Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 23:06:18 (158)

1996-10-08 23:06:18# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[23:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Lagt hefur verið fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1997. Þetta er fjárlagafrv. með hallalausum ríkisrekstri og er það vel. Vonandi standast allar forsendur frv. þannig að þetta verði útkoman þegar upp er staðið en því miður hef ég grun um að ýmislegt geti raskað þeim forsendum eins og komið hefur fram í máli manna í dag.

Afborganir lána vega allt of þungt í ríkisrekstrinum og alvarlegt er að skila til afkomenda okkar og framtíðar miklum ríkisskuldum og að greiða svo háar afborganir lána eins og við gerum í dag. Við getum talað um ábyrgðarleysi eða allt að því siðleysi að velta vandanum áfram til komandi kynslóða hvað varðar ríkishalla til margra ára. Mikilvægt er að sýna aðhald í ríkisrekstri en það er ekki sama hvernig að aðhaldinu og niðurskurðinum er staðið.

Eftir samdráttarskeið sem hefur verið undanfarin ár er mikilvægt að fara varlega í að draga saman í þjónustunni við þá sem minna mega sín. Atvinnuleysi og skuldasöfnun heimila hafa sett spor á marga fjölskylduna. Velferðarkerfið þarf að verja eða það þjónustustig sem það hefur verið á á undanförnum árum. Í máli hæstv. fjmrh. kom fram að fólk gengi að því sem vísu að það ætti rétt á ákveðinni þjónustu. Þegar ákveðinni þjónustu hefur verið komið á eða byggð upp hlýtur að teljast eðlilegt að fólk gangi að þeirri þjónustu vísri og eigi rétt á þeirri þjónustu. Því ber að fara ákaflega varlega í að koma á mjög sérhæfðri þjónustu sem þjónar fáum einstaklingum og er dýr, bæði með því að koma henni á og í rekstri. Þegar einu sinni er búið að koma á þeirri þjónustu er mjög erfitt að draga í land og draga til baka.

Við breytingar eða niðurskurð á þjónustunni þarf að meta hvort sparnaður leiði af aðgerðinni þegar á heildina er litið. Lokanir deilda á sjúkrahúsunum í lengri eða skemmri tíma hafa velt kostnaði yfir á Tryggingastofnun ríkisins, sveitarfélögin og ekki síst yfir á heimilin. Heildarlyfjakostnaður hefur lítið sem ekkert lækkað, jafnvel staðið í stað. Töluverð vinna hefur verið lögð í að ná kostnaðinum niður en þegar upp er staðið hefur hann frekar aukist.

Á sama tíma og fólki er bent á, einstaklingum sem taka inn lyfin, læknum sem vísa á lyfin, lyfsölu sem selja lyfin að velja ódýrustu lyfin, er orðið frjálsræði í lyfjasölu og framboð á lyfjamarkaðnum er orðið miklu meira en áður og frekar verið að ýta lyfjum að einstaklingum en að draga í land.

Ég styð þær sparnaðarleiðir að draga úr vægi sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu svo dæmi sé tekið og þess í stað að byggja upp sterkara net heilsugæslu í landinu og félagslegrar þjónustu sveitarfélaganna. Við niðurskurð verður að taka tillit til byggðasjónarmiða ef þingmenn hafa áhuga á að halda byggð sem víðast í landinu. Niðurskurður einstakra embætta vegur misþungt eftir eðli embættanna og stöðu byggðanna eða svæðanna sem embættin hafa þjónað. Nefna má sem dæmi stöður yfirdýralækna. Þær eru mikilvægar í dreifbýlinu og sveitarfélögum um nær allt land. Ef stöður yfirdýralæknaembættanna verða lagðar niður á grundvelli samkeppnisaðstöðu við sjálfstætt starfandi dýralækna er eins víst að mörg héruð verða nú eða í framtíðinni án starfandi dýralækna þar sem rekstrargrundvöllur fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna er helst í nálægð þéttbýlisstaðanna og munar þá mest um þjónustu við gæludýrahald bæjarbúa. Fækkun stöðugilda ríkisfyrirtækja á höfðuðborgarsvæðinu hefði ekki sömu áhrif og niðurskurður einstakra embætta úti á landi. Má þar nefna stöður yfirdýralækna, sýslumannsembætta og löggæslu.

