Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 11:56:36 (229)

1996-10-10 11:56:36# 121. lþ. 6.1 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:56]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Eftir nokkrar klukkustundir mun fjöldi fólks streyma á landsfund Sjálfstfl. Ef að líkum lætur verður þetta hátíðleg stund og þar verða haldnar innblásnar ræður í anda sjálfstæðisstefnunnar. Ef ég man þetta nokkurn veginn rétt þá er sjálfstæðisstefnan fyrst og fremst um það að minna menn á grunngildi um athafnafrelsi, um frelsi einstaklingsins til athafna, um markaðskerfi fremur en ríkisforsjá, um samkeppni á markaði frekar en skömmtunarkerfi úr hendi stjórnmálamanna og um það að allir skuli sitja við sama borð, að allir skuli búa við sömu leikreglur, ef samkeppnisreglur gilda þá skuli þær sömu gilda fyrir alla. Þetta er ræðan um sjálfstæðisstefnuna. Þess vegna á ég von á því, ég hlýt að trúa því, að einhverjir af þessum mikla fjölda komi til með að beina spurningum til forustumanna Sjálfstfl. um það hvers vegna svona hægt miði að standa við fyrirheit sjálfstæðisstefnunnar. Hvers vegna það sé einkenni á íslensku þjóðfélagi, á grundvallaratvinnuvegum, að þeir eru hnepptir í viðjar ríkisforsjár og skömmtunarkerfa. Það á við um landbúnað. Það á við um sjávarútveg. Það á við um orkubúskapinn og það á við að stórum hluta til um ríkisfjármálakerfið okkar. Þrátt fyrir allt þá eru sterk hagsmunaöfl í Sjálfstfl. fyrst og fremst sem standa vörð um þetta kerfi og koma í veg fyrir breytingar á því. Þess vegna spái ég því líka að þegar seinni tíma menn fara að kynna sér og leita skýringa á umræðunum um auðlindastefnu, auðlindanýtingu og spurningunum um veiðileyfagjald eða auðlindaskatt undir lok 20. aldar, þá munu þeir spyrja: Um hvað var ágreiningurinn? Var hann um það að einhverjir vildu sérstaklega boða sósíalisma, bæjarútgerðir eða ríkisrekinn Granda? Hverjir voru það sem einkanlega stóðu að slíkum sjónarmiðum? Var ágreiningurinn vegna þess að t.d. ágætur stjórnmálamaður, nýbúinn að skrifa bók um sjávarútveginn --- til hamingju með það, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon --- sem leitaðist eftir að verða formaður í Alþb. sem einu sinni var kennt við verkalýðshreyfingu og sósíalisma, hafi virkilega lagt blessun sína yfir kerfi, skömmtunarkerfi sem byggir á því að úthluta nýtingarréttinum á sameiginlegri auðlind í hendurnar á tiltölulega fámennum hópi manna fyrir ekki neitt, sem leiðir til þess að þeir mega samt sem áður leigja, selja, arfleiða og veðsetja þessi skömmtuðu fémæti án þess að greiða nokkurn skapaðan hlut fyrir nýtingarréttinn? Eftir stendur sú spurning, hv. þm., að í tillögum þeim sem settar eru fram af þingmannsins hálfu, er boðað að það eigi að banna með lögum leigu innan árs. Það vekur upp spurningar um það hvort hægt sé að framfylgja þeim lögum alveg eins og það vekur upp spurningar um það að það er bannað að láta sjómenn taka þátt í að kaupa kvóta en það er gert. Lögin halda ekki. Spurningin um það hvort þessi tillaga heldur. Eftir stendur að sala á markaði er sala á verðmætum sem þeir sem eiga að selja hafa ekkert greitt fyrir.

[12:00]

Grundvallarsjónarmiðið er því ákaflega einfalt og þess vegna beindi ég þeirri spurningu til hæstv. utanrrh.: Ætla menn að réttlæta það að ríkið taki að sér að skammta aðganginn að meginauðlind þjóðarinnar og búa þannig til gríðarleg fémæti vegna framsalsins sem eiga eftir að verða meiri og meiri og meiri? Og eiga þessir sömu aðilar sem fá þessu úthlutað að hafa rétt til að versla með þessi verðmæti, selja þau, leigja þau, arfleiða þau, veðsetja þau, án þess að almenningur í landinu fái nokkuð í sinn hlut af þeim arði? Um þetta er spurningin í grundvallaratriðum. Allt hitt eru útfærsluatriði.

