Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 15:35:53 (197)

1996-10-09 15:35:53# 121. lþ. 5.3 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vík fyrst að þeim ummælum sem hafa komið fram hjá nokkrum hv. þm. um nauðsyn þess að endurskoða hegningarlögin. Á þetta var reyndar einnig minnst í umræðum um breytingar á hegningarlögum á liðnu vori. Ég lýsti þá þeirri skoðun minni að það væri kominn tími til að gera heildarendurskoðun á hegningarlögunum. Ég get endurtekið það hér og bætt því við að nú er í athugun í ráðuneytinu að koma á fastanefnd um refsiréttarmálefni líkt og verið hefur um nokkra hríð um réttarfarsmálefni. Hitt er svo annað mál að við getum aldrei staðið þannig að breytingum á hegningarlögum að þær megi ekki fara fram nema heildarendurskoðun á lögunum eigi sér stað. Hegningarlögin eru mikill lagabálkur og taka yfir stórt svið réttarkerfisins og það er nauðsynlegt að laga löggjöfina að breyttum aðstæðum og nýjum viðhorfum án þess að heildarendurskoðun fari fram. Það á til að mynda við um frv. sem við vorum að ræða um í dag. Það er alveg útilokað að láta það bíða eftir heildarendurskoðun á löggjöfinni sem getur tekið tvö eða þrjú ár a.m.k. Ég er heldur ekki að gera þingmönnum upp þær skoðanir að þeir vilji fresta þessu máli á þann veg þó þeir leggi áherslu á þessa heildarendurskoðun, en legg á það áherslu að aldrei verður hjá því vikist varðandi löggjöf eins og þessa að gera á henni takmarkaðar breytingar í tímans rás. En það er byrjað á þennan hátt að huga að því hvernig staðið verður að endurskoðun laganna og stöðugri skoðun á þróun refsiréttarins og nauðsynlegri aðlögun löggjafarinnar á þessu sviði með stofnun fastanefndar á sviði refsiréttar.

Ég ætla þá að víkja að örfáum atriðum sem fram hafa komið í umræðunni. Það hefur verði gert að talsverðu umræðuefni hvort ákvæði þessara laga ættu að ná til þess að gera það refsivert að hafa tölvu í fórum sínum þar sem hægt er að komast að klámfengnu efni eins og á Internetinu. Ég hef skilið hv. 15. þm. Reykv. á þann veg að hann telji nauðsynlegt að gera þá breytingu á frv. að það að hafa tölvu í vörslu sinni þar sem mögulegt er að ná slíku efni verði refsivert. Svo að það sé ... (Gripið fram í.) Ég hef skilið hv. þm. á þennan veg. Ég held að það hafi ekki verið hægt að skilja ummæli hans öðruvísi. Nú kallar hann fram í og segir að það sé útúrsnúningur. Því fagna ég vegna þess að ég tel að skoðun af þessu tagi fái ekki með neinu móti staðist. Menn sjá það sjálfir. Ég held að það þjóni litlum tilgangi þegar við horfum á markmið frv., til að mynda að gera öllum þingmönnum skylt að skila tölvum sínum áður en þessi lög taka gildi. En fyrst hv. 15. þm. Reykv. hefur tekið þessi ummæli til baka þá ætla ég ekki að gera þau að frekara umræðuefni en skil þá heldur ekki hvers vegna svo mikið var haft við í umræðunni varðandi þessa skilgreiningu.

Hér hefur verið nokkuð vikið að mörkum stjórnarskrárbundinnar verndar einkalífs og prentfrelsis og jafnframt gerðar athugasemdir við setningu í frv. þar sem segir að á móti þeim rökum sem mæla fyrir efnisákvæðum frv. komi önnur sjónarmið. Menn verða að lesa athugasemdirnar í heild sinni. Rökin fyrir efnisatriðunum eru rakin. Síðan segir í nýrri málsgrein hvaða rök komi þar á móti. Það eru rökin sem ekki hefur verið tekið tillit til. Mér þykir harla kynlegt ef ekki má leggja fram athugasemdir með frv. þar sem gerð er grein fyrir mótrökum í máli. Menn hafa ekki mikla trú á réttmæti skoðana sinna ef ekki má gera grein fyrir mótrökunum. En það leiðir af sjálfu sér að hér hefur ekki verið fallist á mótrökin, heldur er frv. byggt á þeim rökum sem mæla með efni þess. Þess vegna furðaði ég mig á þeim ummælum sem hafa verið látin falla að þessu leyti af því að ekki er fallist á mótrökin.

En auðvitað er það svo að við erum að fjalla um efni sem getur komið inn á eða a.m.k. nærri stjórnarskrárákvæðunum. Það er alveg rétt, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. benti á, að það er mjög mikilvægt við lagasetningu eins og þessa að skoða þau efni. Við komumst ekki hjá því og það hefur verið gert í ráðuneytinu við gerð frv. Það er niðurstaða mín að frv. standist stjórnarskrána, að það brjóti ekki gegn prentfrelsisákvæðunum eða ákvæðum um vernd einkalífs. Ég hefði ekki lagt frv. fram ef ég hefði haft efasemdir um að það stæðist stjórnarskrána. Þá hefði ég, til þess að ná þessum markmiðum, lagt til að byrjað yrði á því að breyta stjórnarskránni til þess að unnt væri að ná þeim markmiðum sem við teljum nauðsynleg. Ég tel að við þurfum ekki að gera slíkar breytingar og við getum náð þeim svona og að það brjóti ekki í bága við þau ákvæði sem hér hafa verið gerð að umtalsefni.

Ég vil að lokum ítreka þakklæti mitt til þeirra hv. þm. sem hér hafa talað og fyrir góðan stuðning við efni frv. og vænti þess að það fái vandaða meðferð en um leið skjótan framgang í þinginu.