Niðurskurður til framhaldsskólanna er einnig byggðapólitísk ákvörðun. Fólksfækkun hefur verið viðvarandi í flestum fjórðungum, þ.e. fyrir utan höfuðborgarsvæðið og fækkunin hefur á sumum svæðum orðið svo mikil að mætti tala um byggðaröskun. Íbúar þessara svæða, svo og sveitarstjórnarmenn, hafa einna helst litið til nýsköpunar í atvinnulífinu og til eflingar menntun í fjórðungunum til að snúa þróuninni við og því hefur niðurskurður framlaga til framhaldsskólanna mun víðtækari áhrif en á skólareksturinn einn og sér. Niðurskurðurinn hefur áhrif á lífskraft íbúanna, á metnað þeirra, áhrif og von til bjartari framtíðar og öryggi til menntunar barnanna og til mannlegrar viðurkenningar þ.e. að eiga rétt á ákveðinni þjónustu og vera metinn að verðleikum, vera ekki annars flokks þjóðfélagsþegn.

Sem dæmi um framhaldsskóla má nefna Menntaskólann á Egilsstöðum sem tók við rekstri Alþýðuskólans á Eiðum fyrir ári. Eftir þetta eina ár hafa komið í ljós ýmis vandkvæði í rekstrinum, erfiðleikar vegna skorts á raunverulegu rekstrarfé og eins vegna þess að ekki hefur fyllilega verið staðið við greiðslur til viðhalds annars skólans, þ.e. Alþýðuskólans á Eiðum. Þetta óöryggi sem hefur skapast við skólahaldið vegna þessara aðgerða, sem vonandi fara vel og efla skólann þegar til lengri tíma er litið, hefur dregið úr skólahaldinu nokkurn mátt. Síðustu boðanir í fjárlagafrv. hafa komið mönnum á óvart, þ.e. þær aðgerðir að draga úr fjárframlögum til Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og síðan í framhaldinu að fella þann skóla undir menntaskólann miðað við stöðu skólans í dag, valda mönnum áhyggjum sem eðlilegt er. Hússtjórnarskólinn á Hallormstað hefur verið að eflast og vaxa. Mikil aðsókn er að þeim skóla og hann hefur verið stolt okkar á Héraði og veitt góða þjónustu og við höfum öll áhuga í mínu byggðarlagi á að hlúð verði að þeim skóla hvort sem hann verður áfram starfandi sem sjálfstæður skóli eða færður undir menntaskólann eins og til stendur. En forsendan er sú að nægilegt rekstrarfé fáist til skólahaldsins. Samrekstur menntaskólans, eins og hann hefur verið, með þessum tveimur fjarlægu skólum er erfiður með tilliti til heimavistar og fjarlægðar. Þess vegna er erfitt að nota einhverja staðla eða grunnstaðla eins og hér hefur verið bent á. Það þarf að líta á sérstöðu þessa skóla og annarra skóla sem til stendur að breyta starfseminni hjá. Skólahald menntaskólans er einn af þeim grunnum sem við byggjum á þ.e. að geta menntað okkar unga fólk upp menntaskólastigið og að það eigi þarna öruggan aðgang að skólunum. Það er ekki nóg að nægilegt framboð sé af húsnæði, góðum kennurum og skólastofum sem að vísu vantar, heldur þarf orðstír skólans að vera slíkur og metnaður, bæði frá skólanum og frá menntmrn. í garð þessa skóla að unga fólkið vilji sækja í heimabyggð en ekki fara í burtu.

