, þar sem við þurfum beinlínis að auka útgjöld til að bæta lífskjörin í framtíðinni, verðum að gera það. Ég hef nefnt menntamálin, það eru hlutir í heilbrigðismálunum sem við verðum að taka á vegna þess að annars vaxa þau okkur yfir höfuð. Það eru vissar kerfisbreytingar sem við þurfum að gera þar, en menntamálin eru mjög mikilvæg vegna þess að þau er líka í alþjóðlegum samanburði. Þau eru einmitt sá málaflokkur sem allar þjóðir leggja hvað mesta áherslu á og við gerum ekkert í þessum málaflokki, ekki neitt, nema einhver orð sem í reynd eru einskis virði. Orð eru ódýr, mjög ódýr. Og svo er ekki neitt í þessum þætti sem ég nefndi áðan: framleiðni, hvaða aðgerðir koma fram í þessu fjárlagafrv. sem mundu auka framleiðni hér til framtíðar og þannig standa undir bættum lífskjörum. Það er ekki neitt um slíka þætti þannig að sýn þessarar ríkisstjórnar, herra forseti, er ekki til langs tíma. Það eru engar kerfisbreytingar í þessu frv. Þetta frv. er íhaldssamt. Þetta er gamaldags frv. Þetta er ósköp hefðbundið frv. Áætlunargerðin er þó að mörgu leyti betri og skýrari en oft áður, en það er engin sókn, herra forseti, í þessu frv. til nýrrar aldar. Þetta frv. er í stíl við ríkisstjórnarstefnuna, það er íhaldssöm framsóknarhyggja.