Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 23:23:14 (159)

1996-10-08 23:23:14# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[23:23]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það var einu sinni talað um sjálfshól í þessu samfélagi sem einleik á glansmynd. Hér hefur verið flutt þetta gamalkunna tónverk á glansmynd af talsmönnum ríkisstjórnarinnar og það er sérstaklega athyglisvert að hlusta á t.d. ræður þingmanna Framsfl. sem eru ekki búnir að sitja í ríkisstjórn nema eitthvað á annað ár, held ég, og þeir hafa þegar byrjað að þakka sér fyrir nýju starfstækifærin sem hafa orðið til á þessum tíma og þakka sér fyrir þann mikla árangur í ríkisfjármálum sem þeir telja að þeir hafi náð. Ég veit satt að segja ekki, herra forseti, hverju svona málflutningur á að þjóna. Á hann að þjóna því að reyna að berja kjarkinn í hina vansælu liðssveit Framsfl. sem innst inni sér eftir því að hafa myndað þessa stjórn með Sjálfstfl. eins og gert var vorið 1995, þegar fyrir lá að það var unnt að mynda stjórn félagshyggjuflokkanna? Af hverju er það sem ágætir og greindir og prýðilegir þingmenn Framsfl. tala eins og það hafi algerlega skipt um á öllum sviðum um leið og þeir komu upp í Stjórnarráð? Þetta eru sömu menn, eins og hæstv. iðnrh., sem fyrir einu og hálfu ári fluttu vægt til orða tekið, með leyfi forseta, dómadagspredikanir um að allt væri að fara þangað sem er eiginlega óímunnberanlegt samkvæmt þingsköpum. Núna hefur allt lagast. Atvinnutækifærum fjölgar stöðugt þannig að Framsfl. óttast það mest að þau verði of mörg miðað við kosningaloforðin. Það er helsti höfuðverkur Framsfl. um þessar mundir. Jafnvægið í ríkisfjármálum, það er allt Framsfl. að þakka ef tekst að ná því. Og ég endurtek, hæstv. forseti: Hvað veldur því að framsóknarmenn reyna að telja sér og öðrum trú um það að þetta sé í raun allt þeirra verk sem er jákvætt en allt sem kann að vera neikvætt er verk einhverra annarra?

Mér fannst t.d. hv. þm. Siv Friðleifsdóttir alveg ótrúlega vel prógrammeruð, ef ég má nota það orð, með leyfi forseta, fyrr í kvöld þar sem hún hældist um á hæl og hnakka yfir því hvað framsóknarmönnum hefði tekist margt og mikið í þessari ríkisstjórn. Staðreyndin er hins vegar sú, hæstv. forseti, að framsóknarmenn hafa verið í þessari ríkisstjórn eins og þægir embættismenn í vinnu hjá Sjálfstfl. Eins og þægir embættismenn, flatneskjan uppmáluð á flestum sviðum nema þegar kemur að hæstv. félmrh., sem af og til bregður fyrir sig skemmtilegum hlutum og snertur af því heyrist stundum í hæstv. heilbrrh. Að öðru leyti er þetta svipurinn hjá Framsfl., þetta er eins og embættismannastjórn, sá hluti ríkisstjórnarinnar sem er í Framsfl. Þeir sem stjórna eru hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh.

Förum aðeins yfir hvað það er sem menn eru að hæla sér af. Það er í fyrsta lagi að búið sé að ná þessum mikla árangri í ríkisfjármálum, hallalaust fjárlagafrv. er lagt fram og það er talað um það sem einhvern gríðarlegan árangur og ávinning ríkisstjórnarinnar. Þetta er fölsun. Það hefur ekkert verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar sem stuðlar að þessum hallalausu fjárlögum. Ekki neitt, bókstaflega ekki neitt. Eins og fram kom heyrði ég nýlega í sjónvarpsviðtali við hv. 5. þm. Vestf. að hér er að mörgu leyti um að ræða hluti sem koma annars staðar að.

