Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:20:54 (181)

1996-10-09 14:20:54# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:20]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum sem stefnir að því að varsla barnakláms verði gerð refsiverð. Ég mælti fyrir þessu frv. í marsmánuði sl. en það var ekki afgreitt á því þingi. Frv. er nú lagt fram á nýjan leik en með nokkrum breytingum frá því sem áður var.

Það er nýjung í íslenskri refsilöggjöf að gera vörslu á efni með barnaklámi refsiverða, en slík lagasetning er í samræmi við alþjóðlega þróun á þessum vettvangi í viðleitni til að sporna sérstaklega gegn þessum óhugnanlega þætti klámiðnaðar í heiminum. Núgildandi íslenskt refsiákvæði um klám er í 210. gr. hegningarlaganna. Þar er fyrst og fremst lögð refsing við birtingu kláms á prenti og framleiðslu, innflutningi og sölu á klámefni, en nær hins vegar ekki til þess verknaðar eins að hafa myndefni með barnaklámi í vörslu sinni. Í 1. gr. frv. er þannig lagt til að ný málsgrein bætist við 210. gr. sem kveður á um refsingu fyrir slíkt athæfi.

Við framleiðslu efnis sem felur í sér barnaklám, svo sem við gerð myndbanda eða ljósmynda, er algengt að framin séu alvarleg kynferðisleg brot gegn þeim börnum sem taka þátt í myndatökunni. Hins vegar getur reynst erfitt að ná til þeirra sem framleiða slíkt efni sem dreift er á alþjóðlega vísu. Þannig er oft erfitt að rekja uppruna efnisins, til dæmis að finna þá einstaklinga sem tóku myndirnar eða áttu hlutdeild að því, svo og börnin sem myndirnar eru teknar af, og geta ýmis sönnunarvandamál komið upp í því sambandi. Eins getur framleiðsla farið fram á mörgum stigum svo sem að einn einstaklingur taki myndir en að þær séu framkallaðar og dreift í öðrum löndum. Markmið þess að gera vörslu á barnaklámi refsiverða er fyrst og fremst að ef ríki heims fallast almennt á að setja slíkt ákvæði í refsilöggjöf sína verði eftirspurn eftir slíku efni takmarkaðri og þar með dragi jafnframt úr kynferðislegri misnotkun barna í tengslum við framleiðslu þess.

Sambærilegum refsiákvæðum hefur þegar verið bætt inn í löggjöf Danmerkur og Noregs og er í undirbúningi í Svíþjóð, auk þess sem önnur ríki víða um heim hafa gert vörslu barnakláms refsiverða eða íhuga lagasetningu í þá átt. Þessi þróun er í samræmi við alþjóðlega samvinnu um úrræði til að uppræta barnaklám, en hvort heldur er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins eða Norðurlandaráðs hefur verið skorað á aðildarríki að gera vörslu á barnaklámi refsiverða í innanlandslöggjöf sinni.

Eins og lagt er til 1. gr. frv. er stefnt að því að hver sá sem hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skuli sæta sektum. Með þessu er ekki endilega gengið út frá að verið sé að fremja kynferðisbrot á barni og er nægilegt að kynferðislegt eða klámfengið yfirbragð sé á myndefninu til þess að það falli undir ákvæðið. Hins vegar falla eðlilegar nektarmyndir af barni utan gildissviðs ákvæðisins. Hefur skilgreining hér verið víkkuð frá því sem lagt var til í fyrra frv. um sama efni þar sem gert var að skilyrði að myndefni sýndi að kynferðisbrot væri framið á barni. Spannst nokkur umræða þegar það frv. var lagt fram sl. vor um að óeðlilegt væri að binda refsinæmi verknaðar við vörslur á svokölluðu grófu barnaklámi. En eins og ég nefndi og lýsti hér fyrr hefur skilgreining á myndefni sem refsivert er að hafa í vörslu sinni, verið rýmkuð. Síðari málsliður 1. gr. frv. um að sömu refsingu varði að hafa í vörslu sinni, ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á grófan klámfenginn hátt, er til fyllingar fyrri málsliðnum. Hér er í reynd um að ræða atriði sem talin eru í dæmaskyni, en myndu væntanlega falla undir almennu regluna í fyrri málsliðnum þar sem rætt er um efni sem sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.

Skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt 1. gr. frv. er að maður hafi efni með barnaklámi í vörslu sinni. Með vörslu á efni er ekki gert að skilyrði að maður eigi efnið, heldur er nægilegt að hann hafi það á leigu, að láni eða í geymslu. Hins vegar er hægt að beita öðrum ákvæðum 210. gr. með þyngri refsimörkum, eða allt að sex mánuðum, gagnvart þeim einstaklingi sem hefur til dæmis leigt honum myndina eða dreifir slíku klámefni á annan hátt.

Herra forseti. Ég hef þá vikið að meginefnisatriðum þessa frv. Með því að gera vörslu barnakláms refsisverða er gefin skýr yfirlýsing um fulla þátttöku okkar í alþjóðlegri samvinnu til þess uppræta þessa viðurstyggilegu starfsemi sem því miður viðgengst enn víða um heim, jafnvel í nágrannalöndum okkar eins og hefur sannast á undanförnum vikum og leiðir af sér ómældar þjáningar fyrir fórnarlömb sín. Það er von mín að samstaða gerti náðst um frv. til að þessu markmiði verði náð.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.