Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:06:48 (214)

1996-10-10 11:06:48# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni endurflutningur á þáltill. sem þingflokkur Þjóðvaka flutti í fyrra eða einhverjir hv. þm. á hans vegum. Þetta er með öðrum orðum eins konar erfðagóss sem hinn nýi þingflokkur jafnaðarmanna hefur fengið frá Þjóðvaka sáluga og allt gott um það að segja. Tillagan er í raun og veru fyrst og fremst fyrirsögn. Fyrirsögnin er veiðileyfagjald. Í einhverri mynd á einhverju formi á að leggja á veiðileyfagjald sbr. 1. mgr. tillögunnar en að öðru leyti er málið sett í nefnd. Forsrh. á skipa nefnd sem á að fá það verkefni að kanna nánast alla skapaða hluti í sambandi við þetta mál, þ.e. áhrifin á sjávarútveginn, byggð í landinu, efnahagslíf, markaði, hagi lands og þjóðar í bráð og lengd. En nefndin á að gera meira, hún líka að kanna hvernig eigi að gera þetta, samanber greinargerð með tillögunni, því þar er boðið upp á sjö mismunandi valkosti við að koma þessu í framkvæmd. Þannig er hér í reynd um óútfyllta ávísun að ræða, það er ekkert búið að skrifa nema fyrirsögnina ,,veiðileyfagjald``. Menn gefa sér tvennt, forsenduna og niðurstöðuna, því það er ákveðið fyrir fram að nefndin skuli komast að þeirri niðurstöðu að leggja skuli fram frv. um veiðileyfagjald. En hvaða áhrif það hefur og hvernig það skuli gert, það er sett í nefnd. Varðandi valkostina sem boðið er upp á þá er athyglisvert að fara yfir hversu galopið það er að mati flutningsmanna hvernig þetta gæti gerst. Með leyfi forseta, er sagt á bls. 9 í grg. með tillögunni:

Í fyrsta lagi er hægt að dreifa veiðiheimildum milli allra landsmanna.

Í öðru lagi er hægt að leggja árlegt gjald á hvert úthlutað þorskígildi. --- Það er talin einfaldasta leiðin. Með öðrum orðum að leggja skatt ofan á óbreytt núgildandi fiskveiðistjórnkerfi.

Í þriðja lagi gæti ríkisvaldið selt veiðiheimildir á opinberu uppboði.

Í fjórða lagi er hægt að láta útgerðina greiða gjald í eitt skipti fyrir veiðiheimildir.

Í fimmta lagi er hægt að skattleggja útvegsfyrirtæki sérstaklega í tekjuskattskerfinu.

Í sjötta lagi er hægt að láta gjaldtöku fyrir veiðiheimildir aðeins ná til viðbótarkvóta.

Í sjöunda lagi er hægt að blanda saman einhverjum þessara aðferða. --- Þá verða valkostirnir ekki sjö heldur sex hrópmerktir, er það ekki, vegna þess að hægt er að búa til endalausa kokteila af þessum mismunandi valkostum.

Þetta er sem sagt uppboð á mismunandi aðferðum við að leggja á gjald. Þetta var um tillöguna og það sem í henni felst.

Herra forseti. Það er mörgu leyti réttmæt sú mikla gagnrýni sem er á ýmsa þætti núverandi stjórnkerfis fiskveiða. Sérstaklega eru það að mínu mati leiguviðskiptin með veiðiréttinn, leigubraskið, eða kvótabraskið sem svo er kallað, sem fer fyrir brjóstið á mönnum. Alþb. hefur afdráttarlaust mótað þá stefnu að fyrir þetta leigubrask beri að taka. Það beri að taka út úr kerfinu heimildir til að leigja eða fénýta réttinn ár eftir ár án þess að menn nýti hann sjálfir. En Alþb. hefur einnig mótað þá afstöðu að veiðileyfagjald ofan á núverandi óbreytt kvótakerfi með öllum þessum annmörkum leysi engan vanda. Auðvitað ekki. Eitt mesta ruglið í umræðunni að mínu mati er akkúrat það, að það breyti einhverju, leysi einhvern vanda að leggja þennan skatt ofan á kerfið eins og það er í dag. Vegna þess að það mun fyrst og fremst koma niður á þeim sem síst skyldi. Gjaldið mun hafa tilhneigingu til að leita út í leiguverðið. Það mun hafa tilhneigingu til að leita út í kjör sjómanna og fiskverkafólks, hafa áhrif á stöðu þeirra byggðarlaga sem eru báglega sett í þessum efnum o.s.frv. Með öðrum orðum: Við teljum að það væri að fara úr öskunni í eldinn. Það þurfi að gera grundvallarbreytingar á kerfinu, koma í veg fyrir þessi leiguviðskipti og þar með að uppræta meinsemdina. Ráðast að rótum vandans en ekki beita hliðarráðstöfunum eða deyfilyfjum eins og veiðileyfagjald ofan á óbreytt stjórnkerfi fiskveiða væri í reynd.