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1996 segir svo á bls. 26, með leyfi forseta:

,,Á tekjuhlið er nú gert ráð fyrir allt að 3--3,5 milljörðum kr. meiri tekjum en í fjárlögum ársins sem skýrist að mestu af betri efnahagshorfum en reiknað hafði verið með.`` Og síðan segir, með leyfi forseta, á sömu síðu: ,,Á fjárlögum A-hluta ríkissjóðs fyrir árið 1996, sem er á greiðslugrunni, var gert ráð fyrir 4 milljarða kr. tekjuhalla, eða ríflega helmingi minni tekjuhalla en árið 1995.``

Veruleikinn er með öðrum orðum sá, og það er vottað af Þjóðhagsstofnun, að því er fyrst og fremst um að þakka að það eru almennt séð betri efnahagshorfur í þjóðfélaginu en menn höfðu gert ráð fyrir áður. Og þessar almennu efnahagshorfur eru ekki ríkisstjórninni að þakka eins og ég get reyndar rakið og mun rekja aðeins nánar í ræðunni. Það er því nauðsynlegt fyrir talsmenn stjórnarflokkanna að gera sér grein fyrir því að þeir eru að blekkja sjálfa sig a.m.k. með því að halda fram málflutningi af því tagi sem þeir hafa gert hér í kvöld og í dag, einkum sumir talsmenn Framsfl. Þar er það átakanlegast að hlusta á ræðuhöld af þessu tagi.

Hvar eru nýju störfin sem verið er að tala um? Það er verið að tala um 1.500 manns sem bætist við. Hvar er þessi hópur? Hann er að sjálfsögðu út um allt þjóðfélagið. En þar er m.a. um það að ræða að menn gera ráð fyrir því t.d. þegar horft er á ný störf fram til aldamóta að við bætist um 7% á ári í tekjur af erlendum ferðamönnum á næstu árum. Þetta er í þjóðhagsáætlun. Það er gert ráð fyrir því að útflutningurinn á ári aukist almennt um 3,5% og talsverður hluti af því er ál þegar kemur fram undir aldamótin. Og það er gert ráð fyrir því þegar kemur fram undir aldamótin að talsverður hluti af batanum sem menn eru að horfa á fram í tímann sé vegna aðeins batnandi viðskiptakjara á nýjan leik. Það kemur líka í ljós hvar batinn er á þessum tíma sem menn eru núna að horfa í á milli áranna 1995 og 1996. Hvar er hann? Hann er í sjávarútveginum. Þar eru menn að tala um bata í heildartekjum upp á um það bil 7%, 7% í sjálfum sjávarútveginum á milli áranna 1995 og 1996. Og það er verið að tala um það að útflutningsverð á áli hafi hækkað um 16,5% og muni halda áfram að hækka til ársins 1997 um 16,5%. Er það ríkisstjórninni að þakka? Er það Framsfl. að þakka að verð á áli hækkar? Með leyfi forseta, allt þetta tal og þessi einfeldningslega uppsetning er ekki við hæfi af jafnmætum mönnum og mörgum þeim þingmönnum, aðallega Framsfl., sem hafa borið þetta fyrir sig.

Veruleikinn er sem sagt þessi: Það eru utanaðkomandi aðstæður, m.a. í sjávarútveginum, í ferðamannaiðnaðinum og í álinu m.a. sem hafa gert það að verkum að hér eru menn að tala um fleiri atvinnutækifæri. Það hefur ekkert með það að gera að þessir þægu fimm embættismenn Framsfl. hafa verið í vinnu uppi í Stjórnarráði hjá íhaldinu núna í eitt og hálft ár. Það kemur málinu ekkert við.

[23:30]

Hv. þm. Ágúst Einarsson sagði að þessi bati hefði náðst þrátt fyrir ríkisstjórnina. Það getur vel verið að það sé rétt og ég væri út af fyrir sig til í að fara aðeins yfir það. En það er alla vega alveg ljóst að hún hefur ekkert til að hælast af í þessu efni. Ekki neitt. Og þess vegna taldi ég nauðsynlegt núna í lok umræðunnar að greina það aðeins hvað hér er á ferðinni. Það hefur ekkert gerst af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Það eru ytri aðstæður sem leiða það af sér að störfum fjölgar og fjárlagafrv. er í jafnvægi. En hvort fjárlögin verða í jafnvægi ætla ég svo að tala um á eftir. Það dreg ég stórlega í efa eins og þetta dæmi er sett upp.

