Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:15:10 (178)

1996-10-09 14:15:10# 121. lþ. 5.2 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi 5. gr. sem mér hefur orðið tíðrætt um þá er náttúrlega ljóst af svörum ráðherrans að nefndin verður að fara mjög vel ofan í það hvað felst í þessari skaðabótaábyrgð og eins varðandi fjárhæðirnar. Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir. Ég tel að dæmin sanni að það þurfi að fara mjög ítarlega ofan í þennan þátt málsins.

Hæstv. ráðherra nefndi ekki hvort hann væri tilbúinn til þess sem ég fór fram á við hann, að kynna nefndinni drög að reglugerð um hvað mundi vera í söluyfirliti, svo ég ítreka þá spurningu. Ég held að við þurfum að gera miklu meira af því þegar við erum raunverulega að framselja vald til framkvæmdarvaldsins með heimild til reglugerðarsetningar þar sem lagaákvæðin eru mjög opin, að gera meiri kröfur til þess að framkvæmdarvaldið láti fylgja með frumvörpunum drög að reglugerð sem á að setja samkvæmt þeim lögum í þeim tilvikum þar sem það er hægt og ég tel að það hljóti að vera hægt í þessu tilviki.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra að reynslan verður að leiða í ljós hvaða afleiðingar það hefur að aflétta þessu þaki. En ég ítreka enn að ég óttast mjög að þetta muni hafa í för með sér að þóknun til fasteignasala muni hækka og kannski verulega.