Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 22:57:40 (154)

1996-10-08 22:57:40# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[22:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það breyti litlu varðandi stöðu Byggingarsjóðs verkamanna hverju hæstv. ráðherra heldur hér fram. Ég held að tölurnar tali sínu máli í þessari skýrslu sem við höfum fengið. Ríkisframlagið hefur verið frá 1991--1995 um og yfir 1.000 millj. en síðan segir í skýrslunni að það hafi orðið stökkbreyting þegar ráðherrann tekur við og þá fer það úr 955 niður í 400 og síðan enn aftur á næsta ári niður í 300. Það er því ekki nema 1/3 af því sem það var þegar hæstv. ráðherra tók við og ráðherrann hlýtur að sjá hvaða afleiðingar það hefur. Hann leggur mikið upp úr hallalausum fjárlögum en hann er greinilega að setja skuldir þessa sjóðs yfir á framtíðina og hefur engar áhyggjur af því. Varðandi það að umsóknum í félagslega kerfinu hafi fækkað, þá eru til á því alveg ákveðnar skýringar. Það er verið að reyna að hræða fólk leynt og ljóst frá þessu kerfi. Það er verið að tala um að íbúðirnar standi auðar, þær eru þó ekki nema 200 af 10.000 og kannski upp undir helmingurinn af þeim á Vestfjörðum og á því eru skýringar sem ekki vinnst tími til að rekja hér. Hver er greiðslubyrðin í húsbréfakerfinu, þó að lánin séu um 70%, sem ráðherrann telur að komi í staðinn? Útborgun þar eru um 2 milljónir af íbúð sem kostar 6,7 milljónir en ekki nema 670 þús. hjá Byggingarsjóði verkamanna og greiðslubyrðin miklu minni af þeim lánum sem sjóðurinn veitir. Þannig að það er bara barnalegt að halda því fram að þetta sé ekki kostur fyrir láglaunafólk og furðulegt að ráðherrann sé að halda öðru fram.

Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð þá nefndi ráðherrann ekki hvað væri verið að gera með því að herða úthlutunarreglurnar. Er verið að rýra eitthvað kjör atvinnulausra? Og ég spyr ráðherrann, að gefnu tilefni frá síðasta þingi, hvað hefur hann skoðað á þessu sumri varðandi það að rýmka reglur fyrir bændur, trillukarla og vörubílstjóra?