Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:04:48 (213)

1996-10-10 11:04:48# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:04]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér láðist fyrr, og hafði reyndar ekki meiri tíma, að svara spurningunni um gengisfellinguna, hvað þurfi mikla gengisfellingu í sambandi við þessa veiðileyfagjaldsumræðu. Ég held að hún þurfi í sjálfu sér ekkert að verða mjög mikil. Við höfum ekki að vera að tala um að taka mikið í fyrsta umgangi út úr þessum fiskveiðiarði enda er hann ekkert sérstakur, hann er nokkrir milljarðar. Við höfum nefnt, lagt beinlínis til 500--700 milljónir, og höfum þá nefnt þessa 2--3 milljarða. Það þarf ekkert stórar breytingar í gengi varðandi þann þátt í sambandi við sjávarútveginn. Menn geta rætt um gengisstefnuna út frá öðrum forsendum, sem er áhyggjuefni, en það er viðskiptahalli en ég sé ekki að það þurfi að stíga nein stór skref varðandi þann þátt.

Varðandi ummæli hv. þm. um skilaboð til vestfiskra byggða og hins nýja fyrirtækis á Ísafirði þá er þetta fráleitur málflutningur sem þingmaðurinn er með. Þessi tillaga mun styrkja þegar fram líða stundir landsbyggðina og líka vestfirskar byggðir. Ég nefndi sérstaklega í ræðu minni mikilvægi þess að það byggðist upp annað atvinnulíf, fjölbreyttara atvinnulíf við hlið sjávarútvegs. Ég held að landsbyggðin, og e.t.v. Ísafjörður, þurfi líka verulega á því að halda. Ég óska Ísfirðingum til hamingju með þetta nýja fyrirtæki og ég held að þeir séu á réttri braut með þetta. En að koma hér, herra forseti, upp í ræðustól og væna okkur þingmenn jafnaðarmanna um að við séum með þáltill. með atlögu að vestfirskum fyrirtækjum og vestfirskum sjávarútvegi er mjög lágkúrulegur málflutningur og sýnir eiginlega vörn þessara manna, sem geta ekki hugsað sig inn í þessa nýju hugmyndafræði, hvað þessi vörn er nú afskaplega takmörkuð og ég mundi ráðleggja hv. þm. að hugsa sig betur um áður en hann kemur með svona málflutning inn í þessa umræðu hér á hinu háa Alþingi.