Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 13:33:47 (234)

1996-10-10 13:33:47# 121. lþ. 6.2 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:33]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Eftir alla þá umræðu sem átti sér stað liðið vor um það frv. sem nú er komið aftur á dagskrá, þá hef ég ekki í hyggju að endurtaka hér og nú þær fjölmörgu röksemdir sem ég setti þá fram gegn því frv. en það virðist nú vera afturgengið næstum því í óbreyttu ástandi því miður. Ég sat í úthafsveiðinefndinni svokölluðu á síðasta þingi og segja má að í stuttu máli byggist andstaða mín við þetta frv. í grundvallaratriðum á sömu forsendum og andstaða mín við núverandi kerfi um stjórn fiskveiða innan lögsögunnar. Ég vil þó áður en lengra er haldið ítreka nokkur grundvallaratriði varðandi afstöðu okkar kvennalistakvenna til þessa máls.

Í stefnuskrá Kvennalistans segir að Íslendingar eigi að hafa forustu um að settar verði reglur um veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum og að samningum verði náð milli þeirra þjóða sem nýta sameiginlega þau svæði. Það þótti því mjög eðlilegt að taka þátt í starfi úthafsveiðinefndar sem samdi þetta frv. Nefndarstarfið var um margt fróðlegt og gagnlegur samráðsvettvangur þingflokka og hagsmunaaðila um úthafsveiðimál og samningaviðræður við erlend ríki um þau efni. Það varð þó fljótlega ljóst að ekki næðist samkomulag um frv. og að einstakir nefndarmenn hefðu fyrirvara við einstakar greinar frv. og jafnvel frv. í heild eins og segir í skilabréfi nefndarinnar.

Ég vil undirstrika að frv. sem hér liggur fyrir er ekki sameiginleg niðurstaða nefndarinnar. Fljótlega kom í ljós að enginn vilji var til þess að ræða ýmsar grundvallarforsendur sem gengið var út frá og því fór að mínu mati, eins og ég sagði á síðasta þingi, ekki fram sú grundvallarumræða sem ég hafði vænst í nefndinni. Á bls. 9 í greinargerð frv. segir um meginsjónarmiðin sem gengið var út frá. Ég vil benda á þessa setningu, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Frv. byggir að miklu leyti, þar sem við getur átt, á þeim meginsjónarmiðum sem gilt hafa um stjórn fiskveiða innan efnahagslögsögu Íslands hin síðari ár.``

Það má segja að nokkrir nefndarmanna, einkum fulltrúar Alþfl. og Kvennalista, töldu alls ekki sjálfgefið að fara þær leiðir sem farið var. Ég tel sjálf t.d. að það hefði átt að taka meira tillit til 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna frá 1990 um sameignarákvæði nytjastofna innan lögsögunnar og á þeirrar grundvallarreglu að veiðar á úthöfum séu frjálsar samkvæmt frv. sem nú er til umræðu. Í staðinn er það stefna ríkisstjórnarinnar að hlaða endalaust undir þá sem fengu úthlutað aflaheimildum árið 1984 og núna virðist eiga að færa þeim úthöfin líka. Þetta er grundvallaratriði sem verður að koma skýrt fram. Það felst að mínu mati nógu mikið misrétti í því hvernig núverandi lög um stjórn fiskveiða eru útfærð þó að sömu aðilum séu ekki færð úthöfin á silfurfati líka þó að það sé reyndar ekki alveg svo eins og ég kem að hér á eftir. En flestir landsmenn vita að kvótahafar innar lögsögunnar hafa á undanförnum árum fjármagnað úthafsveiðar sínar með því að leigja öðrum fiskveiðiheimildir í lögsögunni og nú á veiðireynsla þeirra á úthöfum að færa þeim réttinn til úthafsveiða umfram aðra líka.

