Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 21:36:50 (142)

1996-10-08 21:36:50# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[21:36]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þm. um Háskóla Íslands og rannsóknir, þá komu mér ummæli hans mjög á óvart þegar hann segir að hann meti að Háskóli Íslands sé ein af verst reknu stofnunum sem ríkið hafi í umsýslu sinni. Ég ætla ekkert að gera lítið úr skoðunum hv. þm. Ég þekki þetta nokkuð af eigin raun, ég hef kennt við háskólann, ég hef verið deildarforseti við eina af deildum háskólans og öll sú reynsla sem ég hef af Háskóla Íslands bendir til hins gagnstæða. Auðvitað getur þar eins og annars staðar verið farið betur með fé, en ég fullyrði að Háskóli Íslands er mjög vel í stakk búinn til þess að stunda rannsóknir, gerir það mjög myndarlega eftir því sem hann hefur fjárráð til. Þetta er eitt af því sem er mjög gagnrýnisvert og ég hef gagnrýnt og fleiri að þegar skorið er niður til háskólamenntunar eins og hefur verið gert miðað við þann nemendafjölda sem sífellt hefur aukist, þá kemur það niður á rannsóknum við Háskóla Íslands.

Nú er það svo að rannsóknir eru, herra forseti, yfirleitt alls staðar stundaðar í tengslum við háskóla. Við erum að vísu með 14 skóla hér á landi sem eru á háskólastigi en við erum einungis með einn háskóla, og það er Háskóli Íslands, sem er svokallaður rannsóknarháskóli, þ.e. þar eru stundaðar rannsóknir og líka kennsla í fræðum eftir fyrsta háskólapróf. Ég veit að hv. þm. þekkir þetta, þetta skapar Háskóla Íslands þá sérstöðu í okkar menntakerfi sem við verðum að hlúa að og getum ekki gert öðruvísi en með fjármunum. Og ég fullyrði það að niðurskurður eða vöntun á fjárframlögum til Háskóla Íslands á undanförnum árum hafa kostað það að við höfum verið að missa mjög góða vísindamenn til útlanda til starfa. Þetta hefur komið bæði niður á kennslu og rannsóknum. Því koma mér þessi ummæli hv. þm. mjög á óvart. Ég fullyrði það og vonast til að geta skýrt það betur fyrir honum að afstaða hans er ekki byggð á rökum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta þarf að ræða í betra tómi en Háskóli Íslands er fyllilega fær um að stunda rannsóknir eins og vel á að vera.

Hvað varðar vegamálin tók ég það skýrt fram að það mundu vafalítið vera öðruvísi skoðanir um þetta mál í öllum þingflokkum, þar á meðal mínum þingflokki. Ég var að lýsa mínum persónulegu skoðunum varðandi vegamál. Það var enginn misskilningur varðandi það efni. Þingflokkur jafnaðarmanna hefur ekki fjallað um vegamál neitt sérstaklega, en ég veit að mjög margir þingmenn í þeim flokki eru jafnmiklir vegavinir og hv. þm. Sturla Böðvarsson en ég hvet hann samt til þess að hugsa um þetta sem ég nefndi.