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1997, sem hefur verið lögð fram með fjárlagafrv. og stefnuræðu forsrh., er prýðilega farið yfir þessa hluti, m.a. fjármunamyndunina á árunum 1995, 1996 og 1997. Það er ekki síst hún sem er að aukast dálítið. Milli áranna 1995 og 1996 eykst fjármunamyndunin um u.þ.b. 20 milljarða kr. Það er þó nokkuð, hún fer úr u.þ.b. 70 í 90. Hvar er þetta? Það er í fyrsta lagi í fiskveiðum, úr 2,1 milljarði í 5,4 milljarða kr. Í öðru lagi er það vinnsla sjávarafurða úr 3,2 milljörðum í 4 milljarða kr. Síðan er það ál í 7 milljarða kr. á árinu 1996 og 7 milljarða kr. á árinu 1997. Síðan eru hækkanir á rafvirkjunum og rafveitum sem eru afleiðing af ákvörðunum sem hafa verið teknar á iðnaðarsviðinu og ég mun koma að á eftir. Þá er nokkur hækkun á verslunarhúsnæði og skrifstofuhúsnæði, um u.þ.b. 700 millj. og svo er veruleg hækkun á liðnum tölvur og skrifstofubúnaður, hækkun upp á u.þ.b. 1 milljarð kr. Svo er hækkun á samgönguliðnum sem skýrist ekki síst af þeim framkvæmdum sem þar eru og hafa verið í gangi.

Allir sjá, hæstv. forseti, að ekkert af þessu er þannig að núverandi ríkisstjórn hafi ráðið úrslitum um það. Ekki neitt, bókstaflega ekki neitt. Það er alveg sama hvernig menn lesa þessa hluti, það er ekkert þeim að þakka. Hér er um að ræða veruleika, staðreyndir sem eru þjóðinni að þakka, m.a. því hvernig hún hefur tekið á sínum efnahagsvandamálum á undanförnum árum. (SJS: Það er að vísu eitt starf í Lúxemborg sem er ríkisstjórninni að þakka.) Það er á árinu 1997.

Ég ætla aðeins að víkja að álinu, sem er það sem menn ætla aðallega að hæla sér af, það er álið, ég sé það á öllu, það er stækkunin í Straumsvík. Menn eru að gera sér vonir um það að geta stækkað Grundartangaverksmiðjuna kannski. Það lítur aðeins lakar út með það en búist var við, en það gæti farið að hreyfast. Og menn eru líka að tala um að byggja verksmiðju fyrir fyrirtækið Columbia Ventures Corporation ef samningar takast þar. Um það veit enginn neitt í dag. En er þetta Framsfl. alveg sérstaklega að þakka --- eða kenna ef menn vilja horfa þannig á það, að þetta er að koma? Hver er veruleikinn í þessum málum?

Veruleikinn að því er varðar stækkun Ísals er fyrst og fremst sá að menn virkjuðu Blöndu í ótíma og lágu með magn af ónothæfri raforku í stórum stíl sem ekkert fékkst fyrir og gátu þess vegna notað til að beita fyrir eigendur Ísals í þessu sambandi. Hver er veruleikinn í sambandi við stækkunina á Grundartanga eða Columbia Ventures Corporation? Af hverju geta hugsanlega náðst samningar þar? Er það Framsfl. að þakka? Hefur Framsfl. eitthvað sérstaklega með það að gera að það er til Nesjavallavirkjun? Ég veit satt að segja ekki betur en Framsfl. hafi verið þverari í því máli heldur en flestir aðrir stjórnmálaflokkar og er þá langt gengið og þá man ég meira að segja eftir mínum flokki. Þannig er uppsetning mála af þessu tagi eins og menn gera hér auðvitað algerlega út í hött. Hún er barnaskapur, hún er vitleysa og hún afvegaleiðir stjórnmálaumræðuna því að stjórnmálaumræðan á að snúast um alvörustaðreyndir.

