Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 10:33:59 (205)

1996-10-10 10:33:59# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:33]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Allir þingmenn þingflokks jafnaðarmanna flytja þáltill. um veiðileyfagjald. Í tillögugreininni segir m.a.:

Alþingi ályktar að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi. Með veiðileyfagjaldi er átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.

Forsætisráðherra skipi nefnd til að undirbúa löggjöf um þetta efni. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar frá öllum þingflokkum og helstu samtökum útgerða, sjómanna, fiskvinnslu og annarra aðila atvinnulífsins.

Nefndin kanni hvaða form veiðileyfagjalds er heppilegast með tilliti til áhrifa á ýmis atriði. Nefndin leiti ráðgjafar og kanni leiðir til að leggja auðlindagjald á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar, svo sem vatnsorku.

Nefndin á að skila áliti fyrir marslok 1997 og verði frumvarp um veiðileyfagjald lagt fyrir Alþingi á vorþingi 1997.

Þetta eru meginatriðin í sjálfri þáltill. Hún er að vísu aðeins lengri en greinargerðin sem fylgir tillögunni spannar yfir rök málsins, bæði með og á móti.

Grundvöllur veiðileyfagjalds er sú staðreynd að fiskstofnarnir kringum landið eru eign allrar þjóðarinnar. Því er óeðlilegt að arður af þeim renni eingöngu til fámenns hóps sem fær afnotarétt af þessari sameiginlegu eign. Veiðileyfagjald mun staðfesta þjóðareign á fiskimiðum og slík skipan stuðlar einnig að skynsamlegri framþróun í efnahagsmálum. Það ber að hafa í huga að nýir aðilar í útgerð greiða nú þegar fyrir veiðiheimildir. Þeir greiða hins vegar ekkert til ríkisvaldsins eða almennings, heldur til annarra útgerðarmanna sem fá þessum veiðiheimildum úthlutað ókeypis á hverju ári.

Það særir og hefur sært réttlætiskennd manna að verslað sé með veiðiheimildir og að þeir sem fengu úthlutað veiðiheimildum upphaflega geti hagnast verulega á þeim með því selja þær eða leigja. Þeir hafa ekkert greitt fyrir þær, hvorki við úthlutun í upphafi né árlegt leigugjald. Það er einnig forsenda fyrir því að sátt náist um framsal veiðiheimilda í núverandi kvótakerfi að lagt sé á veiðileyfagjald.

Þegar illa hefur gengið í fiskiðnaði hefur gengið verið lækkað með afleiðingum sem eru okkur vel kunnar. Þetta á ekki lengur við þegar efnahagsstefnan er sú að halda gengi sem stöðugustu, verðbólgu sem lægstri og freista þess að aðrar atvinnugreinar byggist upp við hlið sjávarútvegs. Veiðileyfagjald í sjávarútvegi er því eðlilegt og rökrétt framhald þjóðarsáttar um jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum.

Fiskveiðiarðinum sem myndast í kerfinu væri m.a. hægt að verja til þess þegar fram líða stundir að lækka tekjuskatt einstaklinga, en hann er nú um 17 milljarðar, tæpir 16 milljarðar reyndar samkvæmt nýjasta fjárlagafrv. Það væri hægt að gera þrátt fyrir að skilinn væri eftir verulegur hluti væntanlegs fiskveiðiarðs innan útgerðarinnar.

Umræðan um fiskveiðistjórnun hefur tvær hliðar, þ.e. fiskveiðistjórnunarkerfið sjálft, t.d. hvort notað er aflamark eða sóknarmark. Hins vegar er umræðan um veiðileyfagjald sem tengist réttlæti eða hagkvæmni. Þessu er því miður oft blandað saman í opinberum umræðum og í þáltill. er aðeins fjallað um veiðileyfagjald en ekki fyrirkomulag um stýringu veiðanna, enda getur álagning veiðileyfagjalds verið óháð stýrikerfinu, m.a. núverandi kvótakerfi.

Eignarréttur þjóðarinnar á fiskimiðum og fiskstofnum er ótvíræður og bundinn í lögum þótt útgerð fái tímabundinn afnotarétt til að draga þann fisk úr sjó. Þannig eru hugtökin ,,veiðileyfagjald``, ,,auðlindagjald``, ,,veiðigjald`` eða ,,leiga fyrir veiðileyfi`` samheiti yfir það að taka gjald við úthlutun veiðiheimilda. Þegar ríkið skammtar þegnunum takmörkuð gæði eins og veiðiheimildir eru, þá verða þau fémæti ef þau ganga kaupum og sölum og eru verðlögð á markaði og það er einmitt það sem hefur gerst.

