Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 22:03:45 (150)

1996-10-08 22:03:45# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[22:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hefur sýnt fram á það í dag að það er ekki mjög merkilegur boðskapur sem þetta fjárlagafrv. flytur okkur. Að minnsta kosti flytur þetta fjárlagafrv. okkur ekki neinn nýjan boðskap og örugglega ekki neinn fagnaðarboðskap fyrir heimilin í landinu. Það er vissulega jákvætt og undir það hafa allir tekið sem talað hafa hér í dag að það er jákvætt að hafa tekjuafgang. Það er jákvætt að hagvöxtur sé áætlaður 2,5% á næsta ári þó það sé minna en á þessu ári og það er auðvitað jákvætt að verðbólga sé hófleg og útlit fyrir að erlendar skuldir þjóðarbúsins lækki á næsta ári.

En við getum líka spurt okkur þá hvernig þessi tekjuafgangur er fenginn. Hann skýrist að verulegu leyti af auknum umsvifum í þjóðfélaginu og meiri tekjum ríkissjóðs. Spurning er hvort þessi tekjuauki, þessi tekjuafgangur sem fjárlagafrv. sýnir standi ekki á mjög veikum grunni. Ég hygg að það hafi verið sýnt fram á það í dag með ýmsum hætti að tekjuhlið fjárlagafrv. standi á mjög veikum grunni. Það hefur verið bent á að það er mjög mikil fjárvöntun og það kemur reyndar fram í þessu fjárlagafrv. að því er varðar sjúkrahúsin á næsta ári og því hefur enginn stjórnarliða neitað í þessum ræðustól. Því var haldið fram í dag að vöntunin á fjármagni til sjúkrahúsanna á næsta ári væri einn milljarður. Þó að hæstv. fjmrh. tæki ekki undir það að hann væri svo hár, þá neitaði hann alls ekki að um mikinn tekjuskort væri að ræða á sjúkrahúsunum á næstu árum. Þannig skildi ég hans orð. Þetta er aðeins eitt dæmi.

Það er líka alveg ljóst að ekki verður hjá því komist að taka á stöðu Byggingarsjóðs verkamanna eins og ég mun koma að síðar í mínu máli. En hann er enn skorin niður við trog að því er varðar ríkisframlög og hefur verið sýnt fram á í stjórnsýslulegri endurskoðun Ríkisendurskoðunar að með því áframhaldi stefnir sjóðurinn beint í gjaldþrot. Þetta eru einungis tvö dæmi um það á hve veikum grunni þessi tekjuafgangur raunverulega stendur

En hvernig er þessi ávinningur í þjóðarbúskapnum fenginn sem stjórnarliðar hafa rætt um í dag? Ég held að við þekkjum það öll hér inni og þurfi ekki að hafa um það mörg orð. Við þekkjum að það er fyrst og fremst launafólkið sem hefur borið hitann og þungann af því að hér hefur ríkt tiltölulega góður stöðugleiki á liðnum árum. Launafólk hefur þurft að bera þetta með miklum skattatilfærslum frá fyrirtækjum til launafólks. Niðurstaðan er eins og hv. þm. Ágúst Einarsson kom inn á áðan að fyrirtækin hér á landi búa við mjög lága skatta miðað aðrar þjóðir innan OECD og reyndar má segja að fyrirtækin búi við skattaparadís.