Síðan kemur það upp, hæstv. forseti, að þessi árangur í ríkisfjármálum sé svona vegna þess að menn hafi náð því að spara svo mikið. Og eins og menn vita höfum við alþýðubandalagsmenn verið þeirrar skoðunar að það væri sjálfstætt efnahagslegt keppikefli að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Við sýndum það m.a. þann tíma sem við fórum með þessi mál, t.d. þegar hv. þm. Ragnars Arnalds var fjmrh. Við höfum lagt mjög mikla áherslu á það að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálum. Við teljum það pólitískt mikilvægt, efnahagslegt keppikefli. En við teljum að það eigi ekki að ná því með því að skrúfa beddana undan gömlu fólki og henda því út á götu. Okkur er með öðrum orðum ekki sama hvernig það er gert, en við teljum mikilvægt að freista þess eins og kostur er. Ég held að það sé ómögulegt að neita því að í þau skipti þegar við höfum verið í ríkisstjórnum höfum við haldið þannig á málum með ábyrgum hætti í okkar málflutningi, en ábyrgðin getur ekki bara verið gagnvart því að sýna jöfnuð í tölum. Ábyrgðin er líka gagnvart gamla fólkinu sem verið er að henda út úr Arnarholti þessa dagana svo ég nefni dæmi.

Tökum einn þáttinn sem búið er að fjargvirðast hér um í hverri einustu fjárlagaumræðu í sex ár, það eru lyfin. Ég hef ekki tölu á öllum þeim reglugerðum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gaf út í sambandi við lækkun á lyfjakostnaði. Það mátti heita eiginlega bara nokkurn veginn regluleg útgáfa. Einu sinni í viku eða svo mátti heita víst að kæmi reglugerð frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að lækka lyfin. Það vill svo til að um síðustu helgi var ég fenginn til þess að tala um lyfjamál á fundi lyfjafræðinga austur í Hveragerði og þá fór ég að fara yfir þessa hluti og mig eiginlega rak alveg í rogastans. Því það kemur á daginn, hæstv. forseti, að lyfjakostnaðurinn hefur haldið áfram að hækka mjög verulega. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1997 er gert ráð fyrir því að lyfjaútgjöld Tryggingastofnunar ríkisins verði 3.600 millj. kr. en yrðu að óbreyttu --- hvað? 4.000 millj. kr. Og það er algjörlega opin ávísun og í raun algjörlega óljóst hvernig menn ætla að ná niður þessum mun úr 4.000 í 3.600 millj. kr.

Nú er ég ekki að segja það hér, hæstv. forseti, að þetta sé létt verk. Ég er ekki að því. Þannig háttar til, og birtar hafa verið um það rannsóknir, að gera megi ráð fyrir því miðað við reynslu undanfarinna ára að lyfjakostnaður hækki á hverju ári vegna nýrra lyfja og vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, um 13%, segir lyfjasérfræðingur heilbrrn. En í sumum löndum, t.d. í Danmörku, eru menn stundum að tala um að þessi tala sé varla undir 15% þannig að ef við værum komin í það að vera með lyfjakostnaðinn upp á 4.000 milljónir, þá værum við að tala um að þessi hækkun, bara þessi sjálfvirka hækkun, væri á ári upp á hálfan milljarð, sem er gríðarlega há og erfið tala.

