Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 13:59:22 (175)

1996-10-09 13:59:22# 121. lþ. 5.2 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[13:59]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla að víkja að athugasemdum og spurningum sem komu fram í ræðu hv. 13. þm. Reykv. Fyrstu spurningar hv. þm. lutu að 4. mgr. 1. gr. frv., þar sem fjallað er um sérstaka áritun, og þingmaðurinn velti því fyrir sér hvort þarna væri um að ræða formsatriði sem hugsanlega gæti leitt til misnotkunar. Ákvæðið er sett inn í þeim tilgangi að styrkja þessa framkvæmd og draga úr því að misnotkun eigi sér stað. Það er tilgangur þessara ákvæða og ég vænti þess að verði frv. að lögum þá muni þau hafa áhrif í þá veru.

Hv. þm. spurði hverjir skipa prófnefndina sem frv. gerir ráð fyrir. Í frv. er ekki gert ráð fyrir að það sé skilgreint sérstaklega heldur velur ráðherra þrjá menn til að sitja í nefndinni. En engar sérstakar reglur eru um hverjir það eru eða úr hvaða röðum þeir koma sem í nefndinni skulu sitja.

Hv. þm. fjallaði um það ákvæði frv. sem lýtur að tryggingum og tryggingarfjárhæðum. Við samningu þessa frv. var tekið mið af sambærilegum ákvæðum sem eru í núgildandi lögum um lögmenn. Þær tryggingarfjárhæðir sem eru nefndar taka mið af þeim ákvæðum. Mat manna hefur verið að hér væri um að ræða eðlilegar tryggingarupphæðir sem eiga að ná til flestra þeirra tilvika sem upp geta komið og veita nægjanlega vernd. Auðvitað getur það verið matsatriði hverjar þessar tryggingar eiga að vera og hversu háar fjárhæðir gera á kröfur um. En við verðum líka að hafa í huga að því hærri sem tryggingarnar eru því meiri er kostnaðurinn við sölu fasteignanna. Hann kemur auðvitað niður á neytendum líka þannig að það er mjög mikilvægt að finna tryggingarfjárhæðir sem teljast vera eðlilegar. Sama má segja um ákvæði varðandi ásetning og gáleysi. Þar er einnig tekið mið af ákvæðum í lögum um lögmenn.

Ég lít ekki svo á að heimildarákvæðið um að stofna útibú feli á nokkurn hátt í sér opnun á að misnota ákvæði laganna sem eiga að tryggja hagsmuni neytendanna. Þvert á móti er verið að opna fyrir að neytendur eigi greiðari aðgang að slíkri þjónustu í heimabyggð sinni og ábyrgð fasteignasala sem í hlut á er með öllu óbreytt þó að hann setji upp útibú.

Hvað varðar spurningu hv. þm. um hvaða atriði það eru sem sett verða inn í reglugerð um söluyfirlitið þá hafa ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir þar um og verða ekki teknar fyrr en reglugerðin verður gefin út. Ég hef reiknað með að þar verði um að ræða svipuð eða sambærileg skilyrði og gilda í dag.

Hv. þm. vék að því ákvæði sem felur í sér eina af meginbreytingunum frá núgildandi löggjöf, þ.e. að niður fellur ákvæðið um hámarkssöluþóknun. Hér er verið að koma til móts við samkeppnislögin og ákvæði þeirra. Samkeppnisyfirvöld hafa litið svo á að í þessari starfsemi sé fyrir hendi nægjanleg samkeppni og hún eigi að tryggja hagsmuni neytenda betur en ákvæði gildandi laga.

Hvað varðar eftirlit með verðsamráði þá liggur í augum uppi að eftir breytinguna fellur það undir valdsvið Samkeppnisstofnunar að hafa eftirlit með þessum þáttum. Eftir það gilda ákvæði samkeppnislaga að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögunum, að aðilum er skylt að gera samning fyrir fram sín á milli áður en fasteignin er tekin til sölu. Eftirlit með verðsamráði er því á höndum Samkeppnisstofnunar þegar frv. er orðið að lögum.

Varðandi það atriði sem fram kom hjá hv. 16. þm. Reykv. felur frv. ekki í sér breytingar á gildandi lögum varðandi sölu hlutabréfa.

Ég held, herra forseti, að ég hafi vikið að flestum þeim álitaefnum sem hafa komið upp í umræðunni.