Vissulega er í sumum tilfellum um áhættusamar frumkvöðulsveiðar að ræða, enda er það viðurkennt í frv. að ráðherra sé heimilt að láta frumkvöðla fá sérstaklega 3% heildaraflans úr flökkustofnum, sbr. 5. gr. og annað eins úr öðrum stofnum, sbr. 6. gr. Slíkt getur vel átt við og ég geri ekki athugasemdir við það. En að færa eigi sömu aðilum og hafa aflaheimildirnar innan lögsögunnar úthöfin til einkaafnota, gengur ekki því að auðlindin innan lögsögunnar er í eigu þjóðarinnar en úthöfin á enginn mér vitanlega, enda segir í úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna að veiðar eigi að vera sem frjálsastar á úthöfunum. Það er aðalregla.

Ég ætla ekki að ræða frv. efnislega að sinni en tek undir það með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að vonandi fær frv. ítarlega umræðu í sjútvn. þingsins. Það eru þó þrjú efnisatriði sem ég vil koma stuttlega inn á að sinni.

Í fyrsta lagi fagna ég því að úthafsveiðisáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur nú verið lagður fyrir þingið og vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvenær fyrirhugað er að mæla fyrir honum og hvort hann hafi í hyggju að fullgilding hans geti átt sér stað áður eða samfara því að þetta frv. verði samþykkt. Ég taldi í vor að næsta skrefið sem Alþingi bæri að taka varðandi úthafsveiðar væri að samþykkja úthafsveiðisáttmála og ég er þeirrar skoðunar enn.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á að samkvæmt frv. þessu um úthafsveiðar er lagt veiðileyfagjald á þá sem stunda úthafsveiðar. Það er dálítið athyglisvert með hliðsjón af þeirri andstöðu sem núverandi stjórnvöld hafa sýnt því að taka upp veiðileyfagjald innan lögsögunnar. Eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir benti á áðan, er gjaldmiðillinn þorskur en ekki peningar og þeir sem fá greiðslurnar eru ekki íslenska ríkið heldur kvótahafarnir innan lögsögunnar. Þegar maður sér svona þá veltir maður fyrir sér hver er eiginlega hæstv. sjútvrh. í þessu landi. Er það formaður LÍÚ eða einhver annar?

Í þriðja lagi er ljóst að á alþjóðavettvangi, t.d. innan NAFO og víðar, erum við Íslendingar að fá á okkur orðspor sjóræningja. Slíkt má aldrei gerast og því tel ég í raun mikilvægt að löggjöf sé sett um úthafsveiðar. En vissulega þarf slík löggjöf að henta heildinni, landsmönnum öllum, en ekki sérhagsmunum nokkurra kvótaeigenda. Frv. samanspyrðir veiðar innan og utan lögsögunnar, væntanlega í þeim tilgangi að tryggja að óheft markaðskerfi ríki innan sjávarútvegsins í heild. Slíkt er vafalaust hagkvæmt en það getur orðið og verið óréttlátt og þetta frv. mun særa réttlætistilfinningu fólks alveg eins og núverandi kerfi um stjórn fiskveiða innan lögsögunnar gerir. Það þarf að stokka fiskveiðistjórnunarkerfið upp þannig að sameignarákvæði fiskveiðistjórnunarlaganna sé virkt og tryggja frjálsar veiðar á úthöfunum án þess að sjálfbærri nýtingu fiskstofna sé ógnað. Úthafsveiðarnar hafa gefið mikið í aðra hönd, en áður en lokagróðinn er metinn er mjög mikilvægt að hugsað sé heildstætt hvert við stefnum, ekki síst í umhverfismálum. Þar á ég við útblástur á koltvíoxíði og hættuna á ofveiði og að ekki verði sjálfbær nýting á fiskistofnunum, samanber umræðuna um Flæmingjagrunn og að þar eigi sér stað ofveiðar. Þetta þarf að gerast og það verður að vernda orðspor okkar sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar í samfélagi þjóðanna.