Hæstv. fyrrv. heilbrrh. kaus þá leið að fara fyrirskipanaleiðina í þessu efni og hann fór illa að heilbrigðisstéttunum. Hann gerði það. Ég get ekki neitað því að mér fannst hann gera það og ég held að það sé almennt mat manna þó að menn séu fljótir að gleyma, sem betur fer fyrir hann, og ég held ég hafi jafnvel séð þess getið í einu blað að menn sakni hans og þá er nú langt gengið, en svona er nú lífið. Það er kannski það eina sem stjórnmálamenn geta stundum huggað sig við að þjóðin sé gleymin. En veruleikinn er sá að það hefur ekki tekist að ná þessu niður. Á árinu 1990, ef ég man rétt, voru útgjöld til lyfjamála 2.600 millj. kr. Segjum að síðan hafi orðið u.þ.b. 20% verðlagshækkanir og miðað við það ættu útgjöldin að vera núna í kringum 3.100 millj. kr. Veruleikinn er sá að á næsta ári yrðu þau að óbreyttu 4.000 millj. kr. eða 28% hærri en þetta og það segir þó ekki alla söguna, því miður, hæstv. forseti, vegna þess að það er búið að hækka stórkostlega lyfjakostnaðarhlutdeild almennings. Og ef við tökum lyfjakostnaðarhlutdeild almennings með inn í þetta dæmi, þá er raunkostnaður á lyfjum, hækkunin frá 1990--1997 sennilega í kringum 55%. Það er hrikaleg tala. Hún er bæði kostnaðaraukning Tryggingastofnunar ríkisins og hún er líka hækkunin á hluta sjúklinganna, en hlutur þeirra hækkaði á síðasta kjörtímabili úr 18% í 32% og bara það eitt og sér gerir um það bil 800 millj. kr. eða tæplega 80% hækkun. Hér er því um hrikalegan hlut að ræða. Og þá segi ég við hæstv. fjmrh.: Ég dreg það í efa að þið náið þessum 400 millj. sem þarna er verið að tala um. Vegna þess að ég sé ekki að hlutirnir séu settir niður með skýrum hætti. Ég er ekki að hvetja til þess að sá reglugerðakækur sem tíðkaðist í síðustu ríkisstjórn verði tekinn upp aftur, þessi vikulegi reglugerðakækur, heldur er ég að hvetja til þess að farið verði öðruvísi í málin.

Það er sem sagt ljóst að u.þ.b. 200 millj. af þessari hækkun eru væntanlega vegna nýrra lyfja miðað við þær formúlur sem notaðar eru. 200 eru væntanlega vegna þess að þjóðin er að eldast og viðbótin er vegna þess að um er að ræða raunverðhækkun á lyfjum sem hefur gengið yfir um langt árabil. Það er alveg ljóst að þessi innbyggða hækkun á lyfjaverði er ekki í skattgreiðsluvilja landsmanna. Það er ekki innbyggð hækkun í skattagleði þjóðarinnar. Við getum verið misjafnrar skoðunar á því. Ég er sjálfsagt skattaglaðari en hæstv. fjmrh. en í það heila tekið lendum við með þessa hluti á ákveðnum stað og það er greinilegt að skattavijinn eykst ekki í takt við lyfjakostnaðinn. Það er alveg greinilegt, hvað sem öðru líður. Þess vegna er flókið að taka á þessum málum en á þeim verður að taka. En menn mega ekki grípa til annarra ráðstafana í heilbrigðismálum, og þá kem ég að núv. hæstv. heilbrrh., sem hækka lyfjareikninginn og það eru lokanirnar. Það liggur fyrir að lokanirnar, aðallega á hjúkrunardeildunum og hjá gamla fólkinu, hafa hækkað lyfjareikninginn. Það sem ég er að hvetja til í sambandi við lyfin og önnur heilbrigðismál er að menn horfi á þetta í samhengi.

Við þingmenn Alþb. og óháðra flytjum t.d. tillögu um það að lækka og fella niður heilsugæslugjöldin sem slík. Ég er ekki viss um að það þýði í raun mikinn kostnaðarauka vegna þess að ég geri ráð fyrir því að á sama tíma mundu sérfræðingaútgjöldin minnka. Þarna styðjumst við við reynslu sem fékkst í ríkisstjórninni þegar Guðmundur Bjarnason, hæstv. ráðherra, var heilbrrh. að þá gafst þessi aðferð nokkuð vel. Við viljum að horft sé á þetta allt í heild og þá held ég að það komi árangur og sparnaður líka, m.a. í lyfjamálunum.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara að ræða það í einstökum atriðum hvernig við gætum hugsanlega tekið á eða mætt vandamálum eins og þeim gríðarlegu breytingum sem eru að verða á lyfjunum að mörgu leyti. Lyfjameðferð með lyfinu interferon kostar ægilegar fjárhæðir. Hver á að taka ákvörðun um að stoppa þær fjárhæðir? Hver á að taka ákvörðun um að lækka þær fjárhæðir? Í okkar heilbrigðislögum stendur að allir landsmenn eigi rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Í raun og veru standa mál þannig að ekki einu sinni heilbrrh. gæti neitað því að lyfið interferon yrði notað á sjúklinga ef læknar viðkomandi teldu það óhjákvæmilegt þannig að þarna stöndum við frammi fyrir gríðarlega flóknum hlutum. Eins er það með mörg nýju lyfin eins og menn þekkja sem hafa kynnst aðeins rekstri sjúkrahúsanna, t.d. Ríkisspítalanna. Þar hefur það komið fyrir aftur og aftur og þrátt fyrir mjög stranga áætlanagerð að menn hafa lent í því að komið hafa inn ný lyf sem hafa hleypt upp rekstrarreikningi Ríkisspítalanna --- á einu ári man ég eftir fyrir fáeinum árum upp á einar 20 millj. kr., það var lyf sem hentaði sérstaklega vel við meðferð á nýburum. Þannig mætti lengi telja. Málið er því flókið og ég er ekki að gera lítið úr því heldur er ég að segja að ég tel að þessi 400 millj. kr. ásetningur í fjárlagafrv. sé skot út í loftið, það sé ekkert á bak við það og þess vegna sé ekki hægt að tala um að þar sé um að ræða öruggar tölur.

