Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 22:59:53 (155)

1996-10-08 22:59:53# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[22:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú þetta með ríkisframlagið til Byggingarsjóðs verkamanna. Ekki fann ég upp á því að taka 400 millj. af fjárveitingum Byggingarsjóðs verkamanna til þess að færa yfir í húsaleigubætur. Það var ekki gert í minni ráðherratíð. (JóhS: Það var ekki gert, það eru 100 milljónir.) Það voru (Gripið fram í.) 400 milljónir sem heimilaðar voru úr fjárveitingu til Byggingarsjóðs verkamanna og ánafnað í húsaleigubætur. Eyddust ekki nema 200 af þeim og þeirri tölu hefur verið haldið. Varðandi það að hræða fólkið þá er það ekki ég sem fann upp á því. Þetta kerfi hefur bara gefist viðskiptavinum illa. (Gripið fram í: Nú?) Fjórðungur gesta á Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna býr í félagslegum eignaríbúðum. Það er athyglisvert að fjórðungur þeirra sem þangað hafa leitað er fólk sem er í félagslegum eignaríbúðum. Íbúðirnar urðu í mörgum tilfellum allt of dýrar og kemur niður á því að of dýrt er að búa í þeim jafnvel þó að vextirnir séu ekki háir.

Það er ekki verið að rýra kjör hinna atvinnulausu. Ég tel að ekki sé eðlilegt að gera það vegna þess að sú fjárhæð er í sjálfu sér ekki há sem greidd er. Hins vegar vænti ég þess að innan fárra daga geti ég lagt fram frv. um breytingar á Atvinnuleysistryggingasjóði.

Hvað varðar bændur og einyrkja þá er nefnd að störfum sem ég vona að skili innan fárra daga áliti og væntanlega á þá lund að stofna sérstakan sjóð fyrir einyrkja.