Nokkur orð er óhjákvæmilegt að hafa, herra forseti, um talnameðferð í þessu sambandi. Að vísu hefur flutningsmaður dregið verulega í land í sínum málflutningi frá því sem hann gerði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins daginn sem þingflokkur jafnaðarmanna boðaði fyrir fram framlagningu þingmála, áður en að þing tók til starfa. Því þá var beinlínis gefið í skyn að möguleikar væru með því að taka upp veiðileyfafjald að leggja af allan tekjuskatt einstaklinga upp á 17 milljarða kr. (Gripið fram í: Það segir það á bls. 7.) Og svipaðar talnaæfingar eru í greinargerð tillögunnar. Fréttamaður spurði hve upphæðin gæti orðið há og þá svaraði hv. þm. Ágúst Einarsson í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 30. sept. sl.: ,,Ja, það er hægt að nefna sem dæmi að eignarskattur einstaklinga er nú 17 milljarðar og ef fiskveiðiarðurinn gæti numið kannski 30 milljörðum eða 20--30 milljörðum þá sjáum við að það er hægt að láta veiðileyfagjaldið koma í staðinn fyrir tekjuskatt einstaklinga en samt skilja eftir verulegan arð innan sjávarútvegsins.`` Það eiga allir að græða, einstaklingarnir losna við að borga skatt upp á 17 milljarða og sjávarútvegurinn græðir. Og þá segi ég, herra forseti, það er búið að finna upp gullgerðarvélina, loksins er búið að finna upp gullgerðarvélina, vonum seinna.

Herra forseti. Þetta er ábyrgðarlaus meðferð á tölum. Það er einnig ábyrgðarlaust að líkja sjávarútveginum og fiskveiðum við olíuiðnað og segja að þetta séu sambærilegar auðlindir eins og hv. þm. hefur t.d. gert í blaðagrein. \mbox{Olíu}iðnaðurinn út um allan heim er myljandi gróðavegur og hefur verið það frá upphafi og auðvitað sérstaklega eftir olíukreppuna. En hvernig er efnahagsleg staða sjávarútvegs og fiskveiða í öðrum löndum? Nánast án undantekninga eru fiskveiðar ríkisstyrktar og sjávarútvegur ríkisstyrktur og það erum við að keppa við þannig að hér er ólíku saman að jafna. Nýting þessarar auðlindar er ekki sambærileg við mokstur á kolum á þurru landi eða því að dæla upp olíu sem er mikil eftirspurn eftir og iðnaðarþjóðfélögin borga hátt verð fyrir eins og kunnugt er. Það er því ekki skynsamlegt að fara fram með málflutning af þessu tagi og ég tel að þingflokkur jafnaðarmanna veiki stórkostlega málflutning sinn í þessum efnum með því að gera sig sekan um þvílíkt ábyrgðarleysi. En auðvitað hljómar þetta vel í eyrum fólks. Mér verður hugsað til þess að sagt var vestur í Bandaríkjunum einu sinni: ,,Read my lips, no more taxes.`` Þetta er málflutningur af því tagi.

Það þarf ekki að skoða lengi, herra forseti, veltuafkomutölur í sjávarútveginum, í veiðunum t.d., til að sjá að þessi talnameðferð er út í hött. Verðmæti landaðs afla af heimamiðum árið 1995 voru 47 milljarðar kr. Hvernig ætti að taka fjármuni af þessari stærðargráðu út úr því? Fjármunamyndun í útgerð er fáeinir milljarðar þegar best lætur. Á að taka hana burt á einu bretti með gjaldi af þessu tagi? Hvernig á þá að byggja greinina upp? Hvernig á að fjárfesta inn í framtíðina? Hér verða menn að gæta sín að blanda ekki saman tvennu, annars vegar þessum grundvallarhugmyndum sem menn ræða um það hvort einhver gjaldtaka fyrir afnot af auðlindum almennt, og þá að sjálfsögðu af öllum sambærilega settum greinum, eigi að koma til og hinu hvað er raunhæft miðað við aðstæður í greininni í dag. Því miður er afkoma ýmissa greina sjávarútvegsins ekkert allt of góð. Efnahagslegar röksemdir í þessu máli hafa snúist við, útflutningsiðnaðurinn stendur að breyttu breytanda betur nú en sjávarútvegurinn, betur en fiskveiðarnar og sérstaklega þó fiskvinnslan eins og menn vita ef þeir skoða t.d. tölur. Þannig að í reynd mætti alveg eins snúa þessu við og heimfæra það á gamlar röksemdir á grundvelli efnahagslegra sjónarmiða upp á það að ef eitthvað væri þá þyrfti nú fiskvinnslan auðlindagjald á iðnaðinn til þess að geta dafnað.

Herra forseti. Tíminn leyfir því miður ekki lengri umræður um þetta. Ég hefði gjarnan viljað blanda mér aðeins í eignarréttarhlið málsins en geri það kannski við betra tækifæri.