Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 21:43:59 (145)

1996-10-08 21:43:59# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[21:43]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun koma að nokkrum atriðum í síðari ræðu minni seinna í kvöld, einkum þeim sem lúta að fyrirspurnum hv. þm. til mín, en ég vil gera örfáar athugasemdir.

Í fyrsta lagi sagði hv. þm., sem er jafnframt eða var prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, að það nálgaðist að vera trúaratriði að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum, og það skipti miklu meira máli hvernig fjármununum væri varið. Þá skipti ekki máli hvort hallinn væri einhver eða afgangurinn einhver. Þetta er rangt. Það sem skiptir langsamlega mestu máli, og þess vegna er samstaða um það um allan heim, hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, í Evrópubandalaginu og hvar sem við komum þar sem umræða fer fram um þessi mál, að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum því ef það næst ekki og sérstaklega við skilyrði eins og eru hér, þá fer sífellt stærri hluti kökunnar sem er til skiptanna í að greiða niður vexti --- einhvern tíma skuldir --- og minna til þess að ráðstafa þannig að sífellt verður minna og minna til ráðstöfunar. Þess vegna eru þetta ekki nein trúarbrögð. Þetta er bara einfaldur sannleikur sem ég hélt að hv. þm. vissi og skildi og það kom mér satt að segja á óvart að heyra hann flytja svona ræður. Það er ekki í fyrsta skipti sem hann gerir það því að þessu hefur hann haldið fram áður.

[21:45]

Hann hamrar síðan eins og sumir á því að það sé flatur niðurskurður og gamaldags og engin forgangsröðun en sannleikurinn er sá að víða í frv. er bent á nýja þjónustu sem verið er að bjóða upp á, bæði í heilbrigðiskerfinu og í menntamálunum. Svo spyr hann hvort við séum við að eyða eins og vitleysingar í heilbrigðiskerfinu og svarar: Nei, því að við eyðum álíka miklu að meðaltali og í nágrannalöndunum. Sannleikurinn er sá að við eyðum mjög miklu opinberu fé til heilbrigðismála, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess hve þjóðin er ung. Þetta hefur verið kannað og verið sagt frá því þegar við leiðréttum töluna miðað við það hve fáir eru aldraðir hér á landi að við eyðum mjög háu hlutfalli af opinberu fé en ég skal taka undir það að sem betur fer er því vel varið.