Við þekkjum það líka að þessi ávinningur hefur náðst með verulegum niðurskurði á velferðarkerfi fólksins. Það hefur líka verið sýnt fram á það að umsvifin í velferðarkerfinu eru ekki mikil hér samanborið við annars staðar. Og þessi ávinningur hefur náðst með lágum launum. Það er auðvitað það alvarlegasta sem kannski er ekki mikið tekið á eða rætt um í fjárlagafrv. Það eru lægstu launin, sultarkjörin, sem eiga stóran þátt í því að fyrirtækin sýna hagnað hér og er það sú framtíðarsýn sem við viljum sjá að við séum fyrst og fremst samkeppnisfær við aðrar þjóðir vegna lágra launa sem við bjóðum okkar fólki. Og það hefur líka verið sýnt fram á að fyrirtækin hér á landi sýna minnstu framleiðslu eða minnstu framleiðni eða með því minnsta hjá OECD-þjóðunum. Samt er það svo að Ísland er sett á bekk með sjö ríkustu þjóðum heims. Hvernig kemur þetta niður varðandi tekjuskiptinguna í heild í þjóðfélaginu? Stöndum við frammi fyrir því og höfum gert á mörgum umliðnum árum án þess að taka á því? Þar berum við auðvitað öll ábyrgð sem höfum átt sæti í ríkisstjórn, að tekjuskiptingin, bilið milli ríkra og fátækra, hefur farið vaxandi í þjóðfélaginu og fátækt og stéttarskipting er staðreynd sem ekki verður fram hjá litið. Þess vegna er það sorglegt að núna þegar við erum að sigla inn í góðæri --- ríkisstjórnin tók við því búi að þetta er annað árðið í röð sem við búum við bata í efnahagsmálum þó að launafólkið virðist ekki sjá það í sinni buddu --- þá er það sorglegt við þetta frumvarp, eins og reyndar hefur komið fram í dag og verður aldrei of oft sagt, að það er engin ný hugsun í því, engar kerfisbreytingar, engin uppstokkun, engin ný sýn í atvinnumálum, engar breytingar boðaðar í sjávarútvegi og engin uppstokkun í landbúnaði. Það væri fróðlegt að fá við þessa umræðu afstöðu fjmrh. til veiðileyfagjalds sem hefur verið sýnt fram á að geti skilað a.m.k. til lengri tíma litið umtalsverðu fjármagni inn í ríkissjóð. Það hefur verið sýnt fram á að til lengri tíma litið gæti það átt verulegan þátt í því að við gætum lækkað verulega skatta á fólki þannig að það er fyllsta ástæða til þess að heyra afstöðu hæstv. fjmrh. til þess máls.

Ég sagði áðan að ein meginástæða þess að ríkissjóður skilar tekjuafgangi er að það er enn einu sinni og það líka í efnahagsbata, verið að þrengja að heimilunum í landinu og velferðarkerfinu. Mér finnst alveg ótrúlegt hvað þessi ríkisstjórn er ósvífin í því að ganga alltaf lengra og lengra í því efni að ráðast á velferðarkerfið. Mér fannst keyra úr hófi við síðustu fjárlagagerð hvernig ríkisstjórnin sveifst einskis og hafði alveg sérstakan markhóp að ráðast á sem voru aldraðir og öryrkjar. Hann var langur listinn sem við fórum yfir við fjárlagagerðina í fyrra yfir það hvernig ráðist var að kjörum aldraðra og öryrkja, enda er stór hluti aldraðra og öryrkja mjög illa staddur hópur í þjóðfélagi. Mig minnir að það hafi verið í 12 eða 13 þáttum, bæði í heilbrigðismálunum og félagsmálunum sem ráðist var sérstaklega á þennan markhóp. Ég veit ekki hvað hann hefur sérstaklega gert ríkisstjórninni, þessi markhópur aldraðra og öryrkja. Og það var ekki stoppað þar vegna þess að enn er haldið áfram við fjárlagagerðina nú.

Ég ætla að víkja að örfáum atriðum sem snerta velferðarkerfið. Ég hefði síðan, virðulegi forseti, aðeins viljað fara inn á vaxtamálin í lokin. En ég vil nefna örfá atriði sem varða velferðarkerfið og er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af og benda fjárln. á að skoða sérstaklega til þess að reyna að fá ríkisstjórnina af villu síns vegar um hvernig hún heldur þar á málum.

Það hefur verið sýnt fram á það í stjórnsýslulegri endurskoðun að það er fyrst og fremst um það að ræða hvert Byggingarsjóður verkamanna stefnir nú vegna niðurskurðar í ríkisframlögum. Í skýrslunni sem við höfum fengið hefur komið fram að á tímabilinu 1986--1995 námu ríkisframlög samtals um 6,6 milljörðum kr. á núgildandi verðlagi. Á þessu ári, yfirstandandi ári, er áætlað að framlögin nemi 400 millj. kr. og hafa þau þá lækkað um rúm 60% að raungildi frá því sem þau voru hæst á árinu 1992. Það er því ljóst að fjárframlögin, skerðingin á ríkisframlaginu á verulegan þátt í þessu.