Skilvirkt stýrikerfi við fiskveiðar leiðir til þess að svokallaður fiskveiðiarður, þ.e. tekjur umfram kostnað, við veiðar myndast. Í sjávarútvegi skiptir gengisskráning vitaskuld verulegu máli við myndun tekna, þar sem nær allur okkar afli er seldur á erlendum mörkuðum. Markmið fiskveiðistjórnunar er að hámarka afrakstur af auðlindinni til lengri tíma, þ.e. að hámarka þennan fiskveiðiarð. Höfuðatriði við fiskveiðar er að fiskveiðistjórnunarkerfið sé hagkvæmt og feli í sér að þessi arður myndist og að honum sé ekki sóað með röngu skipulagi. Verslun með veiðiheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er umfangsmikil. Stór hluti þessarar verslunar felst í skiptum á veiðiheimildum milli skipa í sömu útgerð eða skipti á veiðiheimildum milli óskyldra aðila. Umtalsverð viðskipti eru einnig með kvóta sem er leigður eða seldur gegn greiðslu. Hækkandi verð á kvóta auk góðrar afkomu í flestum greinum útgerðar sýnir glöggt að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur aukið fiskveiðiarð. Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum á tiltölulega háu verði sem er sönnun fyrir því að innan sjávarútvegsins er til fé til að greiða fyrir aflaheimildir. Almenningi í landinu blöskrar hins vegar það óréttlæti sem blasir við í núverandi kerfi þegar einstakir útgerðarmenn geta hagnast um margar milljónir á sölu eða leigu veiðiheimilda án þess að greiða nokkuð fyrir þann rétt að vera handhafi heimildanna.

Í þáltill. er gert ráð fyrir að skipuð verði nefnd til að undirbúa löggjöf um veiðileyfagjald. Flutningsmenn telja eðlilegt með tilliti til mikilvægis málsins að forsrh. skipi nefndina, en hann fer með meginþætti efnahagsmála af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er hins vegar fullt samræmi í því að leggja auðlindagjald á aðrar sameiginlegar auðlindir hérlendis, t.d. vatnsaflið, ef sambærileg skilyrði skapast og eru í sjávarútvegi þar sem er úthlutað heimildum til nýtingar af hálfu ríkisvaldsins.

Einnig er fullkomlega eðlilegt ef ríkisvaldið úthlutar takmörkuðum verðmætum, t.d. sjónvarpsrásum, sem nýlegt dæmi er um, að ríkisvaldið taki gjald við slíka úthlutun. Í þáltill. er beinlínis gert ráð fyrir því að nefndinni verði einnig falið að kanna leiðir til að leggja auðlindagjald á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar, svo sem vatnsorku.

Rök fyrir veiðileyfagjaldi í sjávarútvegi eru ýmiss konar. Í fyrsta lagi réttlætissjónarmið eins og fyrr hefur verið drepið á. Í öðru lagi er nefnt sem röksemd fyrir veiðileyfagjaldi að annars safnast mikill fiskveiðiarður innan útgerðar, en undanfarna áratugi hefur gengið verið tiltölulega hátt skráð og þetta vandamál þannig leyst, ef svo má að orði komast, sem hefur þá leitt til ódýrari innflutnings. Þetta er ástæðan fyrir því að sjávarútvegurinn hefur í reynd alltaf greitt eins konar auðlindagjald eða veiðileyfagjald. Þannig hefur á undanförnum áratugum afrakstri af sjávarútvegi verið beint inn í hagkerfið öllum til hagsbóta. Þegar illa hefur gengið í fiskiðnaði hefur gengið verið lækkað með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Þetta á hins vegar ekki við þegar efnahagsstefnan er í meginatriðum sú að halda verðbólgu sem lægstri, stöðugleika í gengi og ekki hvað síst freista þess að aðrar atvinnugreinar byggist upp við hlið sjávarútvegs. Veiðileyfagjald er því rökrétt framhald af stöðugleika í efnahagsmálum. Einnig hefur því verið haldið fram að með veiðileyfagjaldi sé hægt að draga úr óhagkvæmri sókn vegna kostnaðarauka af gjaldinu fyrir útgerðina. Það er hins vegar mikið álitaefni. Í fjórða lagi sem rök fyrir veiðileyfagjaldi gæti veiðileyfagjald verið leið til sveiflujöfnunar í sjávarútvegi og hægt er að hugsa sér útfærslu þannig að markaðurinn ákveði upphæð veiðileyfagjaldsins.