[23:45]

Annað sem ég ætla að nefna, hæstv. forseti, sem ég tel að sé ekki stórt en sýni ótrúlegt óraunsæi í sambandi við áform um tekjuöflun og það eru tillögurnar um sértekjur í framhaldsskólum. Hafa hv. þm. flett upp í greinargerð fjárlagafrv. á bls. 293? Samkvæmt því sem þar kemur fram á að taka inn í sértekjur í framhaldsskólum 304,2 millj. kr., hækka það um 36,8 millj. kr. Það er ansi mikil hækkun hjá þessum hópi sem er í framhaldsskólunum og hún er tilfinnanleg. Við þekkjum dæmi þess og þeir sem þekkja forustumenn framhaldsskóla vita að stundum er mjög erfitt fyrir fjölskyldurnar að borga þessa peninga. En það kemur í ljós á bls. 293 að ríkisstjórnin ætlar að ná sér í 30 millj. kr. með því að leggja 1.500 kr. á hvert endurtekningarpróf. Hún ætlar að taka 2.500 kr. fyrir hvert endurtekningarprófið í áfangakerfinu og 1.000 kr. í bekkjakerfinu. Ef menn kynntu sér hvernig hlutum er hagað í áfangakerfinu, þá finna menn það fljótlega út að þetta er algerlega óframkvæmanlegt, fyrir utan það náttúrlega að vera að gera nemendur almennt að skattstofni, þá er þessi leið vitlaus. Það er því algjörlega útilokað að þessir peningar náist inn sem eru að vísu ekki há upphæð en þeir eru dæmi um að það vantar í dæmið hjá hæstv. ráðherra fjármála.

Þriðja dæmið sem ég nefni svo að síðustu, hæstv. forseti, er sjúkrahúsin í Reykjavík. Allt þetta ár, 1996, hefur heilbrrh. staðið í stríði við fjmrn. um það að fjmrn. viðurkenndi staðreyndir í sambandi við rekstur sjúkrahúsanna í Reykjavík. Og það var ekki fyrr en komið var fram í ágústmánuð að fjmrn. lét undan og samþykkti 500 millj. kr. og það hefur enginn upplýst mig um það enn þá af hverju fjmrn. sá allt í einu ljósið í ágúst en ekki miklu fyrr vegna þess að þessi upphæð lá fyrir allt árið 1996. Nú er greinilega stefnt inn í árið 1997 með nákvæmlega sama vanda á sjúkrahúsunum í Reykjavík. Það er augljóst. Og ég spái því að þegar kemur fram á árið 1997 muni hæstv. heilbrrh. reyna að fá fjmrh. til að sjá ljósið í þessu máli og ég vona að henni takist það fyrr en á árinu 1996. Raunin er sú að sú aðstaða sem stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur var sett í í þessu máli var algjörlega hrakleg.