Það er líka sýnt fram á í þessari skýrslu að eigið fé sjóðsins hafi haldist nokkuð stöðugt að raungildi og þar er tafla, súlurit sem sýnir að eigið fé hafi haldist stöðugt að raungildi alveg frá árinu 1989 þegar var farið að taka af festu á málefnum þessa sjóðs og fram til ársins 1994. Þá byrjar eigið fé að minnka og mjög verulega árið 1995. Það er sýnt að það mun enn minnka á þessu og næsta ári vegna þess að Ríkisendurskoðun miðar við 400 millj. kr. framlög þegar hún segir að sjóðurinn stefni á gjaldþrot um aldamótin eða eftir aldamótin og að fjárvöntunin sé 4 milljarðar kr. En fjárvöntunin er enn meiri og það hlýtur að stefna fyrr í gjaldþrot ef miðað er við 300 millj. kr. ríkisframlag á næsta ári.

Ég beini orðum mínum sérstaklega til hæstv. fjmrh. af því að ég hef ekkert orðið vör við að hæstv. félmrh. hafi sérstaklega áhyggjur af því að verið sé að kippa stoðunum undan Byggingarsjóði verkamanna. En meðan ég sat með hæstv. fjmrh. í ríkisstjórn, hafði hæstv. fjmrh. áhyggjur af því og við tókum sameiginlega á þessu máli. Það var lögð í það mikil vinna að fara í ýmsar skipulagsbreytingar á framkvæmdinni í félagslega kerfinu, t.d. það að taka niður mjög rekstrarkostnað stofnunarinnar. Það var farið út í það að minnka fjárveitingar, þ.e. leyfileg hámarksstærð félagslegra íbúða var minnkuð. Hún var 170 fermetrar árið 1996 en var minnkuð 1989 niður í 130 fermetra og leyfilegur byggingarkostnaður var lækkaður um 5% og svona gæti ég haldið áfram. Það var farið út í það að opna fyrir og hvetja til þess að frekar yrðu keyptar inn eldri íbúðir í kerfið o.s.frv. Þetta skilaði allt nokkrum árangri. Þegar ég var félmrh. og hæstv. fjmrh. sat þá líka í stól fjmrh. lágu til grundvallar sameiginlegir útreikningar frá Seðlabanka, félmrn. og fjmrn. hvað þyrfti í ríkisframlag til að sjóðunum yrði ekki stefnt í hættu. Þegar ég skildi við í ráðuneytinu, lá fyrir að eiginfjárstaða sjóðsins var mjög traust miðað við þetta ríkisframlag sem var á árinu 1994 955 millj. Það hafði þá lækkað um sennilega 100 millj. frá því sem útreikningarnir gáfu til kynna, en þá hafði líka félagslegum íbúðum fækkað um 100. Það er eins og Framsfl. megi ekki koma nálægt þessum byggingarsjóðum vegna þess að þegar þeir hættu með félmrn. árið 1987, þá lá fyrir skýrsla frá Ríkisendurskoðun sem sagði að Byggingarsjóður ríkisins stefndi ekki í 4 miljarða kr. mínus þá, heldur var um að ræða tugi milljarða greiðsluþrot sem sjóðurinn stefndi í á mjög skömmum tíma. Nú þegar breytt var um kúrs 1987 varðandi Byggingarsjóð ríkisins, þá sýnir þessi skýrsla að Byggingarsjóður ríkisins stendur mjög traustum fótum og það gerir húsbréfadeildin líka. En um leið og Byggingarsjóður verkamanna kemst í hendurnar á framsóknarmönnum aftur þá endurtekur sig sama sagan og við fáum skýrslu frá Ríkisendurskoðun um að sjóðurinn stefni í gjaldþrot. Ég held það verði ekki hjá því komist að taka á þessu máli og ég er sannfærð um að hæstv. fjmrh. hefur fullan hug á því. En ég óttast þó að hæstv. fjmrh. vilji frekar gera það með hækun vaxta eða helst að stoppa útlán fremur en setja nauðsynleg ríkisframlög inn í þennan sjóð.