[23:15]

Grunnskólinn er nú alfarið rekinn af sveitarfélögunum og þetta er eitt stærsta verkefni sem flutt hefur verið frá ríki til sveitarfélaganna. Það á eftir að koma í ljós á þessu fyrsta starfsári hvernig rekstrargrundvöllurinn er, en ég tel mikilvægt að skoða af fullri ábyrgð þær niðurstöður sem liggja fyrir eftir þennan fyrsta vetur, hvernig reksturinn er, hvort nægilegu fé hefur verið varið til skólanna, þannig að þeir standi undir þeim kröfum sem gerðar eru í grunnskólalögunum í dag og sérstaklega þá rekstrargrundvöll minnstu skólanna og þeirra sem reknir eru af sveitarfélögum með íbúafjölda frá 1--2 þús. Í sveitarfélögum af þeirri stærðargráðu, með íbúafjölda frá 1--2 þús. eru tekjur oft litlar, en kröfurnar orðnar jafnmiklar og þetta væri sveitarfélag með 5--15 þús. íbúa.

Flutningur ríkisfyrirtækja frá höfuðborginni út á land er viðkvæm aðgerð og það þarf að standa vel að þeim flutningum. Því verður að setja almennar reglur um flutning ríkisstofnana svo að friður sé um flutninginn og að öryggi starfsmannanna sé tryggt. Það er hægara að fela sveitarfélögunum eða fyrirtækjum úti á landsbyggðinni einstök verkefni heldur en að fara út í að flytja ríkisfyrirtækin og það er hægt að gera miklu meira af því heldur en hefur verið gert fram að þessu. Með því að flytja ákveðið verkefni eru fyrirtæki styrkt bæði með verkefnum og ekki síður með aukinni þekkingu sem við þurfum sérstaklega á að halda til þess að vera svo samkeppnisfær í að fá til okkar ný atvinnutækifæri.

Heildarniðurskurður í vegaframkvæmdum kemur til með að bitna harkalega á framkvæmdum úti á landi því að þeim stórframkvæmdum sem nú eru í gangi í vegamálum hér á höfuðborgarsvæðinu er ekki nærri lokið og miðað við þann niðurskurð sem boðaður er til vegamála er ljóst að aðrar nýframkvæmdir verða skornar niður. Það má flokka mig með þeim þingmönnum sem eru í vegavinafélaginu því að það er ekki bara á Vestfjörðum sem vegir eru lélegir eins og hefur verið lýst yfir af æðstu embættum að heldur þarf hreinlega að klára að byggja upp hringveginn. Það er af því sparnaður og það er af því byggðaröryggi, og er hægt að nefna mörg dæmi því til sönnunar, en vilji menn endilega hafa einhverjar hagkvæmnistölur þá er mjög auðvelt að reikna það út líka. Meira að segja hvað varðar þann fiskflutning sem fer um þjóðvegi landsins er hægt að reikna hvað bundið slitlag mundi lækka kostnað við hvert kíló á fiski í þessum flutningum fram og til baka. Svo væri það annað mál að ræða um fiskflutninga á þjóðvegum landsins.

En það eru aðrar stórframkvæmdir en vegaframkvæmdir áætlaðar á höfuðborgarsvæðinu sem eru það stórar í sniðum og fjárfrekar að þær munu hafa áhrif á byggð í landinu. Það er gefið mál að fólk mun líta til þeirra atvinnutækifæra sem hér bjóðast og hefur það enn frekar áhrif á byggðarþróun. Einhverjar markvissar aðgerðir verða að koma frá ríkisvaldinu til þess að sporna þar á móti. En hvar á að fá fjármagn til að halda uppi sama þjónustustigi eða komast hjá niðurskurði í mikilvægum málaflokkum? Ein leið, hæstv. fjmrh., væri að taka á skattsvikum, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Aðrar leiðir ætla ég ekki að nefna til viðbótar. Það hefur verið bent á nokkrar í dag, en ég held að ástæða sé til að ítreka þessa leið enn og aftur.