Með þessum tveimur dæmum, hæstv. forseti, annars vegar um lyfin og hins vegar um Sjúkrahús Reykjavíkur tel ég mig hafa sýnt fram á það og fleiri dæmi gæti ég tínt til en þau eru minni, að í heilbrrn. vanti sennilega í kringum 1.000 millj. kr. Ég hef einnig aðeins skoðað menntmrn. og að því er varðar þessa tegund af gjaldtöku, þá er um að ræða óraunsæjar forsendur sem ég nefndi áðan, en það er lítil upphæð. Mér sýnist að í grófum dráttum geti menn ímyndað sér að gjaldamegin sé um að ræða gat sem er a.m.k. talsvert á annan milljarð kr. Þess vegna er ekki allt sem sýnist. Þess vegna er glansmyndin ekki sú sem hæstv. fjmrh. hefur reynt að draga upp, sem hann hefur kennt þingmönnum Framsfl. og einum og einum þingmanni Sjálfstfl. að trúa á. Það kemur í ljós að það er engin innstæða fyrir þessum predikunum hæstv. fjmrh.

Svo bætist eitt við: Það eru kjarasamningar í haust. Það er óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir því að þeir kjarasamningar verða ekki leiddir til lykta án þess að Alþingi og ríkisstjórn komi þar til skjalanna. Við alþýðubandalagsmenn höfum bent á margar leiðir í þeim frumvörpum um lífskjör og málefni fjölskyldunnar sem við höfum lagt fram að undanförnu. Þarna er um að ræða stórverkefni sem eru þess eðlis að þegar þetta er tekið, annars vegar kjarasamningarnir og hins vegar götin í áætlanagerðinni í heilbrrn., svo ég nefni ekki fleira, og mér sýnist augljóst að hér sé um að ræða glansmynd sem ekki skili því sem hún þarf að skila til þjóðarinnar.

Framtíðin er björt, segja þeir framsóknarmenn. Þeir eru búnir að sitja í ríkisstjórn í 18 mánuði og þeir eru búnir að breyta þessu öllu. Þeir eru búnir að fjölga mikið atvinnutækifærum, framsóknarmennirnir. Þeir eru búnir að ná mikið niður hallanum á ríkissjóði, framsóknarmenn. (Gripið fram í.) Hæstv. félmrh. er búinn stórminnka atvinnuleysið og hann sagði reyndar hér áðan: ,,Þegar ég tók við var atvinnuleysið 7%, núna er það 3,5%.`` Það var því útilokað annað en að skilja það þannig að hann þakkaði sér það a.m.k. sjálfur að hann væri búinn að kýla niður atvinnuleysið. Og væri nú betur sá kraftaverkamaður staddur hér vegna þess að svoleiðis eru hlutirnir nefnilega ekki að atvinnuleysið sé farið, því að jafnframt því sem menn horfast í augu við þann veruleika að atvinnuástandið sé kannski að batna, þá horfast menn líka í augu við þann veruleika, og verða að sjá hann eins og hann er, að gert er ráð fyrir því að 5.000 manns verði atvinnulausir á hverju einasta ári til aldamóta. Það er með öðrum orðum talað um að það vanti 25 þúsund ársverk til aldamóta, 25 þúsund ársverk til þess að hver einasti vinnufær maður í landinu hafi eitthvað fyrir sig að leggja. Það er hrikaleg framtíðarsýn. Það hefur engin ríkisstjórn áður birt þjóðinni þá framtíðarsýn að hún eigi að búa sig undir það að vera með slíkt atvinnuleysi um margra ára skeið. Og það bætist við, hæstv. forseti, að í þjóðhagsáætluninni fyrir árið 1997 kemur fram að verulegur hluti af þessu atvinnuleysi, eða u.þ.b. einn þriðji, er hjá fólki sem er atvinnulaust í sex mánuði eða lengur. Það er langtímaatvinnuleysi eins og það er kallað á tæknimáli sem fólk notar stundum um þessi mál. Það er ljótur hlutur og það er spurning hvort það gæti kannski augnablik truflað þennan undarlega einleik á glansmynd sem hæstv. fjmrh. hefur kennt stjórnarliðinu að syngja í þessum umræðum, en verður vonandi fljótlega lát á áður en þeir ganga á vegginn.