Því hefur einnig verið haldið fram sem rökum gegn veiðileyfagjaldi að veiðileyfagjald sé skattlagning á eina atvinnugrein sérstaklega. Ef lagt er á veiðileyfagjald til að standa undir sérhæfðum kostnaði við sjávarútveg, svo sem hafrannsóknir og eftirlit, þá er ekki um að ræða skattheimtu samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu, heldur eins konar þjónustugjöld. Væri hins vegar veiðileyfagjald lagt á og kæmi í stað annarra skatta, þá er þar um að ræða skatttekjur til ríkisins, enda er þá um að ræða stórfellda endurskipulagningu á skattkerfi ríkisins.

Beinn kostnaður hins opinbera við sjávarútveg er um það bil 2--3 milljarðar og ýmsir hagfræðingar telja að fiskveiðiarðurinn gæti numið 15--30 milljörðum árlega þegar fyllstu hagkvæmni er náð og núverandi fiskveiðiarður er talinn vera innan við 5 milljarðar. En til að þessar stóru tölur nái fram að ganga verða fiskstofnar að hafa náð hagkvæmustu stærð og aflinn að vera veiddur á sem hagkvæmastan hátt og það er enn langt í það. Hins vegar eru íslenskir fiskstofnar fyllilega sambærilegir við náttúruauðlindir í öðrum löndum og það er ekki óalgengt að vel innan við helmingur af verðmæti náttúruauðlinda sé hreinn hagnaður. Hægt er að nefna dæmi um tekjur norska ríkisins af olíuframleiðslu sem eru nálægt 600 milljörðum á ári sem er tæpur helmingur árlegs framleiðsluverðmætis. Aflaverðmæti á Íslandsmiðum upp úr sjó eru tæpir 60 milljarðar á síðasta fiskveiðiári og útflutningsverðmæti tæpir 90 milljarðar. Það vantar hins vegar mikið á að fiskstofnar okkar séu í kjörstöðu og er þorskurinn skýrasta dæmið um það. Hagkvæmustu fiskstofnar og hagkvæmasta sókn leiða til þess að tekjur aukast og kostnaður lækkar, þannig að þær tölur, um 15--30 milljarðar, eru síður en svo út í hött.

Þótt veiðileyfagjald verði strax lagt á, þá skilar það litlu fyrst um sinn, en mundi aukast við aukinn fiskveiðiarð eftir því sem fiskstofnar eflast og meiri hagkvæmni verður náð. Það er hins vegar raunhæfur möguleiki að veiðileyfagjald komi að mestu í stað tekjuskatts einstaklinga á einhverju árabili, en tekjuskattur einstaklinga er nú tæpir 16 milljarðar eins og fyrr var getið.

Jafnaðarmenn hafa lagt til að veiðileyfagjald verði fyrst notað til þess að greiða kostnað hins opinbera við sjávarútveg. Það eru mikil efnahagssóknarfæri fólgin í veiðileyfagjaldi og veiðileyfagjald er ekki íþyngjandi aðgerð fyrir sjávarútveginn vegna þess að það getur verið skynsamlegt og er skynsamlegt að haga gengisstefnunni þannig að annar útflutningsiðnaður styrkist við hlið sjávarútvegs. Talsmenn veiðileyfagjalds hafa ekki talað um að stór hluti fiskveiðiarðsins verði tekinn út úr greininni, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Ef veiðileyfagjald kemur inn sem skattur í framtíðinni fyrir aðra skatta, þá er það hagkvæmur skattur í skilningi hagfræðinnar miðað við marga aðra skatta.

[10:45]

Ef veiðileyfagjald er ekki tekið upp, sem einn valkostur í þessari umræðu, mun það skapa mikla þenslu innan sjávarútvegs við gott stjórnkerfi og vaxandi fiskveiðiarð. Þá verður aftur farin hin gamalkunna leið að draga fiskveiðiarðinn út úr sjávarútveginum með gengisstefnunni þannig að önnur fyrirtæki búi áfram við slæmt rekstrarumhverfi.

