Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 23:02:36 (156)

1996-10-08 23:02:36# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[23:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á að þetta svar sem hæstv. ráðherra gaf um bændur og vörubílstjórana var nákvæmlega sama svar og hann gaf fyrir rúmu ári þegar hann var spurður að þessu --- að nefnd væri að störfum. Ég held að þetta sé ekki svo flókið mál. Þetta var ekki svo flókið þegar hæstv. ráðherra sem óbreyttur þingmaður var að kalla eftir leiðréttingum fyrir þessa hópa um atvinnuleysistryggingar. Þá var þetta ekki flókið mál. En nú er þetta búið að vefjast fyrir ráðherranum í meira en ár.

Mér finnst gaman að heyra að ráðherrann og hans flokkur, sem barðist hvað mest á móti húsbréfakerfinu á sínum tíma, telur það nú mjög gott og það sé orðið svo gott að meira að segja sé hægt að vísa öllu fólkinu í félagslega íbúðakerfinu yfir á húsbréfakerfið. Þetta er fagnaðarefni og mikil meðmæli með húsbréfakerfinu eins og skýrsla sýnir, sem við höfum farið í gegnum, að stendur mjög traustum fótum. Ég yrði mjög hrædd við það ef ráðherrann ætlar að reyna að laga fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs verkamanna með því að steypa saman Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna. Vegna þess að þegar Framsfl. kom nálægt Byggingarsjóði ríkisins á einu ári, 1986--1987, stefndi hann honum hraðfara í gjaldþrot svo tugum milljarða skipti. Ef hann ætlar núna að hrófla eitthvað við þessum sjóði, sem stendur mjög traustum fótum samkvæmt þessari skýrslu, og blanda fjárhagserfiðleikunum sem hann hefur búið til í Byggingarsjóði verkamanna, með svo skertum fjárlögum eins og hér eru lögð fram, þá væri ég hrædd um að hann stefndi honum einnig beinustu leið í gjaldþrot.

Í tengslum við Atvinnuleysistryggingasjóðinn verður grannt fylgst með því hvort verið sé að rýra kjör atvinnulausra í úthlutunarreglunum og ég tel nauðsynlegt að það liggi fyrir áður en fjárlögin verða afgreidd.