Það sem sagt hefur verið hér um óheiðarlegan málflutning, t.d. í sambandi við matið á því hvernig arðurinn geti orðið mestur, kjörarðurinn við hagstæðustu skilyrði og samanburðurinn við tekjuskatt, ef menn eru að segja að við séum að beita hér blekkingum eða reyna að véla fólk til fylgis við okkar hugmyndir með slíku þá er það bara rangt. Þetta eru útúrsnúningar. Við höfum tekið þessi dæmi af því að þau liggja fyrir eftir fræðilega umfjöllun.

En það er eitt grundvallaratriði í þessu máli og það er að jafnvel þótt menn séu fylgjandi aflamarkskerfi með framsali og jafnvel þótt menn segi: Þetta kerfi er að skila árangri að því er varðar hagkvæmni og aukna arðsemi. --- Þeir sem þetta segja verða hins vegar að svara því hvort það sé nóg.

Getum við búið við þetta kerfi óbreytt af því að það er réttlætt með arðsemissjónarmiðum? Mitt svar við því er nei. Mitt svar við því er einfaldlega þetta: Þetta kerfi mun aldrei standa til frambúðar vegna þess að það misbýður réttlætiskennd þjóðarinnar. Það verður aldrei um það sátt og það er lágmarksskilyrði, burt séð frá öllum umræðum um fiskveiðistjórnun, að þeir, sem fá þessi fémæti í sinn hlut fyrir atbeina skömmtunarkerfis ríkisins, greiði afnotagjald fyrir þennan rétt. Það er alveg lágmarkskrafa.

Gagnrýni á það síðan er af því tagi að menn segja: Leggst þetta gjald ofan á kvótaverðið núna? Það getur enginn svarað þeirri spurningu skynsamlega eða með fullnægjandi hætti öðruvísi en svona: Eftir því sem arðurinn úr þessu kerfi vex munu afleiðingar þess fyrst og fremst verða þær að þeir sem njóta arðsins og selja það sem þeir ekki eiga munu halda áfram að bjóða upp þessa kvóta. Kvótaverðið mun hækka og hækka og arðurinn felst í því. Það hefur hins vegar gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir fiskvinnsluna í landinu, fyrir verðmyndunina á hráefninu og er reyndar þegar farið að stuðla að hallarekstrinum í landvinnslunni og vinna á móti fullvinnslustefnunni sem margir vilja nú boða.

Mun það að þessir aðilar skili hluta af arðinum til almennings í formi veiðileyfagjalds draga úr hækkun kvótaverðs eða ekki? Ég tel að það séu hagfræðileg rök fyrir því að það muni ekki ýta undir frekari hækkun á kvóta, frekar draga úr því.

Er hér verið að leggja nýjan skatt á atvinnugrein sem þolir það ekki? Nei, það er ekki verið að því. Einfaldlega vegna þess að þessi skattur er þegar greiddur. Hann er greiddur þeim sem selja þessi verðmæti og hann eykur þess vegna á mismununina í greininni og kemur í veg fyrir eðlileg, ásættanleg samkeppnisskilyrði í greininni.

Er þetta skattur á landsbyggðina? Nei. Og ég held að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ætti að fara varlega áður en hann fer áfram með þau skilaboð heim vestur á firði vegna þess að þar er sá landshluti sem verst hefur farið út úr þessu kvótakerfi, sannarlega, af mörgum ástæðum sem ég nenni ekki að rekja hér og hef ekki tíma til, en situr nú við það að hann býr ekki við sömu samkeppnisskilyrði vegna þess að ef hann ætlar að ná sér á strik aftur og njóta nálægðar við auðlindina þá verða þeir að kaupa veiðiheimildirnar af þeim sem nú njóta arðsins af því að hafa fengið heimildirnar fyrir ekki neitt.

Því miður er tíma mínum lokið. Ég hlakka til að fá framhaldsumræðu um þetta mál. Þetta er stærsta mál á dagskrá íslenskra þjóðmála það sem eftir er af þessari öld.