Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 10:53:37 (208)

1996-10-10 10:53:37# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:53]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hér er stuttur tími til andsvara, en ég hefði gjarnan vilja heyra frekari skýringar á því hvar þingmaðurinn kemur inn á að það skapast svigrúm til að haga gengisskráningunni þannig að aðrar atvinnugreinar verði öflugar við hlið sjávarútvegs. Það má ætla að þingmaðurinn og þeir sem að þáltill. standa séu sammála um að það eigi sífellt að vera að rokka með íslenskt gengi upp og niður eftir því hvernig árar hjá útveginum.

Það var líka athyglisvert að heyra það að hér talar maður sem mikla þekkingu og reynslu hefur í sjávarútvegi. Hann segir að það sé mjög mikill arður að skapast í sjávarútveginum. Það er dálítið í andstöðu við það sem forsvarsmenn bæði fiskvinnslu og fiskveiða eru að segja þjóðinni í dag og vissulega er þetta athyglisvert.

Það er hins vegar líka athyglisvert að það má ætla, eins og kemur fram í þáltill., að eitthvað hafi þessir menn athugasemdir við það kerfi sem myndast hefur og þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið á milli útgerðarmanna og sjómanna og þeim finnist of í lagt að sjómenn skuli vera á hlutaskiptakerfinu og þess vegna þurfi eitthvað að hafa fingurna í því.

Virðulegi forseti. Mér finnst málið allt með þeim hætti að þetta muni vissulega þurfa þó nokkurrar umræðu við því að margt í þessu sé þess eðlis að ekki sé þetta sannleikanum samkvæmt og hér sé einhver skýjaborg upp byggð sem ekki eigi sér neina stoð.