Ég held að þessi mál hljóti að verða til umræðu við fjárlagagerðina vegna þess að á þeim verður að taka. Jafnvel þó dregið hafi verið úr útlánum eins og félmrh. stendur að, þá er ekki nægilega dregið úr þeim miðað við það að tryggja fjárhagsstöðu sjóðsins ef menn vilja horfa á það á annað borð, miðað við hve mikið er skorið niður í ríkisframlaginu. Það er því ljóst að þessi skýrsla sem við höfum fengið sýnir okkur ljóslega að verið er að grafa alvarlega undan félagslega íbúðakerfinu.

[22:15]

Framkvæmdasjóð fatlaðra bar aðeins á góma í dag og þar er allt á sömu bókina lært vegna þess að í það virðist stefnt að verið sé að eyðileggja Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þegar sjóðurinn tók við ákveðnum hluta af rekstrarkostnaði í þessum málaflokki þá var það raunverulega samkomulag í síðustu ríkisstjórn og það var sett inn í fjárlögin þá að við það væri miðað að ef þessi sjóður ætti að einhverju leyti að fjármagna rekstur, þá yrði tryggt að hann fengi óskertar tekjur af erfðafjárskatti sem nú eru 420 milljónir. Nú eru einungis 165 milljónir settar inn í sjóðinn þannig að um 255 milljónir renna í ríkissjóð. Ég held að þetta sé mjög alvarleg staða vegna þess að þó að ekki sé verið að skera niður reksturinn núna þá fer framkvæmdageta sjóðsins mjög minnkandi og það mun koma fram í stöðnun í uppbyggingu á málefnum fatlaðra núna á næstu árum og í lengingu biðlista.

Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð þá er verulega minna fjármagn látið til hans á næsta ári en á þessu. Að hluta til skýrist það af heldur minni áætlun um atvinnuleysi eða 0,2% sem eru um 130 millj. kr. En það eru líka boðaðar hertar úthlutunarreglur og undir hatti upp á 128 millj. kr. Nú væri fróðlegt að fá að vita hvað hér er á ferðinni. Hvað á að gera með þessum hertu úthlutunarreglum? Á að þrengja að kjörum atvinnulausra eða hvernig er hugmyndin að ná inn þessu fjármagni?

Það sem líka er ástæða til þess að hafa áhyggjur af eru tveir fastir liðir sem ég hélt að væri nokkurn veginn sátt um í þingsölum. Það er annars vegar starfsmenntun í atvinnulífinu. Um hana var sett löggjöf fyrir nokkrum árum og hefur verið veitt einum 50 eða 60 millj. kr. til sem hefur haft mikið gildi fyrir starfsmenntun í landinu, ekki síst fyrir ófaglærða. Nú er ekkert fjármagn lagt í starfsmenntun í atvinnulífinu heldur er þessi liður settur undir Atvinnuleysistryggingasjóð og hann virðist eiga í framtíðinni að fjármagna þennan mikilvæga þátt fyrir launafólk og sérstaklega ófaglærða fólkið. Ég er ekki svo viss um að starfsmenntun í atvinnulífunu sé trygg með slíkri kerfisbreytingu og hljótum við að ræða það eitthvað þó síðar verði. Sama gildir um atvinnumál kvenna. Það eru ekki miklir peningar sem hafa farið í atvinnumál kvenna. Þetta hafa þó verið um 20 milljónir kr. Og ég veit að þeir sem hafa kynnt sér hvernig það fjármagn hefur nýst vita að það hefur sýnt sig að það hefur skilað sér mjög vel til atvinnuuppbyggingar sem konur hafa farið út í þó hér sé ekki um ákaflega mikla fjármuni að ræða. Mér finnst það vera ótryggt í fjárlögunum þó þetta sé sett undir Atvinnuleysistryggingasjóð og kannski undir hælinn lagt hvað miklu fé verður veitt í þennan málaflokk. Í heild tel ég, fyrir utan minna atvinnuleysi upp á 130 milljónir, að þá sé niðurskurðurinn raunverulega um 200 millj. kr. sem hlýtur þá að eiga að nást með hertum úthlutunarreglum.

Það hefur mjög mikið verið rætt hér um menntamálin í dag og það er kannski hinn alvarlegi boðskapur í fjárlagafrv. að það er stöðnun í menntamálum. Framtíðarfjárfesting þjóðarinnar er fólgin í því að við höfum skilning á menntamálunum og veitum til þess nauðsynlegt fjármagn. Þær þjóðir sem við berum okkur saman við --- ef við tölum t.d. um Norðurlandaþjóðirnar --- veita 6--7% af sinni landsframleiðslu til menntamála meðan við veitum um 4% og erum þar neðst af OECD-ríkjum á bekk með Grikklandi og Tyrklandi. Samkeppnisfærni okkar hlýtur að byggjast á því að við höldum í við aðra varðandi menntun og uppbyggingu þar. En þar ríkir algjör stöðnun eins og fram kemur í þessu fjárlagafrv. Það er verið að boða aukna gjaldtöku líka í framhaldsskólanum, þrengingar á lánasjóðnum og raunverulega er alger stöðnun. Mér finnst það svolítið grátlegt að á sama tíma og þetta gerist þá hefur hæstv. menntmrh. geð í sér að halda einhverja glansráðstefnu um framtíðarfjárfestingu þjóðarinnar. ,,Hún byggir á menntun``, segir hæstv. fjmrh. en það kemur hvergi fram í fjárlögunum. Og meira að segja nemendum, sem höfðu auðvitað sitt til málanna að leggja í menntamálum, var úthýst á þessari ráðstefnu.

Um heilbrigðismálin hefur mikið verið rætt í dag og kannski er litlu við það að bæta en þó væri fróðlegt að vita hvort hæstv. heilbrrh. sé í húsinu.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að hæstv. heilbrrh. er í húsinu, já.)

Þá væri kannski ágætt að hæstv. heilbrrh. kæmi í salinn. Lokaorð mín snúa að hæstv. fjmrh. líka. Ég er nú rétt að ljúka minni ræðu þannig að það væri gott að setja hann að minnsta kosti í viðbragðsstöðu. (Gripið fram í: Hann er á leiðinni.)

(Forseti (GÁ): Og fjmrh. líka, já.)

Ég ætla á meðan ég bíð eftir þessum hæstv. ráðherrum að víkja að því fjármagni sem fer í áfengis- og fíkniefnamál sem við ræddum mjög mikið á síðasta þingi. Allir, frá öllum flokkum, voru sammála um það hér að það þyrfti að gera verulegt átak í því efni, gegn þessum mesta bölvaldi þjóðarinnar. Menn voru með ýmsar tillögur á borðum og hæstv. dómsmrh. hefur haft nefnd í vinnu hjá sér sem hefur sett fram ýmsar gagnlegar tillögur og er boðað að þær verði lagðar hér fram á þessu haustþingi. En þær kosta líka verulegt fjármagn og það er óbreytt framlag undir dómsmrn. í ávana- og fíkniefnamál, einungis 2,9 milljónir. Ég gat ekki séð hærri tölu. Í dag þegar ég spurði hv. form. fjárln. um þennan lið þá vísaði hann í forvarnasjóðinn. Mér finnst það hálfbillegt af hv. form. fjárln., vegna þess hvernig þessi forvarnasjóður var settur á. Hann var settur á þegar við vorum að afnema einkarétt Áfengisverslunarinnar af áfengissölu. Þá kom þessi forvarnasjóður upp. Hann var ekki sérstaklega stofnaður vegna þeirra tillagna sem nú liggja á borðinu og eiga að koma hérna inn í þingið til þess að taka á þeim málum. En þetta verður auðvitað að skoða sérstaklega.

Nú sný ég mér að hæstv. heilbrrh. sem hefur sagt að ekki séu boðuð nein ný þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu. Það stendur í greinargerð fjárlagafrv. að gerðar séu meiri kröfur til öflunar sértekna í þessu frv. Þar sé ég pósta eins og hækkun dómsgjalda sem ég fæ sennilega engin svör við vegna þess að hæstv. dómsmrh. heiðrar okkur ekki með nærveru sinni. En það væri fróðlegt að vita hvort verið er að hækka varðandi dómsgjöldin. Er það varðandi nauðungarsölurnar eða þau miklu gjöld sem ríkið leggur á þá sem skulda? Það er á þriðja milljarð króna sem ríkið skattleggur skuldug heimili í landinu. Það er engin viðleitni sýnd í því að ríkið losi nú aðeins tak þessarar skattaklóar sinnar af heimilunum í landinu varðandi þessar gjaldtökur sem birtast fólki er fær gluggaumslögin inn um bréfalúguna í formi þinglýsinga og stimpilgjalda og nauðungarsölugjalda ýmiss konar. Ég spyr hæstv. fjmrh. fyrst dómsmrh. er ekki hér: Hvað felst í þessari hækkun dómsgjalda? Er ekki nóg komið af þeim álögum sem settar eru á skulduga einstaklinga með stimpilgjöldum, þinglýsingargjöldum og alls lags gjöldum sem nema á milli 2 og 3 milljörðum króna? Er engin ástæða til þess að minnka þessa skattlagningu, losa þessa skattakló fjmrh. af skuldugum heimilum í landinu? Er verið að boða nýjar álögur varðandi þessi dómsgjöld? Ég spyr um það.

Í lokin sný ég mér að hæstv. heilbrrh. og spyr: Er heilbrrh. sáttur við það fjármagn sem er á fjárlögum til sjúkrahúsrekstrarins á næsta ári? Og telur hún að sjúkrahúsin --- þá er ég að tala um stærstu sjúkrahúsin á landinu --- geti haldið óbreyttri þjónustu miðað við það framlag sem þau fengu á fjárlögum á síðasta ári og miðað við það viðbótarframlag sem kom núna um mitt ár? Því hefur verið haldið fram í ræðustól hér í dag að það vantaði hundruð milljóna og meira að segja nefnd talan einn milljarður á næsta ári, til þess að sjúkrahúsin geti haldið áfram að veita óbreytta þjónustu. Ég spyr ráðherrann um það. Og ráðherrann hlýtur að hafa farið ofan í þessi mál. Ég viðurkenni að það vakti nokkra furðu mína að ráðherrann skyldi þurfa að kalla forstöðumenn þessara sjúkrahúsa á sinn fund í dag til þess að biðja þá um að skýra niðurskurð sem að forstöðumenn spítalanna hafa verið píndir út í. Ég hélt að hæstv. ráðherra væri kunnugt um þennan niðurskurð. Mín spurning er því þessi: Mun fjármagnið sem er hér á fjárlögum til sjúkrahúsrekstrarins duga á næsta ári? Eða vill hæstv. heilbrrh. fá liðstyrk stjórnarandstöðunnar við það að reyna að fá, núna við fjárlagaafgreiðsluna, meira fjármagn inn í sjúkrahúsreksturinn svo að hægt sé að reka þau eðlilega? Það er búið að skera það mikið að þarna verður ekki lengra gengið. Ég held að allir viðurkenni það sem hafa skoðað þessi mál.

[22:30]

Það er verið að tala um 650 millj. kr. sparnað í sjúkratryggingum og að megninu af sparnaðinum eigi að ná í lyfjum. Það er verið að tala um endurskoðun á greiðsluhluta almannatrygginga. Það eru boðaðar einhverjar nýjar reglur. Ég spyr ráðherrann og það er sanngjarnt að ætlast til að ráðherrann svari þessu: Er nokkuð verið að boða hér hækkun á greiðsluhluta sjúklinganna í lyfjum? Það á að ná 400 millj. kr. af sparnaðinum með því að endurskoða reglur um greiðsluhluta almannatrygginga. Er nokkuð verið að boða hér hækkun á greiðsluhluta sjúklinga í lyfjum?

Síðan eru það tannréttingar. Þar er verið að tala um að heimildir til endurgreiðslu á kostnaði verði endurskoðaðar. Er verið að íþyngja heimilunum sem þurfa að fara með börn sín í tannréttingar? Á að íþyngja þeim meira en gert hefur verið í því efni? Ráðherrann hlýtur að vita hvað er á bak við þá setningu í fjárlögum að það eigi að endurskoða endurgreiðsluheimildina vegna tannréttinga.

Síðan er talað um að gjaldskrá vegna blóðmeina- og meinefnarannsókna sjúkrahúsa og einkarekinna rannsóknastofa verði endurskoðuð. Hvað þýðir þetta? Eru þetta aukin þjónustugjöld eða þýðir þetta eitthvað annað? Þetta hlýtur að hafa einhverja merkingu, hæstv. ráðherra. Ráðherrann skuldar þingheimi að upplýsa um þau atriði sem hér er spurt um. Ráðherrann hefur sagt: Það felast ekki nein þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu. Ég spyr hér um ákveðin atriði sem ég vil fá svör við. Er t.d. verið að auka greiðslur fólks vegna röntgenþjónustu sem mér fannst kannski geta falist í þessu?

Herra forseti. Það sem er náttúrlega að sliga heimilin í landinu og út af fyrir sig atvinnureksturinn líka eru háir vextir. Ég verð að segja það að þegar maður skoðar vextina hér á landi í samanburði við víða annars staðar þá er mjög erfitt að átta sig á því af hverju vaxtastigið er svona hátt hér á landi. Vegna þess að það munar engu smáu á milli Íslands og annarra landa. Ég er hér með töflu frá Seðlabankanum og hún miðast við vextina eins og þeir eru nú í október í einum tólf löndum. Hvernig eru þeir t.d. á þriggja mánaða ríkisvíxlum? Þá eru þeir, miðað við 2,2% verðbólgu hér á landi, 7,11% á þriggja mánaða ríkisvíxlum. Í löndunum sem við berum okkur saman við eru vextirnir þetta 3, 4 eða 5%. Svo ég taki t.d. Svíþjóð þar sem verðbólgustigið er það sama, 2,2%, en vextirnir á ríkisvíxlunum 4,77%. Hér eru þeir 7,11%. Þannig mætti rekja óteljandi dæmi. Við erum með langhæstu vextina af þessum 12 löndum sem eru hér á blaði og munar þar miklu. Það er sama þó við tökum 12 mánaða ríkisvíxla, þeir eru langhæstir á Íslandi, 7,85% á meðan Danmörk er með svipaða verðbólgu og við en vextirnir þar eru 3,85% eða helmingi lægri. Ef við lítum á fimm ára ríkisskuldabréf þá er alveg það sama upp á teningnum. Núna í október eru vextirnir 8,89% miðað við 2,2% verðbólgu og í Svíþjóð og Noregi, þar sem líka er miðað við 2,2% verðbólgu, eru þeir liðlega 6%. Ef við tökum raunávöxtun á verðtryggðum ríkisskuldabréfum þá er heldur minni munur. Þar eru Ísland, Bretland og Svíþjóð tekin. Ísland er að því er varðar tíu ára bréf með 5,60%, Bretland 3,57% og Svíþjóð 5%.

Það er því alveg sama hvar maður ber niður að því er varðar lántökurnar að vextirnir eru langt, langt fyrir ofan það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Maður trúir því varla í því umhverfi sem við erum í að enn var verið að hækka vextina núna nýlega. Það er þetta og verðtryggingin á fjárskuldbindingunum sem er að sliga heimilin í landinu. Enda hef ég lagt hér fram fyrirspurn til viðskrh. og bíð eftir að hann svari því hvort ríkisstjórnin hafi engin áform um að hraða því að aflétta verðtryggingunni eða afnema hana alveg frá því sem var ákveðið hér fyrir að mig minnir einu ári síðan. Það eru þessi mál sem þarf að taka á sem eru að sliga heimilin í landinu.

Það er náttúrlega eitthvað mikið að hér varðandi verðtrygginguna þegar það var upplýst t.d. í sumar að hækkun á kartöflum ein og sér jók skuldir heimilanna um 500 millj. á ári. Það er alltaf verið að tala um skuldaaukningu heimilanna en 500 millj. af henni var vegna hækkunar á kartöflum. Þannig að þetta er mál sem þarf að fara ofan í miklu betur en gert er. Það er svo himinhár og hrópandi mismunur á vöxtum hér á landi og annars staðar að á því verður að taka. Það verður líka að fara að kafa ofan í þessa verðtryggingu, að hafa hér verðtryggingu á lánum áfram miðað við það að við höfum gengið í gegnum stöðugleika. Ef ríkisstjórnin hefur einhverja trú á því að þessi stöðugleiki haldi áfram þá hlýtur hún að skoða það alvarlega að fara út í að afnema verðtryggingu, a.m.k. hraðar heldur en hún hefur áætlað.