Þessi atburðarás hjá þjóðum sem eiga auðuga auðlind til gjaldeyrissköpunar en ná ekki að nýta það sóknarfæri til að örva hagvöxt og bæta lífskjör með skynsamlegri gengisstefnu hefur verið kölluð hollenska veikin. Það byggir m.a. á því að flestar þjóðir hafa nýtt einmitt útflutning til hagvaxtar á undanförnum árum, nokkuð sem við Íslendingar höfum ekki gert í sama mæli.

Þau rök heyrast einnig gegn veiðileyfagjaldi að fái ríkið umráð yfir nýjum tekjustofni verði skatturinn fljótlega hækkaður auk þess sem ríkið á að fara illa með fé. Þessu er ekki hægt að svara með öðru en því að mikilvægt er að tryggilega sé gengið frá löggjöf um þetta efni.

Einnig er nefnt að veiðileyfagjald sé sérstakur skattur á landsbyggðina. Veiðileyfagjald er einnig almenn gjaldtaka fyrir úthlutaðar aflaheimildir, óháð því hvar fyrirtækin eru staðsett. Þvert á móti er hægt að halda því fram að núverandi kerfi sé sérstakur skattur á þá staði sem ráða yfir litlum kvóta og verða að greiða verulegar fjárhæðir til handhafa veiðiheimilda sem hafa fengið þær ókeypis. Þessir staðir eru margir hverjir á landsbyggðinni. En einnig má benda á að landsbyggðin þarf ekki hvað síst á því halda að annar og fjölbreyttari atvinnuvegur nái að byggjast upp, svo sem ýmiss konar þjónustuiðnaður við sjávarútveginn. Þannig að þegar til lengdar lætur er það ekki hvað síst í þágu landsbyggðarinnar að það skapist meiri fjölbreytni í atvinnulífi sem veiðileyfagjald getur haft í för með sér.

Það er hægt að leggja á veiðileyfagjald á ýmsan hátt. Það er hægt að dreifa veiðiheimildum milli allra landsmanna þannig að útgerðarmenn yrðu að kaupa þær á markaði. Þessi aðferð hefur verið notuð víða við almannavæðingu eða einkavæðingu.

Í öðru lagi er hægt að leggja á árlegt gjald við hvert úthlutað þorskígildi. Þetta er líklega einfaldasta leiðin og gjaldið gæti runnið til hafrannsókna og uppbyggingar, m.a. á sviði menntunar og rannsókna í sjávarútvegi.

Í þriðja lagi gæti ríkisvaldið selt veiðiheimildir á opinberu uppboði.

Í fjórða lagi væri hægt að láta útgerðina greiða gjald í eitt skipti fyrir veiðiheimildir.

Í fimmta lagi væri hægt að skattleggja útvegsfyrirtæki sérstaklega í tekjuskattskerfinu.

Í sjötta lagi væri hægt að láta gjaldtöku fyrir veiðiheimildir einungis ná til viðbótarkvóta eftir því sem fiskstofnar eflast, en þessi aðferð gæti nýst vel til sveiflujöfnunar. Flutningsmenn telja að leiðir 2 og 6 hér að framan eða það að taka veiðileyfagjald fyrir hluta aflans séu heppilegastar sem fyrsta skref, miðað við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Hér hefur verið dregið fram í stuttu máli að fiskveiðiarðurinn mun aukast hérlendis miðað við að fiskveiðistjórnunarkerfið haldi áfram að skila hagkvæmni við veiðar og að vinnsla og sala afurða byggist á hagkvæmum lögmálum markaðskerfisins. Stöðugt hækkandi kvótaverð staðfestir þessa þróun. Skynsamlegt er að í byrjun sé um tiltölulega lágar greiðslur að ræða sem gætu hækkað eftir því sem sjávarútvegurinn hefur burði til að greiða. Ef genginu væri jafnframt beitt til að auðvelda sjávarútveginum greiðslu gjaldsins mundi annar útflutningsiðnaður styrkjast. Þá er hér komin samræmd efnahagsstefna sem skilar auknum hagvexti á næstu árum, eflir sjávarútveginn og er fylgt fram í samræmi við réttlætiskennd þjóðarinnar, eigenda fiskimiðanna. Veiðileyfagjald er eitt brýnasta réttlætis- og efnahagsmál þessa áratugar.

Herra forseti. Ég geri að tillögu minni að þáltill. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn.