Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:33:25 (221)

1996-10-10 11:33:25# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að allur almenningur í landinu og allir Íslendingar njóti mjðg góðs af þeim umskiptum sem hafa orðið í íslenskum sjávarútvegi í hærri launum, hærri tekjum og ýmsar þjónustustofnanir njóta mjög góðs af þannig að þau umskipti hafa vissulega komið öllum til góða. Ég tel að sjávarútvegurinn eigi að borga eðlilega skatta. Hann gerði það ekki áður fyrr að öllu leyti. Hann borgaði minna en ýmsir aðrir og gerir það enn, t.d. í formi tryggingagjalds. Ég tel eðlilegt að við nýtum þennan bata til að samræma. Ég er hins vegar enn þeirrar skoðunar að skuldir sjávarútvegsins séu það miklar að þarna verðum við að ná meiri árangri. Ég er líka þeirrar skoðunar að við höfum ekki náð þeim árangri sem við þurfum að ná í sambandi við uppbyggingu fiskstofnanna og þess vegna sé ekki kominn sá tími að hagnaður í sjávarútvegi sé orðinn eitthvert sérstakt vandamál. Ég tel að arðurinn af auðlindinni sé ekki eins mikill og hér er verið að láta í skína.

Ég hef hins vegar ekkert útilokað það að sá dagur muni koma að sjávarútvegurinn greiði meira til samfélagsins. Það verður að vera viðfangsefni á hverjum tíma. En að taka slíka ákvörðun í dag tel ég ótímabært.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ný réttindi eins og nýr síldarstofn geti kallað á nýjar aðferðir í úthlutunum og nýjar nálganir og ekki er rétt að útiloka neitt í þeim efnum. En ég tel rangt að gefa það í skyn, sem ég vona að sé ekki vísvitandi, að arðurinn af sjávarútveginum sé orðinn svo stórkostlegur að það sé hægt að leggja niður tekjuskattinn. Þetta er ósæmilegur málflutningur og ég veit að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson getur tekið undir það.