Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 22:41:53 (152)

1996-10-08 22:41:53# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[22:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Heldur fannst mér nú svörin óljós. Ef ráðherrann kemur ekki hér upp og mótmælir því þá lít ég svo á að það eigi ekki að fara út í að hækka greiðsluhluta sjúklinga í lyfjum. Það eigi ekki að fara út í neinn aukinn kostnað fyrir heimilin varðandi tannréttingar. Ráðherrann talar um að samræma gjaldtöku en að ekki sé verið að auka tannréttingakostnað hjá einstaka heimilum í landinu. Það sé ekki verið að fara út í þjónustugjöld að því er varðar gjaldskrá fyrir blóðmeina- og meinefnarannsókna o.s.frv. Þetta lít ég á að liggi fyrir ef ráðherra mótmælir því ekki.

Varðandi sjúkrahúsin þá kemur mér það mjög á óvart, herra forseti, ef heilbrrh. er ánægður með þær upphæðir sem fram koma á fjárlögum vegna þess að ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, og hæstv. mun þá sjá það síðar við afgreiðslu fjárlaga ef henni er það ekki ljóst núna, að það vantar hundruð milljóna á næsta ári inn í sjúkrahúsreksturinn miðað við að við þurfum ekki að skera niður enn frekar þjónustu frá því sem er. Ég lít svo á að ráðherrann sé þá sáttur við þau framlög sem eiga að fara til sjúkrahúsrekstursins á næsta ári og það furðar mig mjög.