Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 15:08:39 (193)

1996-10-09 15:08:39# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., VS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:08]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að það frv. sem hér er til umræðu er komið fram á nýjan leik og þakka hæstv. ráðherra fyrir það að bregðast skjótt við. Því miður náðist ekki að afgreiða frv. af þessu tagi á síðasta þingi og var það eingöngu vegna tímaskorts í hv. allshn.

Þetta mál hefur áður komið til umfjöllunar á hv. Alþingi og ég vil aðeins rekja það í örstuttu máli. Það var á 117. þingi sem ég leyfði mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. sem hljóðaði svona, með leyfi forseta:

,,Eru uppi áform um af hálfu ráðherrans að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem lýsir refsivert það athæfi að eiga eða hafa undir höndum efni með barnaklámi?``

Í þeirri umræðu sagði ég m.a., með leyfi forseta:

,,Í fljótu bragði virðist e.t.v. sem slík lagasetning mundi ganga of nálægt athafnafrelsi einstaklinganna og friðhelgi heimilis og einkalífs. Að mínu mati er barnaklám hins vegar alvarlegur glæpur og fullkomlega réttlætanlegt að uppræta efni sem inniheldur slíkt með þeim ráðum sem löggjafinn telur nauðsynleg.

Mér er ekki kunnugt um að nokkurs staðar í íslenskum lögum sé að finna ákvæði sem snerta barnaklám sérstaklega. Í 210. gr. almennra hegningarlaga er að finna almennt refsiákvæði varðandi þetta efni en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex mánuðum.

Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.

Það varðar enn fremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.

Það efni sem hér um ræðir og kallast barnaklám eru einkum tímarit, stuttar kvikmyndir, spil, ljósmyndir og myndbönd. Einnig mætti nefna tölvuefni, en í Svíþjóð hefur komið fram að það geti orðið erfitt að ná til þeirra sem fá þetta efni beint í gegnum dreifingaraðila á tölvuskjám.````

Á 118. þingi tók ég þetta mál upp á nýjan leik og þá kom fram hjá hæstv. dómsmrh. að ráðuneytið mundi hefja þá þegar vinnu við að láta semja frv. sem gerir það refsivert að hafa undir höndum efni sem innihéldi barnaklám. Eins og hefur komið fram í umræðunni hefur alls staðar á Norðurlöndum verið tekið á þessum málum, að vísu með mismunandi miklum hraða. Ég veit að það er verið að vinna að lagasetningu í Finnlandi og Svíar þurfa vegna breytingar á stjórnarskránni að fresta því að lög um þetta efni geti tekið gildi.

Í umræðunni hefur verið gagnrýnt nokkuð að í greinargerð kemur fram að rannsóknir á brotum sem hér um ræðir geti gengið nærri grunnreglum um friðhelgi einkalífsins. Ég get alveg verið sammála því en ég vil þó taka fram í því sambandi að í íslensku stjórnarskránni eru ákvæði sem þetta mál varða. Ég nefni 66. gr. en þar er kveðið á um friðhelgi heimilisins og 67. gr. um friðhelgi einkaréttar en í báðum greinunum er svo mælt að réttindi þessi megi takmarka með lögum. Einnig má nefna 72. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um tjáningarfrelsi sem tengist þessu einnig. Þar segir m.a. að ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi megi aldrei í lög leiða. Vegna þessa atriðis spyr ég hæstv. ráðherra hvort þetta hafi sérstaklega verið skoðað í ráðuneytinu í tengslum við gerð þessa frv. Nú er ég svo sannarlega ekki að mæla gegn þessu frv. en við hljótum öll að verða að bera ákveðna virðingu fyrir stjórnarskránni og gæta þess að setja ekki lög á hv. Alþingi sem standast ekki ákvæði hennar. Þess vegna væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra greindi okkur örlítið frá þeim athugunum sem ég efast ekki um að hafi verið farið í af hálfu ráðuneytisins hvað þetta mál varðar.

Ég vil þó segja í þessu sambandi út af orðum hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að auðvitað breytum við ekki greinargerð í hv. allshn. Það er einungis lagatextinn sem er þar tekinn til hugsanlegra breytinga.

Ég vil líka koma inn á það atriði í frv. sem snertir aldursmörkin en þar kemur fram í 1. gr. að miðað sé við 16 ára aldur og þar sé haft til hliðsjónar að lög um vernd barna og ungmenna miðist við 16 ára aldur. Nú er það svo eins og kemur fram í greinargerðinni að Íslendingar hafa fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þar kemur fram í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Í samningi þessum merkir barn hvern þann einstakling sem ekki hefur náð 18 ára aldri nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur.``

Lögræðisaldurinn er 18 ár þannig að ég óttast það að með því að samþykkja frv. í þeim búningi sem það er gætum við verið að ganga á skjön við þann samning sem við höfum undirritað og ég vil endilega að það verði athugað í nefnd og kannski getur hæstv. ráðherra frætt okkur um skoðun sína á þessu máli.

[15:15]

Ég tek líka undir það sem hér hefur komið fram um almennu hegningarlögin almennt að þar er mjög mismunandi hvort börn teljast til 18 ára aldurs eða til 16 ára aldurs. Segja má að það sé svona sitt á hvað eftir greinum þannig að það hlýtur að vera full ástæða til þess að gera heildarendurskoðun á almennum hegningarlögum.

Í sambandi við ráðstefnu sem haldin var í Stokkhólmi í ágústmánuði sem fjallaði um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er mér kunnugt um að þau ríki sem tóku þátt skuldbundu sig til þess að láta vinna áætlun um það fyrir árið 2000 hvernig þau hygðust vinna gegn hvers konar barnaklámi og hvers konar kynferðislegri misnotkun á börnum. Mér er satt að segja ekki kunnugt um það hvort Ísland tók þátt í ráðstefnunni. Sennilega hefur það ekki verið en það útilokar þó ekki að við vinnum að þessum málum í líkingu við það sem þarna hefur verið samþykkt.

Mér er líka kunugt um að þessi mál hafa verið til umfjöllunar á Evrópuráðsþingi og aðrir hér inni þekkja þau mál betur en mér er sagt að þar hafi m.a. verið til umfjöllunar hvernig væri hægt að fræða fólk þannig að til þess komi ekki að börn séu misnotuð kynferðislega.

Um gildistökuákvæðið hef ég ekkert sérstakt að segja en mér finnst sjálfsagt að nefnd athugi það hvort ástæða sé til þess að lögin taki fyrr gildi en ég held að nokkrir mánuðir skipti ekki sköpum til eða frá. Aðalatriðið er að við erum komin með frv. sem er í öllum aðalatriðum gott og ég er sannfærð um að hv. Alþingi mun vilja gera það að lögum mjög fljótt.